Gljúfrasteinsannáll 2023

image

Árið 2023 einkenndist af fjölbreyttum viðburðum og góðum gestum. Boðið var upp á dagskrá frá vori til jóla en hér má lesa um það helsta sem dreif á daga Gljúfrasteins þetta árið.
 

Pétur Gunnarsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin

Rithöfundurinn og þýðandinn Pétur Gunnarsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Játningum Jean-Jacques Rousseau. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini þann 18. febrúar. Að Íslensku þýðingaverðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Í dómnefnd sátu þau Guðrún H. Tulinius (formaður), Elísabet Gunnarsdóttir og Þórður Helgason.  

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars: „Þýðanda er mikill vandi á höndum en Pétri bregst ekki bogalistin. Þýðing hans stendur undir væntingum allra þeirra sem láta sig varða íslenskt mál og möguleika þess til tjáningar. Í fyrstu bók Játninganna ritar Rousseau þetta: „Dómsdagslúðurinn má gjalla þegar honum líst og ég mun mæta mínum æðsta dómara með þessa einu bók í hendi.“ Með þessa góðu þýðingu Játninganna getur Pétur Gunnarsson mætt sínum æðsta dómara og fengið sér sæti við hlið Rousseau.“ 
 

image
image
Guðni Th. Jóhannesson forseti afhenti Pétri Gunnarssyni verðlaunin. Eyjólfur Már Sigurðsson söng og lék á gitar.

Gljúfrasteinn hlaut Öndvegisstyrk úr Safnasjóði

Ein stærsta frétt ársins var kannski að Gljúfrasteinn fékk úthlutað Öndvegisstyrk í aðalúthlutun Safnaráðs árið 2023. Styrkurinn er mikil viðurkenning og ber vott um skilning á þeim verkefnum sem fram undan eru í starfsemi safnsins, en eins og kunnugt er þá er stefnt að því að flytja vinnuaðstöðu starfsfólk, móttöku gesta yfir í Jónstótt handan Köldukvíslar. Þá mun húsið allt á Gljúfrasteini verða opið fyrir gesti. Eftir töluverðar vangaveltur var ákveðið að fresta því að taka út styrkinn þar til á næsta ári í ljósi þess að óvissa ríkir um hvenær unnt verður að ljúka framkvæmdum við Jónstótt. Undirbúningur verkefna er þó hafinn, því mikilvægt er að undirbúa flutninga þangað vel.  Öndvegisstyrkurinn mun gera safninu kleift að ýta þessum verkefnum úr vör og hefur árið allt einkennst af undirbúningsvinnu sem byggir á stefnumótunarvinnu frá 2022 um framtíðarsýn safnsins. Styrkurinn verður m.a. nýttur til að endurnýja hljóðleiðsögn um húsið þegar allt húsið verður loks til sýnis, því vinnuaðstaða starfsfólks og móttaka munu flytjast yfir í Jónstótt.  Núverandi móttaka mun verða sýningarrými, auk eldhússins og tveggja barnaherbergja sem bætast við á efri hæðinni. Þessi nýju rými gefa tækifæri til að segja ítarlegri sögu, og hefur Rannveig (Gagga) Jónsdóttir unnið undirbúningsvinnu í formi viðtala til að gefa góða innsýn í tímabilið. Þá verður styrkurinn nýttur til að auka viðburðadagskrá á Gljúfrasteini. Lögð verður áhersla á fjölbreytta dagskrá sem höfða munu til mismunandi áhugasviða gesta. Safnið verður þá álitlegur áfangastaður sem hægt er að heimsækja aftur og aftur, til að fræðast, dvelja í sveitasælunni og njóta útivistar. Eitt af þeim verkefnum sem styrkurinn tekur til felst í því að huga að umhverfi Gljúfrasteins og Jónstóttar. Á árinu sem er að líða vann Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir hjá Landmótun hugmyndavinnu í samstarfi við stjórn Gljúfrasteins og lagði fram tillögur að skemmtilegum stígum, áningarstöðum og leiksvæðum í kringum Jónstótt.  

image
image
Það var glatt á hjalla á Gljúfrasteini þegar tilkynnt var um styrkveitinguna. Flaggað 23. apríl á fæðingardegi Halldórs Laxness.

