Frjáls í mínu lífi

Auður Sveinsdóttir. Myndin er líklegast tekin einhvern tímann á tímabilinu 1936-1938.

„Frjáls í mínu lífi“ eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins í apríl árið 2002. Greinin er birt hér fyrir neðan í heild sinni, en einnig er hægt að lesa hana hér, á vefnum tímarit.is.

 

Frjáls í mínu lífi

Auður Sveinsdóttir Laxness stendur nú á tímamótum í lífi sínu. Hún hefur ákveðið að flytja úr Gljúfrasteini eftir áratugalanga búsetu þar og búa sér heimili í nýrri íbúð í Mosfellsbænum.

Þegar blaðamann ber að garði rétt fyrir níu að morgni er Auður búin að leggja á borð fyrir kaffi og þegar farin að undirbúa hádegisverð. Af magninu að dæma er maturinn ekki fyrir hana eina svo það er ljóst að enn eru töluverð umsvif í heimilishaldinu hjá henni, þótt hún sé orðin 83 ára gömul. Hún er kvik á fæti, þar sem hún skýst á milli eldhúss og borðstofu og setur kaffi í dæmigerða ítalska espressokönnu. „Ég á margar könnur niðri í kjallara sem hétu „Pento“, en þær voru afskaplega góðar. Ég hef alltaf haft svona kaffi, mér finnst ekki gott kaffi úr rafmagnskönnum,“ segir Auður brosandi um leið og hún tyllir sér við borðstofuborðið.

„Viðskilnaðurinn við húsið er ekki vondur,“ segir hún þegar hún er spurð hvernig flutningarnir leggist í hana, „ég er búin að lifa mínu lífi hérna, og það getur varla orðið lengra, ég er búin að vera hérna í 56 ár. Mér finnst það fínt, enda verð ég hérna í nágrenninu og vil alls ekki fara neitt annað.“

Húsið að Gljúfrasteini var teiknað af Ágústi Pálssyni, sem einnig teiknaði t.d. Neskirkju, og það er um margt sérstakt, sniðið að þörfum hennar og Halldórs með ákaflega persónulegum blæ. „Pabbi gerði hér öll ljós og gerði upp ljósakrónuna í stofunni. Það kom þannig til að ég fór í búð þar sem fékkst dálítið af þessu hvíta gleri sem er í ljósunum og keypti það allt. Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera við þetta gler, en þetta var 1945 og þá fékkst ekkert í búðunum. Pabbi smíðaði því ljósin utan um glerin. Baðkarið hérna hjá okkur er líka t.d. dálítið styttra en gengur og gerist, en þetta var eina baðkarið sem fékkst í bænum – hjá Helga Magnússyni. Magnús sonur hans var bekkjarbróðir minn og hann lét mig hafa karið,“ segir Auður hlæjandi. „Þótt ég hefði viljað fá eitthvað lengra, hefði það ekki verið hægt. En það var nú ýmislegt hérna í húsinu sem ég hef þurft að láta skipta út af því það var ekki nógu vandað, eins og slökkvararnir sem voru búnir til úr einhverju gömlu og ódýru. Í húsinu stendur þó enn í rauninni allt eins og var í upphafi, nema bara að það þurfti að færa flygilinn sem var hérna fyrir framan gluggann. Hann þoldi ekki hitabreytingarnar þar og það sprakk í honum hljómbotninn. Þar sem hann er núna var áður hornsófi með handofnu áklæði, sem fór til Ásdísar systur minnar þegar hann varð að víkja fyrir píanóinu. Annars voru öll gluggatjöld og áklæði í húsinu handofin af Karólínu Guðmundsdóttur vefkonu. Ég vildi hafa það þannig og hannaði útlitið á vefnaðinum. Megnið af gluggatjöldunum var einlitt, en þau sem voru stutt voru með einföldum bekkjum. Þessi vefnaður var hér uppi þar til hann var orðinn ónýtur.“

