Garðaprjónuð peysa með ílepparósum

Árið 1977 birtist þessi prjónauppskrift Auðar Sveinsdóttur  í ársriti Heimilisiðnaðarfélagsins Hug og hendi. Auður sat í ritstjórn ársritsins árin 1971-1984.

Uppskrift Auðar að garðaprjónaðri peysu með ílepparósum birtist fyrst í ársriti Heimilisiðnaðarfélagsins Hug og hendi árið 1977. Peysan ber vott um hugkvæmni Auðar og stíl en í henni má sjá hvernig Auður notar hið þekkta munstur áttablaðarósina á nýjan og frumlegan máta. Áttablaðarósin er eitt algengasta munstrið í íslenskum hannyrðum og birtast það víða í ólíkum myndum. Elsa E. Guðjónsson (1924-2010) deildarstjóri textíl- og búningafræðideildar Þjóðminjasafns Íslands og sú sem hvað mest hefur rannsakað og ritað um íslensk textílverk og hannyrðir, komst svo að orði í greininni Ílepparósir og aðrar rósir að áttablaðarósir væru „ svo til á hverju blaði í gömlu sjónabókunum, og hvort heldur litið er á gamlar ábreiður eða altarisklæði, sessur, linda eða íleppa, blasa nær all staðar við áttablaðarósir í einhverri mynd.“

Virðing Auðar og áhugi fyrir hefðinni leynir sér ekki í þessari peysu ekki síður en í öðrum verkum hennar þar sem gjarnan mætast gamlar hefðir og framúrstefnulegar nýjungar. Peysan sem sést á myndinni prjónaði Auður sjálf og er hún nú í eigu dóttur Auðar, Guðnýjar Halldórsdóttur. Á sýningunni Auður á Gljúfrasteini –fín frú, sendill og allt þar á milli sem stóð yfir í Listasal Mosfellsbæjar haustið 2014 var peysan sýnd ásamt öðrum verkum Auðar. Uppskriftin úr Hug og hendi birtist hér með góðfúslegu leyfi Heimilisiðnaðarfélagsins en frá árinu 1966 hefur það staðið að útgáfu ársritsins. Mörg eldri blaðanna eru nú ófáanleg en sumum þeirra má enn festa kaup á í verslun Heimilisiðnaðarfélagsins sem staðsett er við Nethyl 2e í Reykjavík.