Nóbelsverðlaunin 1955

Halldór Kiljan Laxness tekur við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum árið 1955

Verðlaunaveiting Halldórs vakti gífurlega athygli hér á landi eins og búast má við.  Færri veittu hins vegar athygli vísindamönnunum sem hlutu eðlisfræði-, læknisfræði-og efnafræðiverðlaunin.  Það voru ekki fleiri sem fengu verðlaun þetta kvöld því friðarverðlaunin voru ekki veitt þetta árið og hagfræðiverðlaunin komu ekki til sögunnar fyrr en 1969.

Verðlaunin sem veitt voru þetta kvöld í Stokkhólmi þann 10. desember 1955 voru því fern.  Verðlaunahafarnir voru þó fimm, því eðlisfræðiverðlaunin skiptust á milli tveggja manna, Bandaríkjamannanna Willis Eugene Lamb (1913-2008) og Polykarp Kusch (1911-1993).  Þeir hlutu verðlaunin fyrir mismunandi rannsóknir sem þeir stunduðu sitt í hvoru lagi en stuðluðu að lokum að því að leiðrétta skekkju í niðurstöðum eldri nóbelsverðlaunahafa, P.A.M. Diracs.  Lamb hlaut verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á uppbyggingu litrófs vetnis, en þær urðu til þess að hann uppgötvaði svokallað Lamb-vik (e. Lamb shift).  Kusch hlaut verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á segulvægi rafeindarinnar.

Efnafræðiverðlaunin féllu öðrum Bandaríkjamanni í skaut, Vincent du Vigneaud (1901-1978) lífefnafræðingi, fyrir rannsóknir sínar á lífefnafræðilega mikilvægum brennisteinssamböndum. Rannsóknir hans leiddu til þess að hann fyrstur manna bjó til fjölpeptíða hormón, oxytocin, á rannsóknastofu.

Verðlaunahafinn í læknisfræðinni var sá sem vakti mesta athygli fjölmiðla í Svíþjóð, enda var hann Svíi og sá fyrsti til að hljóta verðlaunin eftir að hafa starfað sem formaður Nóbelsrannsóknarstofnunarinnar.  Hann hét Axel Hugo Theodor Theorell (1903-1982) og verðlaunin hlaut hann fyrir uppgötvanir sínar tengdar oxun ensíma.

Hann var fatlaður eftir að hafa fengið mænuveiki á unga aldri og átti erfitt með gang.  Hann var einnig fær fiðluleikari og sat lengi í stjórn Tónlistarfélags Stokkhólms sem og Hljómsveitarfélagsins.

Nóbelsverðlaunahátíðin fór fram í hljómleikahöllinni í Stokkhólmi og eftir á var verðlaunahöfum, aðstandendum þeirra og helstu framámönnum í sænsku þjóðfélagi boðið í kvöldmatarveislu í ráðhús Stokkhólms og dansleik eftir á.  Þetta er hefðbundið skipulag á verðlaunaafhendingunni og svona fara nóbelsverðlaunahátíðirnar fram enn í dag. Gústaf Adolf Svíakonungur, afi núverandi Svíakonungs, afhenti verðlaunin og Ríkisútvarpið útvarpaði beint frá atburðinum.  Venjan er að vinningshafar séu boðnir velkomnir á þeirra eigin tungumáli og það var prófessor Elias Wessén sem kynnti Halldór á sænsku og ávarpaði hann svo á íslensku.  Verðlaunaféð þetta ár voru 190.000 sænskar krónur en umreiknað yfir í íslenskar krónur dagsins í dag væru það tæplega 45 milljónir.

Athöfnina má sjá á meðfylgjandi myndbandi