Litirnir í húsinu eru óvenjulegir og þeim hefur ekki verið breytt. Auður segist alltaf hafa haft þennan sama hlýja græna lit á borðstofunni því hún kunni vel við hann. Arkitektinn, Ágúst, valdi allan við inn í húsið, svo sem í stofunni „hann brá sér þó til Ameríku þegar verið var að byggja,“ segir Auður og brosir, „og þá var óvart settur hvítur eða mjög ljós viður í loftin í stofunni, sem var alveg hræðilegt. Það var þó sem betur fer allt tekið niður og lagfært.“

Auður segir að þau hafi líka verið ákaflega heppin með smiði, trésmíðaverkstæðið Björk sá um smíðarnar og það sem unnið var þar hefur allt enst fram á þennan dag. „En þegar við vorum búin að vera hér í svona fjögur ár létum við breyta aðeins, því það var ekki hægt að opna á milli eldhússins og borðstofunnar. Ég lét opna þar á milli og um leið var sett stálborð í eldhúsið, sem er það besta sem ég veit,“ segir Auður, sem oft hefur þurft að hafa mikið við í eldhúsinu, sem er þó hreint ekki stórt. „Við Guðjón Einarsson, sem var kokkurinn okkar, fundum upp svo ágætt system niðri í kjallara til þess að geta flýtt fyrir okkur þegar tekið var á móti mörgu fólki. Einu sinni var von á 80 manns í mat sem gátu svo ekki komið á tilsettum degi vegna veðurs svo það þurfti að fresta máltíðinni um tvo daga. Á endanum komu þó allir á páskadag, fólkið sat hérna upp allan stigann og þetta gekk allt saman ágætlega. Guðjón eldaði alltaf fyrir okkur þegar gestir komu en það var mikið og oft. “

Í þessu tiltekna tilfelli var verið að elda af tilefni tónleika píanóleikarans Henryk Sztompka, árið 1950. Auður stendur á fætur og fer ofan í skúffu í borðstofunni þar sem hún geymir tónleikaskrár, boðskort og ýmislegt tengt viðburðum úr lífi hennar og Halldórs. Innan um fjölmargar aðrar liggur einnig efnisskrá þessara tónleika, fallega prentuð rétt eins og þeir hefðu átt sér stað í tónleikasal úti í bæ. „Sztompka var voðalega hræddur hérna á Íslandi,“ rifjar Auður upp er hún dregur efnisskrána fram í dagsljósið, „honum fannst svo mikið rok. En hann spilaði afskaplega vel.“

Auður segir frá því í samtalsbókinni „Á Gljúfrasteini“ að Ágúst arkitekt hafi talað „mest um hljómburð í sambandi við [Gljúfrastein], eins og hann gerði ráð fyrir að [þar] yrði eintómur konsert“, en það er rétt eins hann hafi haft hugboð um það sem síðar varð. Því það eru vísast ekki margir sem hafa haft reglulega tónleika á heimili sínu um langt skeið, eins og þau Halldór og Auður, og því forvitnilegt að fá að vita hvernig það kom til.

„Hann Ragnar í Smára átti flygil sem hann fékk í Barnaskólaportinu, en flygillinn var stríðsgóss frá Englandi. Ragnar bað síðan mann frá Danmörku að gera flygilinn upp og sagði okkur svo að hann vildi láta okkur fá flygilinn gegn því að við héldum tónleika fyrir útlenda gesti sem kæmu til landsins. Og við Halldór gerðum það. Ég man nú ekki hvenær síðustu tónleikarnir voru en þeir voru reglulegir um langt árabil. Gestirnir voru vinir okkar úr Reykjavík, Ragnar og Björg kona hans, Kiddi í Kiddabúð og þeir sem stóðu að Tónlistarfélaginu.“

Aðspurð segir Auður að það hafi nú atvikast þannig að vinir þeirra voru frekar músíkfólk en rithöfundar þó að auðvitað hafi þau stundum haldið boð fyrir rithöfunda líka og þeir komið til þeirra í gegnum tíðina. Sjálfur lék Halldór á píanó, „en bara fyrir sig, eða okkur,“ segir Auður. „Hann hætti þó að spila um tíma því hann fékk svo mikla gikt í hendurnar, en svo lagaðist það allt í einu og hann fór að spila aftur.“ Hún segir það merkilegt að þegar fór að líða á ævikvöld Halldórs hafi tónlistin haft sinn sess; „það síðasta sem hann gerði hérna á heimilinu áður en hann fór á spítalann, það var að spila á píanóið.“

