Melkorka

Auður Sveinsdóttir og Þóra Vigfúsdóttir,  ein þeirra sem stóð að Melkorku og sat í ritstjórn blaðsins. Þóru kynntist Auður eftir að samband þeirra Halldórs hófst við lok fjórða áratugarins en Þóra var mikil baráttu- og hugsjónakona og eiginkona góðvinar Halldórs, Kristins E. Andréssonar norrænufræðings. Dagbækur Þóru frá stríðsárunum, í varðveislu Landsbókasafnsins, eru merkileg og mikilvæg heimild um líf þeirra hjóna og vina þeirra þar á meðal Halldórs sem Þóra hafði aðdáun á, eins og Halldór Guðmundsson ævisagnaritari Halldórs Laxness les úr dagbókum hennar (sjá Halldór Laxness - Ævisaga, bls. 449).

Tímaritið Melkorka hafði það að megintilgangi að „vekja íslenskar konur til umhugsunar og íhlutunar um menningar- og þjóðfélagsleg vandamál á innlendum vettvangi“, eins og stendur í ritstjórnarpistli þeirra Nönnu Ólafsdóttur og Þóru Vigfúsdóttur sem stóðu að blaðinu. Melkorka varð Auði mikilvægur vettvangur til þess að skrifa um hannyrðir og stöðu þeirra í nútímanum. Frá árinu 1945 skrifaði Auður reglulega í Melkorku ásamt því að hafa umsjón með kvennasíðu Þjóðviljans með Sigríði Arnlaugsdóttur og fleiri um skeið. Á kvennasíðunni mátti lesa um helstu framfarir í málefnum kvenna en hvað mesta athygli hefur vakið greinin „Ull er gull“ sem birtist á síðunni í september árið 1945. Greinin er skrifuð af miklum eldmóði og sannfæringu sem einkennir fleiri skrif Auðar. „Ull er gull“ er hvatningarræða til Íslendinga um að fullvinna ullina hér á landi í stað þess að flytja hana út. Það var einmitt m.a. í kjölfar þess að framfarir í framleiðslu lopa urðu snemma á 20. öldinni að brautin var rudd fyrir sköpun íslensku lopapeysunnar sem Auður hefur oft verið orðuð við.

Fjölbreytni einkennir greinar Auðar í Melkorku en hún hafði fyrst og fremst því hlutverki að gegna að skrifa um hannyrðir og listiðnað, eins og gjarnan var haft um verk sem skilgreind voru á mörkum listar og handverks. I júní árið 1949 sendi Auður frá sér merkilega grein um þróun íslenskra hannyrða, „Hannyrðir í nútímaskilningi“.

Þrátt fyrir handavinnuáhuga íslenzkra kvenna og mikil afköst er listgildi ekki að sama skapi. Hæst kemst smekkurinn í litavali og munstri þegar stælt er eftir gömlum, íslenzkum dúkum, sem geymdir eru á Þjóðminjasafninu og nokkrum erlendum söfnum. Það er ágætt að fólk skuli vera farið að hafa áhuga fyrir aldagamalli íslenzkri iðju, hver sem hún er. Of mikið af öllu má þó gera. Nú er bráðum svo komið að þær fáu gömlu fyrirmyndir, sem til eru, sjást alls staðar. Því fer þó fjarri að ég vilji ráða fólki frá að sækja hugmyndir á Þjóðminjasafnið. Öðru nær, farið þangað sem oftast. Þið munuð alltaf sjá eitthvað nýtt og sannfærast um að íslenzkt kvenfólk hefur lagt drjúgan skerf til safnsins og á mikinn þátt ekki aðeins í munsturgerð heldur og allri eldri myndlist okkar.“

(úr greininni „Hannyrðir í nútímaskilningi“, sem birtist í Melkorku árið 1949)

Í skrifunum leggur Auður áherslu á að konur tjái veruleika sinn í hannyrðum og endurnýi formið, hefðina. En að mati Auðar er ekki síður mikilvægt að byggja á þessari sömu hefð og fá fyrirmyndirnar til þess að hleypa hugmyndafluginu af stað í stað þess að taka eingöngu upp gömul munstur. Orð Auðar um safneign Þjóðminjasafnsins bera vott um skilning hennar og virðingu fyrir lífsstarfi íslenskra kvenna í gegnum aldirnar ásamt áhrifamætti þess í samtíðinni. En henni er umhugað um að íslenskar konur tjái sinn veruleika, nútímann, í útsaumsverkum í stað þess að túlka veruleika þeirra sem gengnir eru. Sjálf notaði Auður m.a. útsaum til þess að skrásetja þræði úr eigin lífi, sína sögu og þau áhrif sem hún varð fyrir. Púði sem varðveittur er á Gljúfrasteini og Auður nefndi Landaparís er gott dæmi um þetta en verkið felur í sér ævisögulegan þráð og varpar skýru ljósi á hlutverk Auðar í endurnýjun hefðarinnar og hæfileika til þess að skálda með nál og þræði.

Landaparís saumaði Auður eftir eigin munstri en áhrifa gætir í munstrinu frá módernískum verkum, í kúbískum stíl. Auður keypti þráð og stramma í púðann Landaparís í fyrstu ferð sinni með Halldóri til Parísar árið 1948 en í sömu ferð sótti hún sýningu Picassos, Oeuvres de Provence i Galerie Louise Leiris í París. Af formunum sem koma fyrir í Landaparís að dæma hefur Auður orðið fyrir áhrifum af verkum Picassos en  í útsaumnum skráir hún þá upplifun og þau áhrif sem hún varð fyrir í þessari fyrstu ferð sinni til Parísar. Landaparís er aðeins eitt dæmi um verk eftir Auði þar sem frumsamið munstur kemur fyrir, í púðum sem m.a. eru varðveittir á Gljúfrasteini og í ýmsum öðrum verkum Auðar má sjá áhugaverð munstur og notkun óvenjulegra aðferða.

Sama ár skrifar Auður um myndvefnaðinn nýja í Melkorku og fjallar hún á skilmerkilegan og áhugaverðan hátt um þá hefð að vefa eftir málverkum þekktra listamanna eins og tíðkaðist í samstarfi frú Cuttoli, forstöðukonu vefstofanna í Aubusson, og listamanna á borð við Picasso, Leger og Miro, og eða semja mynd beint í vefinn. Sjálf óf Auður  eftir verki Þorvaldar Skúlasonar listmálara og átti milligöngu um að Kristín Eiríksdóttir vefari óf eftir verki Nínu Tryggvadóttur.

Fyrir margar sakir vísar greinin „Íslenzkir minjagripir sem birtist í Melkorku árið 1950 til framtíðar en í henni kveður Auður fast að orði í gagnrýni sinni á þá minjagripagerð sem þá tíðkaðist og hún vill að verði bæði vandaðri og þjóðlegri.

Auður átti síðar eftir að starfa í ritnefnd ársrits Heimilisiðnaðarfélagsins, Hugur og hönd, og leggja sitt af mörkum til þess að efla íslenskan heimilisiðnað og virðingu fyrir hannyrðum og handverki bæði kvenna og karla.