Mannlíf á spjaldskrá

Sjálfsagðir hlutir 1946

„Eina stofnun gætum við íslendíngar rekið með meiri árángri en flestar aðra þjóðir, til að efla þekkíngu vora á sjálfum okkur í fortíð og nútíð, en það er mannfræðistofnun, „skrifstofa“ sem hefði með höndum skrásetníngu allra íslendínga sem heimildir eru um, dauðra og lifandi.“ Þetta ritaði Halldór Laxness í grein árið 1943 sem nefnist „Mannlíf á spjaldskrá“ og síðar var prentuð í Sjálfsögðum hlutum.

Síðan segir hann: „Hið fyrsta verkefni skrifstofunnar væri að gera atriði hvers manns sem eitthvað er kunnugt um, greindur uppruni hans þannig að síðan megi gánga í spjaldskrána og finna hvar hver íslendíngur á ætt, svo fremi kunnugt sé, loks séu á spjaldinu tilvísanir í heimildir, ritaðar eða prentaðar, um hvern mann. Með þessu móti mætti fá gleggra yfirlit um persónusögu íslendínga en aðrar þjóðir hafa tök á að gera sér. Ættir væru hér allar kerfaðar, þannig að starfsfólk stofnunarinnar gæti með stuttum fyrirvara tekið saman ætt hvaða íslendíngs sem vera skal, en þær persónur sem ekki tekst að ættfæra, td Jón Jónsson sem kemur fyrir segjum í einu bréfi á 15du öld, yrði skráður vafagepill í eitt skifti fyrir öll, óheimfæranlegur við annað.“ Halldór segir að ástæðurnar fyrir því að þetta liggi betur við Íslendingum en öðrum eru þær að Íslendingar hafi lifað í þúsund ár á afmörkuðu svæði, auðvelt sé að ná yfirsýn yfir hópinn sökum fámennis og fræðimenn hafi skráð persónufróðleik allt frá landnámi.

Í lok greinarinnar ritar Halldór: „Mér er sagt að leynilögreglan þýska muni hafa tugmiljónir manna víðsvegar úr heimi á spjaldskrá, með athugasemdum um uppruna hegðun skoðanir og lyndiseinkunn auk æviatriða - alt í þeim tilgángi að geta geingið að mönnum og drepið þá við hentugt tækifæri. Í samanburði við spjaldskrá Himmlers, sem miðast við morð, væri lítið verk að gefa þessum fáu íslendíngum líf á spjaldskrá.“