Bernska skálds

Bernska skálds í byrjun aldar var heiti á sýningu um æsku og mótunarár Halldórs Laxness. Sýningin var í Þjóðarbókhlöðu 2012 og var unnin í samstarfi við Gljúfrastein.

Halldór var fæddur þann 23. apríl 1902 að Laugavegi 32 í Reykjavík. Þriggja ára gamall flutti hann ásamt foreldrum sínum að Laxnesi í Mosfellsdal þar sem hann sleit barnsskónum.  Sýndir eru munir, skjöl og bækur frá því að hann var barn í Mosfellssveit í upphafi tuttugustu aldar. Það má velta því fyrir sér hvaða áhrifavaldar urðu til þess að hann ákvað að gerast rithöfundur. Því verður ekki svarað með þessari sýningu en reynt er að draga fram ýmsa þætti sem varpað geta einhverju ljósi á áhugasvið hans og hvað hann tók sér fyrir hendur sem barn í Laxnesi.

Barnafjelag Mosfellsdalsins 100 ára

„Barnafjelag Mosfellsdalsins“ var stofnað þann 22. apríl 1912, eða degi fyrir 10 ára afmælisdag Halldórs. Í ár eru því 100 ár frá stofnfundi þess. Halldór var einn af stofnendum félagsins ásamt fleiri börnum í Mosfellsdal. Börnin í félaginu settu sér háleit markmið og tóku þetta alvarlega. Samin voru lög fyrir félagið og voru þau rituð með hendi Halldórs sem var formaður. Þau tóku á ýmsum hliðum lífsins en meðal annars hljóðaði þriðja grein laganna svo:

Aldrei meiga fjelagsmenn sýna nein ólæti. Hvar sem er skulu þeir vera siðprúðir.

Félagið hélt félagatal og reglulega voru haldnir fundir. Þótt ótrúlegt megi virðast hafa lög Barnafjelagsins ásamt félagatali og bréfum frá Halldóri til Ólafs Þórðarsonar frá Æsustöðum, félaga í barnafélaginu, varðveist. Þórir Ólafsson, sonur Ólafs Þórðarsonar, hefur varðveitt bréfin en nú hefur hann ásamt fjölskyldu sinni ákveðið að afhenda Gljúfrasteini –húsi skáldsins þessi merku plögg til varðveislu. Lög barnafélagsins og fleira tengt því eru til sýnis hér ásamt ýmsum munum og myndum tengdum æskuárum og skriftaráráttu Halldórs.

Hvað ungur nemur, gamall temur

„…ef íslenzkt skáld gleymir upphafi sínu, þjóðdjúpinu, þar sem sagan býr, ef hann missir samband sitt og skyldur við það líf, sem er aðþrengt, það líf, sem hún amma mín gamla kenndi mér að búa öndvegi í huga mér, þá er frægð næsta lítils virði og svo það hamingjulán sem hlýzt af fé.“

Halldór Laxness

Þessi tilvitnun er tekin úr þakkarræðu Halldórs Laxness þegar hann tók við Nóbelsverðlaununum árið 1955. Þegar hann tók við þessum æðstu verðlaunum sem rithöfundi geta hlotnast var það ekki hinn alþjóðlegi bókmenntaheimur sem var honum efst í huga eða öll fjarlægu löndin sem hann lét sig dreyma um að sigra sem ungt skáld. Þess í stað var það amma hans, íslenski menningararfurinn og heilræðin sem hún lét honum í té þegar hann var barn. Það var með öðrum orðum æska hans í íslenskri sveit sem hann mat svo að væri grunnurinn að ævistarfi hans.

Amman

Guðný Klængsdóttir var móðuramma Halldórs og það er hún sem hann vitnar til í ræðu sinni. Hún fæddist 1832 og lést árið 1924. Guðný hafði mikinn frásagnarhæfileika og var hafsjór af fróðleik sem hún miðlaði til Halldórs. Annað sem hún arfleiddi Halldór að var hið sérstaka orðfæri sitt, en Halldór hafði alla tíð mikinn áhuga á afkimum íslensks tungumáls og skrýtnum orðum. Mörg þeirra hafa líkast til verið komin frá ömmu hans sem meðal annars kallaði síma „fjölmúlavíl“.

