Íslandsklukkan í Þýskalandi

Íslandsklukkan 1943

Verk Halldórs Laxness hafa um áratuga skeið notið mikilla vinsælda í Þýskalandi. Á undanförnum árum hefur verið gert átak í því að koma verkum hans þar út í nýjum eða endurskoðuðum þýðingum en eldri þýðingar voru stundum lagaðar að pólitískum rétttrúnaði hvers tíma. Prófessor Hubert Seelow hefur þýtt bækurnar að nýju eða yfirfarið eldri þýðingar. Íslandsklukkan hefur komið þar út í fjórum útgáfum á skömmum tíma, svo dæmi sé tekið. Fyrst kom hún út innbundin á almennum markaði, þá í tveimur af virtustu og stærstu bókaklúbbum þar í landi og loks kom hún út í kilju hjá einu helsta kiljuforlagi landsins.

Meðal hundrað merkustu bókmenntaverka aldarinnar

Árið 1993 gaf Steidl Verlag Íslandsklukkuna út fyrir almennan markað í innbundnu formi í nýrri þýðingu Huberts Seelow. Seelow þýddi bókina beint úr íslensku en áður hafði þýðingin verið gerð eftir dönskum og sænskum þýðingum. Þýska stórblaðið Frankfurter Allgemeine sagði í umsögn sinni um Íslandsklukkuna er hún kom út 1993: „Íslandsklukkan á jafn mikið erindi við samtíma sinn nú og fyrir hálfri öld.“ Steidl Verlag hefur nú á nokkrum árum gefið út tíu af verkum Halldórs Laxness í nýjum eða endurskoðuðum þýðingum. Haustið 1994 kom Íslandsklukkan í ritröð hjá Bertelsmann forlaginu sem er eitt stærsta útgáfufyrirtæki Þýskalands. Í ritröð þessari eru bækur sem þykja mestu bókmenntaverk 20. aldarinnar og nefnist hún „Jahrhundert Edition“. Íslandsklukkan er þar í mjög vönduðum búningi í öskju og fylgir henni myndskreyttur bæklingur um Halldór Laxness, líf hans og feril. Aðeins verða eitt hundrað bækur eftir jafn marga höfunda valdar í þetta safn. Bertelsmann stendur að ritröðinni ásamt austurríska útgáfufyrirtækinnu Donauland. Haustið 1994 kom Íslandsklukkan einnig út hjá hinum virta bókaklúbbi Büchergilde Gutenberg. Þá gaf Deutscher Taschenbuch bókina út í kilju í Þýskalandi.

Fjórar bækur í kilju á einum mánuði

Í febrúar 1997 komu fjögur verk Halldórs Laxness út í kilju í Þýskalandi hjá útgáfufyrirtækinu Steidl sem verið hefur aðalútgefandi á á verkum Halldórs þar í landi á undanförnum árum. Óhætt er að segja að þetta sé óvenjulegt, að fjórar nýjar útgáfur komi út í sama mánuði eftir sama rithöfun. Verkin sem hér um ræðir eru Kristnihald undir Jökli, Paradísarheimt, Úngfrúin góða og Húsið og smásagnasafnið Sjö töframenn. Bækurnar hafa allar komið í nýjum, innbundnum útgáfum hjá Steidl á síðustu átta árum og hlutu þá einkar lofsamlega dóma í þýskum blöðum. Á bókarkápu á hinum nýju kiljuútgáfum er vitnað til umsagna þarlendra stórblaða um þessi verk.

Fögur og undursamleg saga

Um Kristnihald undir Jökli segir í Der Stern: „Leyndardómsfull furðufuglasaga sem kemur tárunum til að hlæja.“ Kristnihald undir Jökli kom fyrst út árið 1968. Skáldsagan hefur komið út á tíu tungumálum í 21 útgáfu. Á kápu Paradísarheimtar er birtur hluti umsagnar Frankfurter Allgemeine Zeitung um bókina en í dómi blaðsins er m.a. vitnað í texta verksins sjálfs um aðalpersónuna, Steinar bónda: „Fögur og undursamleg saga … Hún er ekki sögð til þess að prédika yfir lesandanum eða kenna honum heldur eingöngu „til þess að svo ágætur brikkleggjari gleymist eigi með öllu.“ Það nægir.“ Paradísarheimt kom út árið 1960 og hefur verið gefin út á 14 tungumálum í 36 útgáfum.

Snemmborinn gimsteinn

Vitnað er til Süddeutsche Zeitung á kápunni á Úngfrúnni góðu og Húsinu og Sjö töframönnum. Um Úngfrúna góðu og Húsið segir blaðið: „Þessi saga frá 1933 er snemmborinn gimstein úr hinu fjölbreytta höfundarverki Halldórs Laxness og vinnur að því að rugla lesandann svo í ríminu að hann nær ekki áttum fyrr en honum verður ljós sagan að baki sögunni.“ Úngfrúin góða og húsið kom fyrst út í smásagnasafninu Fótatak manna árið 1933 en hefur gjarnan verið gefin út sér erlendis. Alls hefur hún komið í 23 útgáfum á 13 tungumálum. Um Sjö töframenn segir stórblaðið þýska: „Að lesa þessa bók einu sinni er ekki nóg. Sögurnar í safninu streyma lipurlega fram, í þeim birtist glettni og gleði en einnig glöggskyggni og hagleikur.“ Smásagnasafnið Sjö töframenn kom fyrst út árið 1942. Þar er að finna margar af þekktustu smásögum Halldórs Laxness, m.a. „Napóleon Bónaparti“, „Völuspá á hebresku“ og „Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933“. Smásögurnar úr Sjö töframönnum hafa birst á fjölmörgum tungumálum í safnritum og tímaritum. Dómar í þýskum blöðum á síðustu árum um verk Halldórs Laxness hafa raunar allir verið í sama dúr. Die Welt sagði 1991: „Halldór Laxness er einn mesti rithöfundur 20. aldar.“ Og ári síðar sagði sama blað: „Halldór Laxness er meistari hugarflugsins, gamansamur töframaður sem segir sannleikann umbúðalaust; í fjöri sínu og ferskleika líkist hann, í bókmenntalegu tilliti, áttunda undri veraldar.“ Stórblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði 1992: „Halldór Laxness er áhrifamikill sagnamaður.“ Sama ár ritaði Die Wochenzeitung: „Halldór Laxness er partíarki evrópskra bókmennta og einn mesti rithöfundur okkar daga.“