Talið berst aftur að tónleikum í húsinu og Auður er spurð hvort þau hafi ekki í raun rekið einskonar menningarsetur en ekki bara heimili? „Jú,“ svarar hún að bragði, „það má alveg segja það.“

Ýmsir frægir gestir komu í tengslum við þessa tónleika svo sem Mistislav Rostropovits, en hann kom þó ekki til að spila. „Ég spurði hvort hann ætlaði ekki að leika fyrir okkur,“ segir Auður og hlær, „en hann sagði, „veistu, ég bara gleymdi konunni heima“. Hann var þó ekki giftur enn, enda svo ungur á þessum tíma – var auðvitað bara að tala um sellóið! Við Halldór hittum hann þó oft eftir þetta, á tónleikum erlendis auk þess sem við vorum eitt sinn boðin út að borða með honum og Ashkenazy-hjónunum sem var ákaflega ánægjulegt. Þeir eru báðir skemmtilegir menn.“

Þótt yfirleitt fari fólk bara heim til sín að tónleikum loknum var því ekki þannig farið á Gljúfrasteini. Auður segist í fyrstu hafa haft kaffi og meðlæti fyrir tónleikafólkið, „en síðan settum við það upp í að hafa mat. Það var ágætt,“ segir hún einfaldlega, „og gekk ágætlega,“ rétt eins og ekki hafi verið svo mikið fyrir því haft, þótt verulegt umstang hljóti að hafa fylgt því.

Stundum setti veðrið strik í reikninginn og Auður segist minnast fyrrnefndrar 80 manna veislu einmitt vegna þess að Halldór fór á jeppanum sem þau áttu til að sækja hjálparstúlkur sem áttu að vera henni til aðstoðar. „Hann ætlaði svo aldrei að komast heim og varð að lokum að skilja bílinn eftir í Reykjahlíð því veðrið var svo slæmt og fannfergið svo mikið að hann þurfti að ganga með stúlkunum heim. Stúlkurnar voru þær Inga Mogensen og Ingunn móðursystir mín, en þegar þær komu hingað voru þær svo aðframkomnar að ég varð að leggja þær á teppi hérna á gólfinu og draga nælonsokkana í tætlum af Ingu Mogensen. Ingunn frænka mín var betur búin í ullarsokkum svo hún var í lagi.“

Það er ljóst að ekki hefur alltaf verið auðvelt að búa svona utan við bæinn og þegar Auður er spurð um aðdraganda þess að þau völdu að búa á Gljúfrasteini segist hún engu hafa ráðið um það, „þetta var Halldór búinn að planleggja. Það var eiginlega þannig að við systurnar vorum að velta því fyrir okkur að setja upp barnaheimili úti í Viðey. Stríðið var ennþá og við gátum fengið skólann, sem Steinn Steinarr átti, leigðan fyrir fimm þúsund krónur. Okkur fannst þetta voðalega sniðugt og Steinn fór með okkur að skoða aðstæðurnar. En þá kemur Engilbert Hafberg, sem átti þá Viðey, og segir okkur að báturinn kosti hundrað og fimm þúsund, og ekki getum við verið með barnaheimili í eyju án þess að eiga bát, svo þetta féll allt um sjálft sig.“

Auður segir að það hafi verið þegar hún kom til baka úr þessari ferð, en þau Halldór voru þá búin að vera saman í ein fimm ár, að hann segir henni að hann sé nú að hugsa um að byggja uppi í Mosfellssveit. „Ég varð voðalega hissa og hélt fyrst að hann meinti bara svona sumarbústað eða eitthvað svoleiðis. En þetta hefur verið svo þrauthugsað hjá honum að það er alveg sama á hvaða glugga maður lítur hérna, það er alstaðar jafnfallegt útsýni. Halldór velur staðinn og kaupir landið. Hann var sömuleiðis búinn að útvega sér vatnsréttindi og vélar til þeirra framkvæmda, en það þurfti að leggja leiðslur um nokkurn veg. Hann fékk líka Vilmund Jónsson, sem aldrei fór neitt til annarra í vinnu, ekki einu sinni til barnanna sinna, til þess að koma hingað áður en húsið var byggt og gera rotþró,“ segir Auður og bendir um leið út um borðstofugluggann á fuglana sem þar eiga sinn þátt í útsýninu, sem er enn jafnfallegt og þegar Halldór var að velja staðinn.

