Sjálfstætt fólk

Sjálfstætt fólk I 1934

Sjálfstætt fólk, sem út kom 1934-35, er líklega sú bók Halldórs Laxness sem borið hefur hróður hans víðast.

Hún var meðal annars bók mánaðarins í stærsta bókaklúbbi Bandaríkjanna árið 1946 og seldist hálf milljón eintaka af verkinu á aðeins tveimur vikum. Þegar sagan var loksins endurútgefin vestra hálfri öld síðar árið 1997 sagði gagnrýnandi Washington Post í lok afar lofsamlegs dóms að þetta væru „gleðilegir endurfundir".

Sjálfstætt fólk segir frá kotbóndanum Bjarti í Sumarhúsum. Fyrsta tilhlaup Halldórs að einyrkjanum má segja að sé smásagan „Thordur i Kalfakot" er birtist á síðum danska blaðsins Berlingske Tidende árið 1920 og var sagan skrifuð á dönsku.

Sjálfstætt fólk gerist í upphafi 20. aldar og segir frá einyrkjanum Guðbjarti Jónssyni sem lætur gamlan draum rætast með því að kaupa lítið kot sem hann nefnir Sumarhús. Bjartur er loksins orðinn sjálfstæður maður eftir 17 ára vinnumennsku, sjálfs sín herra sem þarf ekki að sækja neitt til ókunnugra. Hann berst við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu allt til enda - ekki síst gagnvart fyrrum yfirboðurum sínum á Útirauðsmýri, hreppstjóranum og Rauðsmýrarmaddömunni. Hann færir fyrir sjálfstæðið óbætanlegar fórnir og gildir þá einu hvort í hlut eiga Rósa kona hans, Ásta Sóllilja eða aðrir honum nákomnir. Öllum hlutum sögunnar lýkur t.d. með því að Bjartur missir eitthvað og má segja að „veraldarstríð" hans kristallist í eftirfarandi tilvitnun: „Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu."

Fleyg orð

„Þú getur haft mig fyrir því, að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum ..."
(2. kafli. Bjartur.)

„... fátækt fólk er ævinlega hamíngjusamara en þetta svokallaða ríka fólk, sem er í raun og veru ekki til. Því hvað er ríkt fólk? Það er fólk sem hefur mikið í veltunni og á ekki neitt nema áhyggjurnar ef alt væri gert upp, og fer útúr heiminum alveg nákvæmlega eins snautt og hinir, að því undanteknu að það hefir haft meira af búksorgum, minna af sannri lífsgleði."
(13. kafli. Rauðsmýrarmaddaman.)

„... í ástinni getur einginn hjálpað neinum; einginn nema maður sjálfur ..."
(57. kafli. Nonni.)