Halldór minnist einnar bókar sem amma hans átti. Halldór segir svo frá að þessi bók hafi getað fengið „allar sorgir lífsins til að hverfa eins og dögg fyrir sólu“. Gamla konan fletti aldrei blaði í bókinni þegar hún las og horfði ekki á textann, heldur spann hún upp sögur út frá myndunum í bókinni. Ein myndin var af manni, sem ætlaði að skera geitina sína. Þennan mann kallaði amman Bótólf og bókina eftir honum. Það var ekki fyrr en seinna að Halldór komst að því að í þessari bók voru útdrættir úr Grimms-ævintýrum á dönsku.

Fræðsla í æsku

Halldór var mjög snemma opinn fyrir erlendum tungumálum. Barn að aldri var hann farinn að lesa skandinavískar bókmenntir, drakk til dæmis í sig leikrit Björnsons og Ibsens. Þá náði hann ungur að árum góðum tökum á enskri tungu og byrjaði snemma að lesa Tennyson og Shakespeare. Halldór segir sjálfur í bókinni Í túninu heima: „Mikill bóklestur í einveru heima vakti hjá mér laungun til þess að búa til bækur sjálfur“.

Strax á unga aldri hafði Halldór mikla og ákafa skriftarþörf. Kornungur merkti hann sér ítarlega stafrófskver, sem faðir hans, Guðjón Helgi Helgason, gaf honum. Þar talar hann um sjálfan sig í þriðju persónu og skrifar í bókina: „Hann pabbi hans gaf honum hana til þess að hann gæti lært að lesa.“

Hjónin í Laxnesi, Guðjón Helgi og Sigríður Halldórsdóttir, hafa verið skilningsríkir og umburðarlyndir foreldrar. Á þessum tíma var nefnilega ekki sjálfsagt að krakkar fengju að vera inni að skrifa yfir hábjargræðistímann. Halldór segir svo frá: „Strákurinn í Laxnesi situr 10 klukkutíma á dag og párar út stílabækur. Honum verður ekki haldið frá þessu. Hann er ekki einsog fólk er flest. Það hlýtur að vera mikil mæða fyrir hjónin. Sveitin komst við.“

Bernskuskrif

Mikill eldmóður hefur heltekið Halldór varðandi skriftir og er hann ekki nema tólf til fjórtán ára gamall þegar hann finnur hjá sér knýjandi þörf til að skrifa mörg hundruð blaðsíðna bók. Bókin sú var skrifuð sem andsvar við bókinni Eldingu eftir Torfhildi Hólm og fékk því titilinn Aftureldíng. Hann kallar hana reyndar einnig sumstaðar Dagrenníngu. Handritið af þessari bók mun hafa verið til árið 1930 ef marka má orð Halldórs.

Þessi mikla skriftarþörf var að hluta til með trúarlegum undirtóni. Þegar Halldór er sjö ára fær hann vitrun að því er hann segir sjálfur frá í endurminningabókinni „Sjömeistarasagan“. Þá er hvíslað að honum að hann muni deyja þegar hann verði sautján ára gamall. Hann hugsar því svo að hann megi engan tíma missa og nýtir hverja stund til skrifta. Hann segir svo frá í Sjömeistarasögunni: „Prédikunarþörf mín átti upphaflega heima í blekbyttunni, þar sem öll viska býr; enda fann ég þar sjálfan mig fyrst; og í nánd slíkrar byttu var ég ávalt öruggur.“

Puttasaga

Bókin, þar sem bundin eru saman þrettán smárit og er hér til sýnis, var í eigu Halldórs á bernskudögum hans. Hvort hann hefur slegið eign sinni á þessa bók eða einhver hefur gefið honum hana er ekki vitað. Hann hefur samt séð ástæðu til að merkja sér þessa bók mjög vel og rita efnisyfirlit fyrir hana. Handskrifuð þýðing á „Tuma Þumli“ er bundin með í þessari bók eða „Puttasaga“ eins og Halldór kallar hana. Halldór hefur sjálfur skrifað þýðinguna árið 1915 en ekki er hægt að slá því föstu að hann hafi þýtt söguna þó leiða megi líkur að því. Aftan við söguna stendur skrifað: „Sagan af Putta var lesin upp á Lágafelli 28. mars 1915.“

Það má því sjá að veganestið sem Halldór fékk frá ömmu sinni, foreldrum og æsku í Mosfellsdalnum hafði mikil áhrif á það sem á eftir kom. Hann ákveður að skrifa á íslensku fyrir allan heiminn. Hann lætur drauma sína rætast og þegar hann nær takmarki sínu gleymir hann ekki þjóðinni sem ól hann, né því sem amma hans kenndi honum sem barni.