Inn í húsið flutti Auður svo á aðfangadag 1945, sem aukinheldur var brúðkaupsdagurinn hennar. „Þá fór ég hingað, þegar ég var búin að borða jólamatinn heima hjá mömmu og Halldór heima hjá sér. Ég kom með móðurbróður mínum sem kveikti upp í ljósavélinni fyrir mig og kenndi mér á allt sem ég þurfti að kunna í húsinu. Daginn eftir hafði ég veislu og var búin að kaupa mér tvær hænur, en á þessum tíma fengust þær ekki nema bara á bóndabæjum. Ég var búin að hreinsa þetta voðalega vel og hafði kertaljós til þess að svíða þær og sauð þær síðan á prímus sem var notaður til eldamennskunnar hér í tvö ár, því ekki var nóg rafmagn fyrir eldavél þó ljósavélin hafi verið góð. Sigurður Thoroddsen og Ásdís systir mín voru boðin í mat, en þegar þau komu var ég alveg orðin lens í eldamennskunni. Sigurður tók þá af skarið og sagði að það væri svo mikið soð af hænsnunum að við byggjum bara til súpu líka. Hann sá svo um að ljúka við matseldina og súpan hjá honum var fín.“

Svo þið hafið þá verið hér í fyrsta sinn á jólanótt 1945?

„Ja, Halldór kom ekki fyrr en með gestunum daginn eftir, þegar allt var tilbúið. Hann var svoleiðis maður og það var allt í lagi með það,“ segir Auður og hefur greinilega ekki kippt sér upp við það.

Á milli Auðar og Halldórs var sextán ára aldursmunur og þegar hún er spurð að því hvort hún hafi sem kornung kona gert sér grein fyrir því hverskonar hlutverki hún myndi gegna svarar hún umsvifalaust neitandi. „Ég gerði mér ekkert grein fyrir því,“ segir hún og játar að það hafi kannski verið jafngott.

En þetta hlýtur að hafa verið mikil umsýsla hjá þér í byrjun að koma og reka þetta menningarheimili við svona tiltölulega frumstæðar aðstæður?

„Það var heilmikið,“ viðurkennir Auður, „en fljótlega var þó farið að huga að því að fá rafmagn í húsið. Í því tilfelli var þó vandinn sá að það þurfti fimmtán manns til að vinna verkið og enginn gat hugsað sér að taka þá í fæði. Það endaði með því að Fríða Eysteinsdóttir, sem var hérna ráðskona, tók þetta allt saman að sér, því ég var að vinna á röntgendeild Landspítalans á þessum tíma. Hún gaf þessum mönnum að borða þá fimmtán daga eða hvað það var sem það tók þá að setja rafmagn í húsið. Það munaði nú aldeilis um það.“

Auður segir að eftir þetta hafi þau ráðist í að koma upp olíukyndingu og það hafi verið óskaplegur munur þegar þau hættu að kaupa kol. „Þeir spurðu bara hvort við ætum kolin,“ segir hún og hlær, „því við þurftum að kaupa svo mikið. Húsið var bæði stórt og heldur ekki vel einangrað.“ Með árunum var því búskapurinn á Gljúfrasteini færður í líkt horf og aðrir bjuggu við í bænum.

Af samræðunum við Auði má draga þá ályktun að hún hafi verið ákaflega nútímaleg kona. Hún var útivinnandi ásamt því að reka heimilið og þótt hún hætti að vinna á Landspítalanum 1947 sinnti hún margvíslegum störfum eftir það. „Þegar ég sá fram á að geta ekki unnið mitt starf fór ég í Handíðaskólann og tók próf sem handavinnukennari og stundaði kennslu um nokkurt skeið við skólann í Mosfellsbænum,“ segir Auður. „Halldór var afskaplega góður með það að hann skipti sér aldrei af því sem ég var að gera,“ segir hún, „heldur hvatti mig frekar til þess að gera það sem mig langaði til. Ég furða mig raunar á því nú í seinni tíð hvað ég gerði mikið. Ég skrifaði t.d. alltaf í kvennablaðið Melkorku og seinna fyrir Hug og hönd. Ég hafði alla mína hentisemi við það, því eins og ég segi var Halldór mikill hvatamaður þess að ég gerði það sem mig langaði til.“

