Jóhann Jónsson

Jóhann Jónsson (1896-1932), skáld

Halldór Laxness ritaði formála að kvæðum og ritgerðum vinar síns, Jóhanns Jónssonar skálds, árið 1953 sem síðar var prentaður í safninu Dagur í senn.

Formálinn hefst á þessum orðum: „Á útkomuári þessarar litlu bókar eru tuttugu vetur liðnir síðan höfundur hennar andaðist suðrí Leipzig þrjátíu og sex ára gamall. Á Jóhanni Jónssyni höfðu vinir hans og félagar meiri vonir festar til skáldskaparafreka en á flestum mönnum er í þann tíma óxu upp; jafnskjótt og hann hafði borist suður híngað vestan virtist mörgum sem við hann kyntust að þeir hefði eigi áður vitað úngan svein fagna áskapaðri ljóðgáfu svo alskapaðri sem hann."

Jóhann er þekktastur fyrir kvæði sitt „Söknuð" sem hefst á orðunum: „Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað." Um þetta kvæði skrifar Halldór í formálanum: „Jóhann yrkir kvæðið Söknuð á þeim misserum er hann hefur öðru sinni kent sjúkdóms þess er dró hann til dauða. Í þessu kvæði eru rakin öll fyrri kvæði hans og svo ævi; og þannig er kvæði þetta að sínum hætti andlátskvæði einsog mörg fegurstu kvæði túngunnar, ort í það mund er höfundur kveður líf sitt, helgað þeirri stundu þegar ekkert er frammundan nema skuggsjá liðinnar ævi manns spegluð í andartaki hans hinstu. Sjálft er kvæðið aðeins bergmál spurnarorðsins: „hvar?" Hin fyrri smákvæði Jóhanns eru með þeim töfrum ger að það sem þau tjá er fólgið að baki orðunum; þau flytja í hæsta lagi aðeins nið af vindi eða báru; einstöku sinnum svip af skelfdu andliti. Þau rök ein eru uppi höfð að þar hæfi sem fæst orð og styst, borin af rödd sem nálgast hvísl ... harpan er í kvæðum þessum svo lágstilt og slegin svo mjúklega að næsta stigið er þögn; það er að minsta kosti ekki hægt að komast nær þögn, og vera þó kvæði. En séu kvæðin lesin í dimmum lágum kyrrum málrómi, sem þó ber í sér ljós af tenór, í því innilegu umhverfi þar sem þau eiga heima, þá verður eftir einsog óendanlegt bergmál mannlegs veruleika þegar röddin er þögnuð: og þannig las Jóhann kvæði þessi sjálfur, - í djúpum hægum gyltum bassa, sem leið útí hljóðskraf og síðan þögn. Og jafnskjótt og fullhvíslað var, tók kvæðið að rísa."