Smásögur

Sjöstafakverið 1964

Halldór Laxness sendi frá sér fjögur smásagnasöfn á fjögurra áratuga tímabili.

Fyrsta safnið, Nokkrar sögur, kom út árið 1923, Fótatak manna 1933 og Sjö töframenn 1942. Þessum þremur bókum var steypt saman í eitt bindi, Þætti, árið 1954. Sjöstafakverið var síðan gefið út 1964. Það er heildstæðasta smásagnasafn skáldsins, enda hugsað sem ein heild. Í Sjöstafakverinu er ein saga fyrir hvert æviskeið mannsins og því má lesa sögurnar í heild sem þroskasögu, auk þess sem á það hefur verið bent að heiti bókarinnar vísi til orða Krists á krossinum. Þegar grannt sé skoðað lýsi sögurnar hliðstæðu ferli og við krossfestinguna, allt frá angist og einsemd til sáttar og fyrirgefningar og barnslegs trúnaðartrausts. Loks voru öll smásagnasöfnin gefin út í einu bindi árið 2000.

Smásögur Halldórs Laxness hafa óhjákvæmilega staðið nokkuð í skugga hinna miklu skáldsagna hans. Hann leit gjarnan á þetta bókmenntaform sem aukagetu, sögurnar urðu til er eitthvert efni sótti á hann sem ekki var hægt að afgreiða í stórri sögu. Í glósubókum sem hann hafði jafnan með sér má enda víða sjá hvar skáldið hefur skrifað „Smásöguefni": og á eftir kemur síðan lýsing á hugmynd í einni eða fleiri setningum. Þegar betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að í smásögum Halldórs Laxness leynist margt af því besta sem hann sendi frá sér. Í þeim getur einnig að líta tilhlaup að efni sem síðar birtist í miklum skáldsögum en sem dæmi um það má nefna sögu um íslenska einyrkjann, Kálfkotúngaþátt, sem Halldór hóf að glíma við haustið 1919 en náði ekki hámarki fyrr en með Sjálfstæðu fólki 1935.

Fleyg orð

„... prófastsfrúin sagði að hjá vel uppalinni stúlku færi sjálfsvirðíngin í réttu hlutfalli við fríðleikann."
Fótatak manna. Úngfrúin góða og húsið.

„Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgáng af meiri kurteisi en Íslendíngar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendíngar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."
Sjö töframenn. Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933.

„Það er best að halda áfram og láta ráðast, því alt fer einhvernveginn og hjá forsjóninni getur ekkert farið illa."
Sjöstafakverið. Kórilla á Vestfjörðum.