Ávarp Halldórs til sænsku akademíunnar

Handrit að ræðunni sem Halldór hélt þegar hann tók við Nóbelsverðlaununum fyrir bókmenntir í Stokkhólmi árið 1955.

Svona birtist ávarp Halldórs í dagblöðum á Íslandi mánudaginn eftir helgina sem Nóbelsverðlaunin voru afhent.

„Yðar hátignir. Herrar mínir og frúr.

Þann dag fyrir nokkrum vikum er þar var komið, að mér bauð í grun, að ákvörðun sænsku Akademíunnar, sú er fyrir höndum var, kynni að varða mig, var ég á ferðalagi í Suður-Svíþjóð. Þegar ég var orðinn einsamall í gistiherbergi mínu um kvöldið, var því ekki nema eðlilegt að hugur minn tefði við það hlutskipti, sem kynni að bíða lítilmótslegs ferðalangs og skáldmennis, upprunnið af ókunnu og afskekktu eylandi, við stofnun, sem hefur á valdi sínu að ljá andlegum verkum viðurkenningu og frægð, skyldi nú kveðja til slíkan mann að rísa úr sæti og stíga fram í bjarmann af leiksviðsljósum veraldarinnar.

Það er ef til vill eigi undarlegt að fyrst af öllu hafi mér orðið og verði enn á þessari hátíðisstund hugsað til vina minna og ástvina og alveg sérstaklega til þeirra sem stóðu mér næst í æsku. Þeir menn eru nú horfnir sjónum, en jafnvel meðan þeir voru enn ofan moldu, þá nálguðust þeir að vera af kynflokki huldumanna að því leyti sem nöfn þeirra voru fáum kunn, og enn færri muna þau nú. Þó hafa þeir með návist sinni í lífi mínu lagt undirstöðuna að hugsun minni. Ég hugsaði einmitt til þeirra undursamlegu manna og kvenna þjóðdjúpsins, sem veittu mér fóstur. Ég hugsaði til föður míns og móður minnar, og ég hugsaði sér í lagi til hennar ömmu minnar gömlu, sem var búin að kenna mér ótal vísur úr fornöld áður en ég lærði að lesa.

Ég hugsaði og hugsa enn á þessari stundu til þeirra heilræða sem hún inrætti mér barni: að gera öngri skepnu mein, að lifa svo að jafnan skipuðu öndvegi í huga mér þeir menn sem eru kallaðir snauðir og litlir fyrir sér, að gleyma aldrei, að þeir, sem hafa verið beittir órétti eða farið góðra hluta á mis, þeir sem hafa verið settir hjá í tilverunni, einmitt þeir væru mennirnir, sem ættu skilið alúð, ást og virðingu fólksins umfram aðra menn hér á Íslandi. Ég lifði svo alla bernsku mína á Íslandi, að miklir menn, sem svo eru nefndir, og höfðingjar voru aðeins ævintýramynd og loftsýn, en umhyggja fyrir aðþrengdu lífi var það siðferðisboðorð, sem í heimahögum mínum eitt bar í sér veruleika.

Ég minnist vina minna ónafnkunnra, þeirra, sem í æsku minni og löngu eftir að ég var orðinn fulltíða voru í ráðum með mér um þær bækur, sem ég réðst í að skrifa. Þar á meðal voru nokkrir menn, þótt eigi væru atvinnurithöfundar, gæddir bókmenntalegri dómgreind, sem aldrei brást, og gerðu mér ljós ýmis þau höfuðatriði skáldskapar, sem stundum eru jafnvel snillingum hulin. Nokkrir þessara gáfuðu vina minna halda áfram að lifa í mér, þó þeir séu horfnir af sjónarsviðinu, sumir þeirra jafnvel með svo raunverulegum hætti, að fyrir getur komið að ég spyrji sjálfan mig, hvað sé þeirra hugur og hvað minn.

Í sömu andránni verður mér hugsað til þeirrar fjölskyldu, eitthvað kringum 150 þúsund manna stórrar, hinnar bókelsku þjóðar Íslands, sem hefur haft á mér vakandi auga frá því ég fór fyrst að standa í fæturna sem rithöfundur, gagnrýnt mig eða talið í mig kjark á víxl, en aldrei skellt við mér skollaeyrum eins og henni stæði á sama, heldur tekið undir við mig eins og bergmál eða eins og viðkvæmt hljóðfæri svarar áslætti. Það er skáldi mikið hamingjulán að vera borin og barnfæddur í landi, þar sem þjóðin hefur verið gegnsýrð af anda skáldskapar um aldaraðir og ræður fyrir miklum bókmenntaauði frá fornu fari.