Auður var manni sínum líka að sjálfsögðu mikil stoð og stytta, en þegar frá leið gegndi hún sífellt veigameira hlutverki í vinnuferli hans. „Ég varð einskonar einkaritari með tímanum,“ segir hún, „en það byrjaði þannig að við vorum í Svíþjóð og Halldór var að skrifa grein um útilegumenn. Svo var honum boðið í boð þar sem voru eintómir karlmenn – það er eina skiptið sem ég sá vín á honum um ævina – en ég hafði farið í þetta hjá honum á meðan. Hann tók því þó vel og var feginn að ég hafði verið að lesa þetta. Eftir það skrifaði ég alltaf fyrir hann.“

Það kemur í ljós að uppfrá þessu atviki hlustar Auður á bækur Halldórs verða til. „Það gekk þannig fyrir sig að hann sat í horninu og „dikteraði“ mér. En svo þegar hann var kominn í síðustu yfirferð þá var ég að sjálfsögðu með allt á blöðum, enda þá búin að vélrita sömu bókina margsinnis. Ég tók því þátt í hverri einustu yfirferð,“ segir hún. „Þetta var mikil vinna.“

Aðspurð segist Auður alltaf hafa verið mikill morgunhani, hún vaknaði á undan Halldóri, en svo hófst þeirra vinnudagur saman. „Þetta var um margt óvenjulega náið samlíf, en svo leið oft langur tími þar sem hann var ekkert að skrifa, eða var bara að búa til bók í huganum og þá kom ég ekkert nálægt því.“

Auður segist minnast þess að hafa stundum rætt við hann það sem hún var að hafa eftir honum, sérstaklega á seinni árum þegar hann var orðinn dálítið gleyminn og hún þurfti að gæta að atriðum varðandi það. Þar gegndi hún lykilhlutverki og hefur án efa átt sinn þátt í því að Halldór vann jafnlengi og raun bar vitni. „Ég man nú ekki hvað var fyrsta verkið sem við unnum svona,“segir Auður, „en það var frekar snemma.“ Hún segist því hafa fylgst náið með þeim tímabilum sem Halldór gekk í gegnum í sínum ferli.

Annars segist hún ekki hafa blandað sér mikið í þann hluta lífs hans sem honum tilheyrði áður en þau giftust, svo sem kaþólskuna. Hún kom þó einu sinni til klaustursins í Clervaux í Lúxemborg eftir að Halldór lést og segir það hafa verið sérstaka upplifun. „Mér er það afskaplega minnisstætt þegar ég ávarpaði munk sem við vorum að versla við og sagði honum að maðurinn minn hefði verið í klaustrinu og í ljós kom að hann hafði setið inni og verið að lesa bók eftir Halldór.“

Þótt hjónin á Gljúfrasteini hafi alla tíð haft þessar sterku rætur í sinni sveit, Mosfellssveit, dvöldust þau oft langdvölum erlendis. Líf þeirra var því óvenjuleg blanda af þeirri kyrrð sem fylgir íslenskri náttúru og heimsborgarlífi. „Ég ferðaðist mikið með Halldóri áður en ég átti stelpurnar, en við vorum búin að vera gift í 5 ár þegar þær [Sigríður og Guðný] komu til sögunnar. Á meðan þær voru pínulitlar fór ég eiginlega ekkert, en svo fór ég að ferðast aftur þegar þær komust á legg,“ segir Auður. „Minnisstæðust er að sjálfsögðu þessi mikla heimsferð sem við fórum. Halldór fór á undan mér með skemmtiferðaskipi til New York, en ég flaug þangað á eftir honum ásamt Höllu Bergs sem hafði verið ráðin sem einkaritarinn hans. Það var óskaplega gaman í Ameríku og við hittum marga. Við fórum með lest þvert yfir landið og það stórkostlega landslag sem við sáum þar er ógleymanlegt. Ég man líka að þegar við komum á einhvern vissan blett á þeirri leið fór Halldór að vera svo kátur því honum þótti svo gaman að vera að koma til San Francisco. Hann fór að syngja gamla slagara sem hann kunni frá þeim tíma þegar hann var þar fyrst, og við skemmtum okkur mikið yfir því. Frá San Francisco fórum við svo á skipi yfir Kyrrahafið. Og síðan lá leið okkar víða um Austurlönd; til Indlands og Kína, og síðan til Egyptalands, en ferðalagið í heild tók hálft ár og Halldór skipulagði það allt saman.“

