Auður á Gljúfrasteini - Fín frú, sendill og allt þar á milli

Sýningin Auður á Gljúfrasteini - Fín frú, sendill og allt þar á milli var opnuð föstudaginn 22. ágúst árið 2014 í Listasal Mosfellbæjar við Þverholt í Mosfellbæ en hún stóð til sunnudagsins 28. september 2014. Fjölmargir sóttu sýninguna og sýndu henni áhuga og því verður ljósmyndum frá sýningunni miðlað hér til þeirra sem ekki sáu hana.

Auður á Gljúfrasteini - Fín frú, sendill og allt þar á milli, sýning í Listasal Mosfellsbæjar frá 22. ágúst til 28. september 2014. Ljósmynd af sýningarsalnum; sýningarborð sem inniheldur gripi sem ættingjar völdu sérstaklega á sýninguna, ljósmyndir úr safni Gljúfrasteins, kjóll eftir danska kjólameistarann Preben Birch sem Auður klæddist við afhendingu Nóbelsverðlaunanna (í vörslu Þjóðminjasafns Íslands).

Sýningin byggir á niðurstöðum rannsóknar sem unnin var á Gljúfrasteini frá 2013-2014 þar sem farið var yfir bréfasafn Auðar, verk hennar og skrif um textíl og hannyrðir. Rannsóknin á ferli Auðar leiddi í ljós að þrátt fyrir að tilurð safnsins byggist á bókmenntum og höfundarverki Nóbelskáldsins Halldórs Laxness hefur það að geyma möguleika á því að höfða til breiðari hóps og tryggja að safnið búi yfir sveigjanleika og hreyfingu ásamt því að segja fleiri sögur. Samtímis er safnið trútt Halldóri Laxness því hann lét sig mörg og fjölbreytt viðfangsefni varða ekki síður en að vera nær allan sinn feril virkur þátttakandi í því að endurnýja íslenskar bókmenntir, koma þeim á hreyfingu, án þess þó að gleyma eða leyna því að Auður hafði sama hlutverki að gegna á öðru sviði; í hannyrðum og textíl.

Í fyrsta sinn er Auður miðpunktur á sérstakri sýningu þar sem sjá má brot af verkum hennar en hún vann alla tíð að sköpun í textíl; útsaumsverkum, prjóni o.s.frv. ásamt því að skrifa um hannyrðir, hönnun og handverk. Hugmyndin að baki sýningunni er ekki eingöngu að vekja athygli á sögu Auðar og verkum hennar heldur að varpa ljósi á öll þau fjölbreyttu hlutverk sem hún sinnti innan og utan Gljúfrasteins. Sýningin er upphafið að frekari vinnu með feril Auðar.

Um leið og saga Auðar er skoðuð afhjúpast lífsspor annarra kvenna og þræðir milli þeirra og Gljúfrasteins. Það má því gera ráð fyrir að á Gljúfrasteini verði hugað nánar að þessum þráðum og tengingu kvenna á borð við Birtu Fróðadóttur og Nínu Tryggvadóttur við safnið. Rannsóknin og sýningin Auður á Gljúfrasteini sýndi að fullt tilefni er til þess að kanna nánar þessar hliðar safnsins og segja sögur fleiri kvenna en Auðar Sveinsdóttur.

Í sýningarnefnd voru þær Guðný Dóra Gestsdóttir (safnstjóri Gljúfrasteins), Marta Guðrún Jóhannesdóttir (safnafræðingur og starfsmaður Gljúfrasteins) og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (sýningarhönnuður). Auk þeirra komu fjölmargir að sýningunni eins og dætur, barnabörn og systradætur Auðar sem öll völdu gripi á sýninguna og skrifuðu texta í sýningarskrá.