Samstarf Gljúfrasteins og safnafræði HÍ

Safn og samfélag: Sirkus dauðans? er heiti á námskeiði fyrir nema í safnafræði í Háskóla Íslands. Nemendur unnu að nokkrum hagnýtum verkefnum í samstarfi við Gljúfrastein. Guðný Dóra Gestsdóttir og Sigrún Ásta Jónsdóttir héldu fyrirlestur fyrir nemendur um starfsemi Gljúfrasteins þar sem farið var almennt yfir starfsemina, tilurð safnsins, reksturinn, safnkostinn, viðburði, fræðslu, miðlun og sýningar. Nemendur unnu verkefni og nýttu sér starfsemina á Gljúfrasteini sem grundvöll. 
 

Bókmenntahátíð og Iceland Writers Retreat

Í aprílmánuði var mikið bókmenntaþema. Sumardaginn fyrsta komu gestir Bókmenntahátíðar á Gljúfrastein í sumardrykk og veitingar úti í garði í sólskini og blíðu. Tjaldað var úti í garði, gestir nutu blíðunnar og niðarins frá Köldukvísl og veitti viðburðurinn kjörið tækifæri til að hvíla sig á þéttri dagskrá hátíðarinnar. Dagskrá hátíðarinnar í ár var virkilega spennandi og fjöldi viðburða um allan bæ. Þar fóru fram áhugaverðar umræður rithöfunda og gesta Bókmenntahátíðar um erfið sem og léttari málefni sem bókmenntirnar takast á við. Við hlökkum til næstu hátíðar og vonum að veðrið verði eins gott fyrir garðveisluna. 

Í lok apríl komu gestir alþjóðlega verkefnisins Iceland Writers Retreat í heimsókn á Gljúfrastein. Þetta er aldeilis frábært samstarf og orðin árleg hefð þar sem rithöfundar hvaðanæva að úr heiminum koma til Íslands. Hópar á vegum verkefnisins koma ávallt í heimsókn, skoða sig um í húsinu og hlýða á erindi og upplestur frá íslenskum höfundi. Í ár var það Guðrún Eva Mínervudóttir sem spjallaði við hópinn og las upp úr verkum sínum.  
 

image
image
image
Sólin sýndi sig á viðburði fyrir Bókmenntahátíð í Reykjavík. Pétur Már Ólafsson sýndi gestum íslenska hestinn. Þátttakendur í Iceland Writers Retreat í stofunni.

Vordagskráin

Vorið var með skemmtilegu sniði á Gljúfrasteini í ár þar sem viðburðir voru skipulagðir á hverjum laugardegi. Dagskráin var fjölbreytt og sniðin að ólíkum áhugasviðum gesta. Birta Fróðadóttir stóð fyrir leiðsögn um hönnun og arkitektúr á Gljúfrasteini, Pétur Már Ólafsson rithöfundur sagði frá því hvernig hann lenti óvænt í því að vinna við höfundarverk Halldórs Laxness og endurútgefa verk skáldsins, Dagný Kristjánsdóttir hélt erindi um birtingarmyndir kynferðisofbeldis í verkum skáldsins og Edda Andrésdóttir sagði frá viðtalsbók sinni við Auði, Á Gljúfrasteini. Þá leiddi Bjarki Bjarnason göngu um umhverfi safns og sveitar í Mosfellsdal og Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Jón Karl Helgason héldu mannmarga göngu á slóðum Erlendar í Unuhúsi. Þessir laugardagar í vor voru falleg og áhugaverð viðbót við fasta dagskrá á Gljúfrasteini. 
 

image
image
image
Birta Fróðadóttir í veiðistólnum. Dagný Kristjánsdóttir flytur erindi. Bjarki Bjarnason leiðir göngu um Mosfellsdal.

