Nýjar sögur verða til daglega á Gljúfrasteini og þær eru sannarlega skreyttar mörgum góðum viðburðum og skemmtilegum uppákomum.
En það eru gestir safnsins sem halda sögunni lifandi. Þeir koma, skoða hlusta og standa auglitis til auglitis við fortíðina. Þeir upplifa andrúmsloft liðins tíma sem stendur í stað í stofunni á Gljúfrasteini, í vinnustofunni, í svefnherbergjum Auðar og Halldórs, í málverkunum, í handverki Auðar og klukkan í anddyrinu tifar enn hægt og virðulega ,,ei-líbbð, ei-líbbð.”
Fjölmargir gestir erlendir og innlendir sækja safnið ár hvert, stórir hópar, litlir hópar og einstaklingar. Sumir erlendir ferðamenn hafa farið um langan veg til þess eins að sjá heimili Nóbelsskáldsins í Mosfellsdal, hús rithöfundarins sem þau hafa lesið og dáð áratugum saman og fá núna tækifæri til að heimsækja heimili hans.
Auk þess kemur mikill fjöldi barna og ungmenna í skólaferðir í dalinn til að fá fræðslu um safnið og verk Halldórs. Þau eru aufúsugestir á safninu.
Í ár varð safnið fimmtán ára en það var opnað við hátíðlega athöfn 4. september árið 2004.
,,Nú á þjóðin þetta hús,” sagði Auður Laxness í ræðu þennan dag fyrir fimmtán árum og bætti við að nú væri hún sjálf í hópi annarra gesta á sínu gamla heimili og óskaði safninu velfarnaðar um ókomna tíð.
Kraftstöð íslenskrar menningar og lista
Haustið 2002 flutti Auður frá Gljúfrasteini tveimur árum áður en safnið var opnað tæplega fjórum árum eftir að Halldór Laxness lést. Auður og Halldór bjuggu saman á Gljúfrasteini í hálfa öld. Þau fluttu inn sama dag og þau giftu sig, á aðfangadag árið 1945.
Á opnunarhátíð safnsins sagði Þórarinn Eldjárn rithöfundur frá því þegar Halldór og Auður festu kaup á húsinu, byggingu þess og deginum sem þau fluttu inn:
,,og þar með hófst sagan sem gerði Gljúfrastein í einni svipan að einhverri helstu kraftstöð íslenskrar menningar og lista … Í dag hefst nýr kafli í þeirri sögu,” sagði Þórarinn sem þá var formaður stjórnar Gljúfrasteins.
Afmælisárið á Gljúfrasteini var afar viðburðarríkt.
Hér verður stiklað á stóru yfir helstu tíðindi ársins 2019 í húsi skáldsins.