Kirkjan á fjallinu

Halldór Laxness með kollega sínum Gunnari Gunnarssyni sumarið 1947.

Halldór Laxness skrifaði árið 1931 grein sem nefnist „Kirkjan á fjallinu" og fjallar um það sem hann kallar „höfuðrit Gunnars Gunnarssonar".

Greinin birtist síðar í ritgerðasafninu Dagleið á fjöllum árið 1937. Gunnar stóð um þessar mundir á hátindi ferils síns í Danmörku sem einn vinsælasti höfundur landsins og var frægð hans þá raunar mikil víða um heim. Halldór þýddi síðar Kirkjuna á fjallinu úr dönsku og kom hún út á árunum 1941-43. Þess má geta að Gunnar þýddi Sölku Völku á dönsku árið 1934 og ruddi Halldóri þannig braut á erlendan bókamarkað. Í greininni segir hann meðal annars:

„Sé barátta mannkynsins álitin heilög hvarsem hún er háð, þá hafa ýmsir vitríngar nútímans rétt fyrir sér, sem telja þá menn helga, er draga saman í einn brennipúnkt örlagaeinkenni kynkvíslanna, þjáníngar þeirra og gleði, hamíngju þeirra og böl, líf þeirra og dauða. 

Það er í senn gleðilegt og virðíngarvert, hve trúarlegri alvöru Gunnar Gunnarsson lítur höfundarkall sitt. Þessi helgitilfinníng hans gagnvart hlutverki sínu kemur einna greinilegast fram í valinu á heiti hins mikla höfuðrits, sem skapar þriðja og glæsilegasta tímabilið á höfundarævi hans, Kirkjunni á fjallinu. ...

Í bókum annars tímabilsins er höfundurinn þráttfyrir hið nýa land sitt [Danmörku] enn háður hrjóstrugri heiðanáttúru, arðrýrum dölum milli gagurra klettabelta, og gneypu hafi, ennþá hinn þúngstígi dalamaður, þráttfyrir malbik stórstaðanna og saungva þess, mildara loftslag og frjórra land; í Sælir eru einfaldir er stíll hans þó farinn að taka all-ábærilegum stakkaskiftum. Í Kirkjunni ber búníngur hans með sér fullkomna samsömun við stjúplandið, hin tindilfætta danska kímni er öll komin inní stíl hans, ekki þannig að íslendíngurinn í honum hafi spilst, þvert á móti: það er aðeins um að ræða nýa raddsetníngu við hinn þúnga, íslenska undirtón, sem altaf hlýtur að verða grundvöllurinn í verkum hans. Þráttfyrir hina leikandi dönsku sína er Gunnar Gunnarsson ramm-íslenskari undirniðri en nokkru sinni fyr. Aðeins sjáum vér þennan íslenska höfund altíeinu sem fjölkunnan listleikara hins tískasta óbundins máls, gæddan meistarakunnáttu sem aðeins er sambærileg við útförnustu samtímasnillínga þessarar listgreinar. Stíl-jarðvegurinn er altíeinu orðinn svo frjór, að uppaf hverjum lófastórum bletti, útúr hverri handfylli af efni vex nú ypparlegasti gróður, höfugur af þroska og frjósemd. Þarsem fyrri bækurnar bera víða svip af ógurlegum erfiðismunum, þreytu og sjálfstyptun, þá er í Kirkjunni hver pennadráttur orðinn töfraþrúnginn leikur, öll ummerki átaka og erfiðis eru horfin, en smjör drýpur af hverju strái."