Auður á Gljúfrasteini

Eins og fyrr segir las Edda Andrésdóttir upp úr viðtalsbók sinni við Auði Laxness, Á Gljúfrasteini, á vordagskrá safnsins. Bókin kom út árið 1984 en á næsta ári verða liðin 40 ár frá útgáfunni. Bókin hefur lengi verið uppseld hjá útgefanda en á safninu verðum við vör við mikinn áhuga á Auði og störfum hennar. Það sést ekki síst á því hve vel viðburður Eddu var sóttur. Á næsta ári verða einnig liðin tíu ár frá því að sýningin „Auður á Gljúfrasteini - Fín frú, sendill og allt þar á milli“ opnaði í Listasal Mosfellsbæjar. Í tengslum við sýninguna var boðið upp á sérstakar leiðsagnir um Auði á Gljúfrasteini og nutu þær mikilla vinsælda. Auður var allt í senn fín frú og sendill, listakona og potturinn og pannan í fjölskyldulífi og gestamóttökum á Gljúfrasteini. Á næsta ári stendur til að halda upp á 40 ára útgáfuafmæli bókarinnar um Auði, Á Gljúfrasteini, í samstarfi við Eddu Andrésdóttur.  
 

image
image
Auður Laxness og Edda Andrésdóttir í stofunni á Gljúfrasteini.

Opnun sýningarinnar „En honum á ég flest að þakka: Um Erlend Guðmundsson í Unuhúsi“

Í vor opnaði sýning tileinkuð Erlendi Guðmundssyni í Unuhúsi og vinskap þeirra Laxness. Þess má geta að Gljúfrasteinn fékk styrk úr Safnasjóði fyrir sýningunni. Sýningin hafði verið í undirbúningi síðan árið áður og varð mikil uppskeruhátíð í kringum afmæli Erlendar, 31. maí. Þá efndu, sem fyrr segir, Sunneva Kristín Sigurðardóttir og Jón Karl Helgason til bókmennta- og sögugöngu um Reykjavík. Var fallegt veður og rétt rúmlega hundrað manns mættu til að minnast Erlendar og fræðast um gestgjafann og vini hans í Unuhúsi.  

Sýningin á Gljúfrasteini opnaði helgina eftir, 3. júní, með tilheyrandi stemningu og fögnuði. Að sýningunni komu Unnar Örn sýningarhönnuður, Sunneva Kristín Sigurðardóttir sem annaðist rannsóknarvinnu og skrifaði sýningarskrá, Kristín Nanna Einarsdóttir skrifaði texta í sýningarskrá og Sigrún Ásta Jónsdóttir sérfræðingur og Guðný Dóra Gestsdóttir verkefnastjóri sátu einnig í sýningarnefnd. Gefin var út fræðandi sýningarskrá með myndum úr Unuhúsi og texta sem var afrakstur rannsóknarinnar. Sýningin um Erlend Guðmundsson og tengsl hans við Laxness stendur enn þá í móttöku safnsins og hvetjum við fólk eindregið til að líta við.  

Þá vann Sunneva Kristín einnig þætti um Erlend Guðmundsson í Ríkisútvarpið, „Litli rauði trékassinn: Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi og vinir“, og er hægt að hlusta á þá í spilara RÚV. Þættirnir höfðu góða tengingu við sýninguna þar sem áhersla er meðal annars lögð á birtingarmynd organistans í Atómstöðinni. Andi Erlendar sveif yfir vötnum í vor og gerir enn. Þá bendum við einnig á portrettmyndir af honum sem er að finna á safninu eftir Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur og Kristján Davíðsson, sem alltaf er gott að líta á eins og aðra listmuni safnsins. 

