Af íslensku menníngarástandi

Seiseijú, mikil ósköp 1977

Halldór Laxness var alla tíð ófeiminn við að segja skoðanir sínar á eigin þjóð. Árið 1925 skrifaði hann grein sem nefnist „Af íslensku menníngarástandi“ og var síðar prentuð í bókinni Af menníngarástandi. Þar sagði hann meðal annars: „Íslendíngurinn er að náttúrufari seinn að hugsa, og það kostar hann erfiðismuni að segja, þótt ekki sé nema ómerkilega athugasemd um daginn og veginn.“ Og enn fremur: „Afar okkar lifðu við vos, basl og veðurhörku, á beinastrjúgi, kálystíngi og grásleppuhrognaosti, og sultu á launguföstu. Þeir sváfu á torfbálkum undir torfþökum, vafðir innaní brekánsdulu, og þegar þeir vöknuðu á mornana til að strjúka af sér lúsina, þá stíga þeir á slík gólf, berum fótunum, að sonarsonum þeirra, kontóristunum á malbikinu í Reykjavík, mundi jafnvel þykja betra að ræða ekki um.“

Halldór hafði hins vegar mikla trú á möguleikum þessarar þjóðar því að þremur árum síðar skrifaði hann í Alþýðubókinni í kafla sem nefnist „Um þrifnað á Íslandi“: „Íslendíngar eru of fáir til þess að þjóðin megi við því að drabbast niður í ólifnaði örbirgðarinnar, enda eingin þörf á því; það er nóg til af öllu handa öllum á Íslandi.“ Á öðrum stað í bókinni, í kafla sem nefnist „Um búskap á Íslandi“, segir hann hins vegar: „“Höfuðóvinurinn“ á Íslandi er hinsvegar almennur sauðarháttur og sveitamannatregða að ógleymdri kolluprikstrúnni og kotúngserginni, en þetta lið hefur tekið saman höndum að skapa þjóðinni einskonar siðferðismælikvarða.“

Á lýðveldisárinu er Halldór enn við sama heygarðshornið og skrifar í grein sem nefnist „Landkynníng“ og er prentuð í Sjálfsögðum hlutum: „Ég held það sé aðeins ein stefna til í landkynníngu sem er líkleg til að svara kostnaði og bera árángur, og það er að hefja nú með stofnun lýðveldisins alsherjarstríð gegn ómyndarskapnum verkmenníngarleysinu og draslarahættinum sem á flestum sviðum hefur mátt teljast íslenskt höfuðeinkenni.“ Í greininni „Búskapurinn“ sem prentuð er í sömu bók skrifar Halldór enn fremur: „íslendíngar þola ekki gagnrýni, það er eitt af þjóðerniseinkennum okkar. Sá maður reiðist ævinlega gagnrýni sem veit með sjálfum sér að hann hefur staðið sig illa. Lúsugur maður reiðist ef honum er sagt hann sé lúsugur, sóði ef honum er sagt hann sé skítugur og rifinn, klaufi ef honum er sagt hann kunni ekki verk sitt, subba ef kvartað er yfir því að kartöflurnar hjá henni séu vassósa, leirskáld ef hann er krítiséraður. Ómenskan gerir kröfur til að vera friðhelg, eða eigum við heldur að segja stikkfrí. Og þeim sem mestir eru skussarnir þykir síst skömm að því að láta ljúga á sig hóli. Hér er öllu hælt.“

Þremur áratugum síðar skrifaði hann síðan grein sem birtist í Seiseijú, mikil ósköp en hún nefnist „Nýtt setumannaævintýri“: „Skapbrestir þessarar kæru þjóðar virðast einatt vera helsti erfiðir til þess að hún fái haldið hér uppi lögríki og siðuðu mannfélagi svo í lagi sé. Í blöðunum hérna sjást dögum oftar merki þess hve pexnáttúran er ofarlega í þessu fólki, einkum útaf titlíngaskít.“