Og þá skyldi heldur engan furða, þó hugur minn hafi séð aftur fram í aldir til fornra sagnmanna, þeirra, sem skópu sígildar bókmenntir íslenzkar, þessara skálda, sem svo mjög voru samsamaðir þjóðdjúpinu sjálfu að jafnvel nöfn þeirra hafa ekki varðveitzt með verkum þeirra. Aðeins standa hin óbrotgjörnu verk þeirra í augsýn heimsins með jafnsjálfsögðum hætti og landið sjálft. Um langar, myrkar aldir sátu þessir ónafnkenndu menn um hverfðir snauðasta landi heimsins, í húsakynnum, sem höfðu svip steinaldar, og settu bækur saman án þess að þekkja hugmyndir slíkar sem laun, verðlaun, frama, frægð. Ég hygg að í margri kytru, þar sem þessir menn sátu, hafi ekki einu sinni brunnið eldur, svo að þeir gætu ornað sér á loppnum fingrum í andvökunni. Samt tókst þeim að skapa bókmenntamál svo ágætlegt, að sá listrænn miðill mun torfundinn í heiminum, sem gefur rúm fleiri tilbreytingum, hvort heldur er í því, sem kallað er útsmogið, ellegar hinu, sem kennt er til tíguleika. Og þeim tókst að semja á máli þessu bækur, sem teljast til sígildra bókmennta heimsins. Þó að þessum mönnum væri kannski stundum kalt á fingrunum, þá lögðu þeir ekki frá sér pennann, meðan þeim var heitt um hjartað.

Ég spurði mig þetta umrædda kvöld: Hvað má frami og frægð? Hvað má frægð og frami veita skáldi? Skemmtilega velsælu af því tagi, sem fylgir hinum þétta leir. En ef íslenzkt skáld gleymir upphafi sínu, þjóðdjúpinu, þar sem sagan býr, ef hann missir samband sitt og skyldur við það líf, sem er aðþrengt, það líf, sem hún amma mín gamla kenndi mér að búa öndvegi í huga mér, þá er frægð næsta lítils virði og svo það hamingjulán sem hlýzt af fé.

Yðar hátignir. Herrar mínir og frúr.

Sá hlutur, sem mér þykir mest um vert þeirra, sem mér hafa að höndum borið um þessar mundir, það er að sænska Akademían skuli af hinu mikla áhrifavaldi, sem henni er léð, hafa nefnt nafn mitt í sambandi við hina ókunnu meistara fornsagnanna íslenzku. Þær röksemdir, sem sænska Akademían hefur látið liggja að veitingu hins mikla sóma mér til handa, mun ævilangt verða mér sjálfum hvatning um leið og þær munu verða fagnaðarefni þeirri þjóð, sem stendur að baki alls, sem einhvers kann að vera vert í verkum mínum."

 

Þegar textinn birtist í Gjörningabók árið 1959 var síðasta klausan lítillega breytt og hljóðaði þá svo:

„Yðar hátignir; herrar mínir og frúr.  Sá hlutur sem mér þykir mest um vert, þeirra sem mér hafa að höndum borið um þessar mundir, það er að Sænska akademían skuli af hinu mikla áhrifavaldi sem henni er léð hafa nefnt nafn mitt í sambandi við hina ókunnu meistara fornsagnanna íslensku.  Þær röksemdir sem Sænska akademían hefur látið liggja að veitíngu hins mikla sóma mér til handa, munu verða sjálfum mér ævilaung hvatníng um leið og þær eru fagnaðarefni þjóðar minnar.

Fyrir þetta allt tjái ég nú Sænsku akademíunni þökk mína og virðíngu.  Þó ég sé sá sem í dag hef tekið við bókmentaverðlaunum úr hendi konúngs, þá finst mér verðlaun þessi hafi um leið verið veitt lærifeðrum mínum þeim er leift hafa eftir sig bókmentalegan arf Íslands. "