Sýningaropnunin var ótrúlega skemmtileg. Pétur Gunnarsson las ljóðið „Í Unuhúsi“ úr Kvæðakveri skáldsins, Sunneva Kristín spilaði Unuhúss-plötu á grammófón með viðeigandi tilstandi og tónskáldið Davíð Þór Jónsson lék undir söng gesta á fótstigið orgel sýningarinnar. 
 

image
image
image
Sunneva Kristín Sigurðardóttir á opnun sýningarinnar um Erlend. Kaffiveitingar að hætti Unuhúss. Fjöldi fólks tók þátt í göngunni á slóðum Erlendar í Reykjavík.

Plássið, ástarþríhyrningar og bandarískar bókmenntir

Þau Haukur Ingvarsson og Jenna Sciuto héldu tvö erindi um Sölku Völku á Gljúfrasteini í vor. Haukur fjallaði um „Plássið hennar Sölku“ og tengdi við smábæjarbyltinguna í bandarískum bókmenntum. Erindi Jennu Sciuto bar yfirskriftina „Gender Dynamics and Love Triangles in Halldór Laxness’s Salka Valka and William Faulkner’s Sanctuary“. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við The Nordic Faulkner Studies Network og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands. 
 

image
image
image
Jenna Sciuto og Haukur Ingvarsson.

Tónleikadagskrá sumarsins

Eins og ævinlega var tónleikadagskrá sumarsins með glæsilegu sniði. Hvern sunnudag í júní, júlí og ágúst voru haldnir tónleikar í stofunni í anda hjónanna á Gljúfrasteini. Tónlistarfólk leitaði oftar en ekki í smiðju skáldsins og voru meðal annars á dagskrá lögin Klementínudans, Hjá lygnri móðu, Hvert örstutt spor og Maístjarnan – sem var bæði  flutt við lag Jóns Ásgeirssonar og rússneskt þjóðlag sem Halldór hafði upphaflega í huga þegar hann samdi kvæðið. Þá lagði tónlistarfólkið ýmislegt á sig til að gera viðburðina sem veglegasta, en í júlí var heilu Hammond-orgeli komið fyrir í stofunni þegar þau Bríet, Magnús Jóhann og Tómas Jónsson léku á Gljúfrasteini.  

Meðal tónlistarflytjenda sumarsins voru: Kolbeinn Ketilsson tenór og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari, þær Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir vísnasöngkona og Ásta Soffía harmonikkuleikari með tangóprógramm, Magnús Jóhann Ragnarsson píanóleikari, Karl Olgeirsson með þjóðlög með jazzívafi, Pamela De Sensi, Guðríður St. Sigurðardóttir og Margrét Hrafnsdóttir með sólríka fuglatóna, Bjarni Frímann lék á flygilinn og las ljóð og Reynir Hauksson var með fræðandi innslag um flamenco-tónlist. Þá kom Bríet fram í rólegri stemningu, Anna Gréta og Johan Tengholm spiluðu og sungu, Gréta Salóme bauð upp á fjölbreytt prógramm, Una Torfa og Hafsteinn Þráinsson léku lög Unu og Ólöf Arnalds fyllti stofuna göldrum.  

Þá fögnuðum við tvöhundruðustu stofutónleikunum okkar með þeim Diddú og Davíð Þór, sem troðfylltu safnið með sínum einstaka söng, leik og sjarma. Á þessum tímamótatónleikum var flutt fjölbreytt, lífleg og einlæg tónlist í minningu Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara sem var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins og lagði línur um fyrirkomulag tónleikahalds á Gljúfrasteini.     
Tónleikarnir í ár voru vinsælir og fylltu gestir oftar en ekki húsið upp í rjáfur eins og í tíð Auðar og Halldórs. Vinafélag Gljúfrasteins styrkti stofutónleikaröðina í sumar sem fyrr. 
 

image
image
image
Diddú og Davíð Þór fóru á kostum á stofutónleikum númer 200. Hammond-orgelið flutt á Gljúfrastein. Una Torfa og Hafsteinn Þráinsson að loknum tónleikum.