Auður segir þessi ferðalög í rauninni hafa verið einn skemmtilegasta þátt þess fjölbreytta lífs sem framtíðin bar svo óvænt í skauti sér í upphafi hjónabands hennar. „Það var afskaplega gaman að ferðast með Halldóri, við vorum alltaf á bestu hótelum, enda má segja að hann hafi alltaf eytt öllum sínum peningum í hótel og sjálfan sig,“ segir hún og brosir. „Enda var hann ekkert ríkur, ég var oft að prjóna upp í úthaldið.“

Nú erum við Auður búnar að ræða bæði um hennar störf utan heimilis sem og húsmóðurstörf hennar á Gljúfrasteini, en höfum þó ekki enn vikið að því opinbera hlutverki sem þau hjónin gegndu sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar um margra áratuga skeið. Hvernig kom sú þróun til?

„Ja, þetta var í rauninni dálítið Halldóri að kenna, því þegar hann þurfti að tala við menn eða þeir spurðu hvort þeir gætu hitt hann, sagði hann alltaf; „þið komið bara til mín“, – hann svaraði alltaf svona,“ segir Auður. Hún segist bara hafa verið viðbúin því og ekkert sparað sér umstangið í kringum þessar heimsóknir. „Enda hafði ég lengi stúlkur, annars hefði þetta verið óvinnandi vegur.“

Hún vill þó ekki gera mikið úr sínu opinbera hlutverki í þágu þjóðarinnar, en játar að það hafi ekki margir menn sem kvað að komið til Íslands án þess að heimsækja þau að Gljúfrasteini. „Það kom voðalega mikið af fólki,“ segir hún og gefur lítið út á það hvort þetta hafi verið erfiður starfi að sinna.

Enda er það deginum ljósara að hún hefur ekki legið á liði sínu í því mikla starfi sem fylgt hefur hjónabandi hennar og Halldórs Laxness, starfi sem hún sinnir enn þann dag í dag af mikilli elju. Nú í kringum hundrað ára afmæli Halldórs hefur verið óvenju mikið um að vera hjá Auði, en hún segist ætla að taka á móti mörgum á heimili sínu á morgun, sunnudag. „Þá kemur Davíð Oddsson ásamt fleiri gestum til að taka við húsinu,“ segir hún. „Ég er búin að taka héðan það sem ég ætla mér, en það sem eftir er fylgir húsinu. Þennan stól þarna ætla ég þó að taka líka,“ heldur hún áfram og bendir á sérstaklega fallegan stól, útsaumaðan rósamunstri, „því mamma saumaði hann.“ Ekki er þó að sjá að við miklu hafi verið hróflað á heimilinu, allt er á sínum stað, skrautmunir, húsgögn og málverk eftir þekkta listamenn, sem prýða alla veggi hússins.

Það er farið að líða á morguninn og ljóst að Auði er ekki til setunnar boðið þessa daga fram að hundrað ára afmæli skáldsins. Hún segist dálítið hissa á því hvað mikið hefur verið gert úr afmælinu, en það sé ágætt að þjóðin skuli vilja eigna sér hann. Fyrir sér sé afmælið þó fyrst og fremst einskonar endahnútur á því lífi sem lifað hefur verið í Gljúfrasteini. „Þetta var afskaplega yndislegt líf sem lifað var hérna og í rauninni engu við það að bæta,“ segir hún, „nema ef vera skyldi að ég var afskaplega frjáls í mínu lífi og gat gert hvað sem ég vildi.“

Fríða Björk Ingvarsdóttir