Í Túninu heima

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, „Í túninu heima,“ var haldin dagana 24.–27. ágúst. Alls kyns viðburðir voru á dagskrá í bænum þessa daga, til að mynda tónleikar, myndlistarsýningar, útimarkaðir og íþróttaviðburðir. Gljúfrasteinn var opinn gestum og gangandi og eins og í fyrra var hér stöðugur straumur gesta þrátt fyrir ausandi rigningu. 
 

Með okkar augum á Gljúfrasteini

Fjölmiðlafólk og tökulið úr þáttunum „Með okkar augum“ á RÚV kíkti í heimsókn á Gljúfrastein og spjallaði við Guðnýju Dóru safnstjóra. Innslag frá Gljúfrasteini birtist í nýjustu þáttaröð þeirra sem er full af góðu efni. 
 

image
image
Á meðan upptökum stóð voru Davíð Þór og Diddú að æfa í stofunni.

Ritlistarnemar tóku yfir Gljúfrastein

Svo virðist sem ný hefð sé að myndast á Gljúfrasteini; að meistaranemar í ritlist við Háskóla Íslands taki yfir safnið á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Þetta er annað árið í röð sem við höfum haldið þennan viðburð með ritlistarnemum og fá þá alltaf hressandi og ferskir textar að hljóma um stofuna. Í ár lásu þau Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Daníel Daníelsson, Vala Hauksdóttir og Ásta Halldóra Ólafsdóttir texta úr eigin smiðju. Gestir voru ljómandi ánægðir og myndaðist heimilisleg stemning á safninu þennan dag tileinkaðan tungunni góðu. 
 

image
Daníel, Birgitta Björg, Ásta og Vala.

Hvar er Jagúarinn?

Safngestir ársins söknuðu greinilega Jagúarsins, því starfsfólk fékk mjög oft spurninguna „Hvar er Jagúarinn?“ Árið 2022 var samið við Borgarholtsskóla um að nemendur, undir handleiðslu fagkennara þeirra, tækju að sér viðgerð á Jagúar skáldsins. Bíllinn er enn í Borgarholtsskóla, þar sem nemendur tóku hann í allsherjar yfirhalningu undir styrkri handleiðslu fagkennara. Nú í lok árs 2023 er búið að sprauta allan bílinn að nýju og þá á eftir að taka vélina í gegn og setja bílinn saman. Nú er unnið að því að gera við mælaborðið, sem er vandasamt verk, enda er það úr viði. Sigurgeir Þór Sigurðsson tók að sér það verk. Í nóvember var boðað til verkfundar við borðstofuborðið á Gljúfrasteini. Við kaffiborðið sátu fulltrúar Borgarholtsskóla og safnsins auk starfsfólks Poulsen og B&L. Bæði þessi fyrirtæki styðja við þetta góða verkefni með myndarlegum hætti. Poulsen skaffar allt efni sem þarf til að mála bílinn og B&L hafa gefið ýmsa varahluti sem á hefur þurft að halda og pantað beint frá Jagúar-verksmiðjunum í Bretlandi. 
 

image
image
Fundað um Jagúarinn í borðstofunni á Gljúfrasteini.

Aðventuupplestrar Gljúfrasteins

Að venju er aðventan tími jólabókaflóðsins og upplestra á Gljúfrasteini en fjóra sunnudaga fyrir jól lásu rithöfundar  upp úr verkum sínum. Dagskráin var spennandi í ár eins og alltaf og riðu á vaðið þau Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Bragi Páll Sigurðarson, Gyrðir Elíasson og Friðgeir Einarsson. Þá lásu þau Magnús Jochum Pálsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Þórdís Gísladóttir og Þórdís Helgadóttir fyrsta sunnudag í aðventu. Næst, annan sunnudag í aðventu, lásu þau Auður Jónsdóttir, Áslaug Agnarsdóttir þýðandi, Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona fyrir hönd Steinunnar Sigurðardóttur og Sverrir Norland. Að lokum lásu Birna Stefánsdóttir, handhafi bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, Kristín Ómarsdóttir, Vigdís Grímsdóttir og Vilborg Davíðsdóttir. Hver einasti upplestur var einstakur og myndaðist notalegt andrúmsloft á hverjum sunnudegi, er stofan fylltist af gestum.  
 

image
image
Höfundar stilltu sér upp í stofunni á aðventunni.

Ferðaskjöl og nótnabækur

Í ár skráði Erla Elíasdóttir Völudóttir, starfsmaður Gljúfrasteins, ferðaskjöl skáldsins. Var um að ræða mikið magn af gögnum sem veita fróðlega innsýn í öll hans ferðalög. Má þar nefna myndir og vegabréf, kvittanir og óskalista dætranna, nafnspjöld, innkaupalista, vottorð, félagsskírteini, símskeyti, lestarmiða, flokksskírteini og orðsendingar svo eitthvað sé nefnt. Þetta er sannkölluð gullkista fyrir grúskara og gefur skemmtilega mynd af ferðum skáldsins og hugðarefnum. Þegar þessu verkefni lauk voru nótnabækur hússins skráðar en gríðarmikið nótnasafn var í eigu Halldórs. Verða allar nótnabækurnar ljósmyndaðar og upplýsingar um þær skráðar í gagnasafnið Sarp. 
 

Gestir hvaðanæva að

Gestir hvaðanæva að úr heiminum hringdu dyrabjöllunni á Gljúfrasteini, en tæplega fjögur þúsund gestir litu við á árinu. Um þriðjungur þeirra voru erlendir ferðamenn. Flestar heimsóknir voru yfir sumarmánuðina og laða stofutónleikarnir að gesti sem margir hverjir hafa ekki heimsótt safnið áður, auk þeirra sem koma aftur og aftur. Skólaheimsóknirnar voru þá einnig á sínum stað og fengu nemendur fræðsluleiðsögn um safn og umhverfi. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði á heimsóknamet, en í Flensborg er kenndur sérstakur áfangi um Halldór Laxness og verk hans. 
 

Helgufoss heillar

Gljúfrasteinn stendur í fallegri náttúruparadís og var starfsfólk vart við margt göngufólk sem lagði leið sína upp að Helgufossi. Fólk gekk í öllum veðrum, sól eða rigningu og tók hundana eða börn og barnabörn með sér í leiðangur. Umhverfi safnsins er þá einnig vinsæll staður fyrir lautarferðir og myndatökur. Erlendir ferðamenn nýttu tækifærið til að skoða safnið og umhverfi þess, en enginn tók þó sundsprett í lauginni. Sem endranær eru ferðamenn frá öllum heimshornum gestir á safninu og sumir hverjir dyggir aðdáendur skáldsins – hafa jafnvel lesið allan katalóginn!  

Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og fór daglega í gönguferðir enda umhverfið fagurt í Mosfellsdalnum. Gönguferðirnar voru honum uppspretta hugmynda. Leið hans lá oft upp á Grímannsfell, upp með Köldukvísl sem rennur rétt við Gljúfrastein og að Helgufossi eða um holt og hæðir hinum megin við veginn, jafnvel upp að Móskarðshnúkum. Fuglar voru í sérstöku uppáhaldi eins og sjá má ótal dæmi um í verkunum. „Það er leiðinlegt að við skulum ekki blístra hvor á annan einsog fuglarnir,“ segir Jón Prímus við Umba í Kristnihaldi undir Jökli. Þegar Auður Jónsdóttir rithöfundur og barnabarn skáldsins var barn, hélt hún því fram að Halldór gæti talað við fugla. „Hann afi kann fuglamál,“ sagði hún í skemmtilegu viðtali við barnatíma RÚV um 10 ára gömul. Náttúran, fuglalífið og útivistin voru alla tíð hugleikin fjölskyldunni á Gljúfrasteini. Það er því í takt við sögu daglegs lífs á Gljúfrasteini að göngufólk freistist til að leggja land undir fót í nágrenni húss skáldsins. Undanfarin ár hefur Helgufoss fest sig í sessi sem ákveðinn áfangastaður göngufólks. Innlendir sem erlendir göngugarpar hafa heillast af gönguleiðinni, tekið myndir og deilt um gjörvallt netið og samfélagsmiðla. 
 

image
image
„Útsprúnginn fífill. Fáheyrður viðburður í afdal á þessum tíma árs.“ Nonni litli í Sjálfstæðu fólki.

Ljósmyndasafn og skráningamál

Heildarfjöldi skráðra ljósmynda í Sarpi í lok árs 2023 er rúmlega fimm þúsund og fimmhundruð myndir. Elstu myndirnar eru frá byrjun 20. aldar og þær yngstu frá upphafi þessarar aldar.  

Myndunum má skipta í tvo meginflokka: fjölskyldumyndir annars vegar og hins vegar myndir frá margvíslegum ferðum, ráðstefnum og fundum sem tengdust rithöfundarferli Halldórs. Ráðgert er að klára skönnun þeirra á árinu 2024. Allar skannaðar myndir eru í Sarpi og er hluti þeirra opinn almenningi á sarpur.is. Búið er að greina og setja texta við stóran hluta myndasafnsins. 

Á næsta ári vonumst við til að geta yfirfært skráningu ljósmynda, listgripa og annarra muna yfir í nýja og endurbætta útgáfu af Sarpi. Sarpur er sameignarfélag þeirra safna sem þar skrá minjar sínar. Sarpur varð til upp úr síðustu aldamótum og hefur verið þróaður af þeim söfnum sem nota hann. Fyrr á þessu ári fór fram útboð á endurbættu kerfi fyrir félagið og fór útboðið fram á evrópska efnahagssvæðinu. Þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu af þessu tagi varð hlutskarpast og náðust samningar við fyrirtækið síðastliðið sumar. Við verðum þar í góðum hópi starfsfélaga okkar, þá aðallega evrópskra safna. 

Við bindum miklar vonir við þessa þróun og sérstaklega vonumst við til að efla og auðvelda alla notkun almennings á þessum mikla sjóði þekkingar á íslenskum menningar- og náttúruarfi.  
 

Bókasafnið

Bækur og tímarit Gljúfrasteins eru á fimmta þúsund. Titlarnir eru nánast allir skráðir í Gegni, sameiginlegan veflægan gagnagrunn íslenskra bókasafna. Í safninu eru verk skáldsins, en Halldór sendi frá sér 62 rit á 68 árum, þar með taldar þýðingar á verkum hans, sem hafa komið út í meira en 500 útgáfum á yfir fjörutíu tungumálum, auk mikils fjölda af verkum sem hann sankaði að sér og fékk að gjöf. Eins eru í safninu margar bækur og tímarit sem tilheyrðu Auði.  
 

image

Kveðjur

Árið einkenndist sem fyrr af fjölbreyttum viðburðum og glöðum gestum sem ýmist fylltu stofuna eða gengu um safnið í einrúmi með hljóðleiðsögn. Yndislegt var tónleikasumarið þar sem skærar stjörnur og einstakir tónlistarmenn gáfu af sér í því notalega rými sem stofan á Gljúfrasteini er. Þá voru aðventuupplestrarnir ekki síður töfrandi viðburðir, þar sem stofan fylltist í hvert sinn af ólíkum höfundum með sterka texta.   

Safnið Gljúfrasteinn verður 20 ára á næsta ári, 2024, og  verður þeim áfanga fagnað með ýmsum hætti. Starfsfólk Gljúfrasteins þakkar gestum safnsins innlitið og öllu listafólki, fjölskyldu skáldsins og velunnurum fyrir gott og viðburðaríkt ár.  

 

image
Starfsfólk Gljúfrasteins: Sunneva, Kristín Nanna, Ásta, Guðný, Sigrún Ásta, Erla og Sigríður Þóra.