Ævi og störf Auðar

image

„Hvað man ég fyrst? Ég held ég muni fyrst eftir mér, þegar systir mín yngri fæddist. Fríða. Þá man ég að pabbi kom og sagði: hann Nonni er að fæðast…“ 

Á þennan veg hefjast endurminningar Auðar Sveinsdóttur í eiginhandriti hennar en í safni Gljúfrasteins − húss skáldsins er handrit, vélritað og unnið af Auði sjálfri, sem síðar átti eftir að koma fyrir sjónir íslenskra lesenda síðla árs 1984 í viðtalsbókinni Á Gljúfrasteini − Edda Andrésdóttir ræðir við Auði Sveinsdóttur Laxness. Viðtalsbókin naut mikilla vinsælda, seldist upp og hefur verið ófáanleg um langa hríð. Vinsældir hennar eru til vitnis um þann mikla áhuga sem var og er á persónu Auðar og margþættu hlutverki hennar á Gljúfrasteini og sem lífsförunautar nóbelskáldsins Halldórs Laxness. 

Fyrsta minning Auðar tengist fæðingarstað hennar á Eyrarbakka og það var ekki Nonni sem fæddist þennan dag heldur Fríða, yngst þriggja svipmikilla og náinna systra. Auður var þeirra elst, fædd í samkomuhúsinu Fjölni á Eyrarbakka hinn 30. júlí árið 1918, dóttir hjónanna Halldóru Kristínar Jónsdóttur og Sveins Guðmundssonar járnsmiðs. Næstelst var Ásdís Sveinsdóttir, síðar Thoroddsen, og yngst Fríða Sveinsdóttir. Á Eyrarbakka býr Auður fyrstu æviárin á fallegu heimili eins og hún átti síðar eftir að minnast: „Sófi og stólar, klætt rauðu ullarsatíni, stórt kringlótt borð á miðju gólfi, konsúlspegill og skápur“ (Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir Laxness, Á Gljúfrasteini, 10). 

Auður hóf störf við röntgendeild Landspítalans árið 1934. „Á Röntgendeildinni gekk maður í öll störf. Ég var alltaf með dr. Claessen í kennslustundum, bæði hjá læknanemum og hjúkrunarnemum. Sýndi skuggamyndir og fleira. Einhverntíma spurði hann hvort ég væri ekki farin að kunna utan að allt þetta sem hann væri að kenna, og hvort ég vildi ekki bara taka próf. Og það varð úr. Ég tók öll bókleg fög með einum árgangi hjúkrunarkvenna, en vildi samt heldur starfa áfram á Röntgendeildinni en fara í hjúkrun.“ Þetta segir Auður Eddu Andrésdóttur í bók þeirra Á Gljúfrasteini, sem kom út árið 1984. Bókin varpar ljósi á einstakan karakter Auðar og öll þau miklu störf sem hún gegndi um ævina. 

image

Auður var sterkur karakter sem lá ekki á skoðunum sínum og skrifaði greinar meðal annars í tímaritin Melkorku og Hugur og hönd. Auður skrifaði beittar greinar um listir og má nefna grein eftir hana „Myndvefnaðurinn nýji“ þar sem hún miðlar nýjum straumum í vefnaði og sýnir fram á mikið næmi fyrir því sem er að gerast ytra. Þá kynnti hún nöfn og list þeirra kvenna sem henni þótti sýna nýja og eftirsóknaverða nálgun í listköpun.    

Greinarnar bera þess merki að Auður sá mikilvægi fólgið í því að hannyrðir og listir kvenna væru sýnilegar og veitti þeim sjálfstæði og virðingu: „Nú vantar listsaum, teiknaðan og unninn af íslenzkum nútímastúlkum, úr þeirra lífi og umhverfi. Við eigum ágæta listmálara, því skyldum við ekki geta átt jafngóðar hannyrðakonur í nútímaskilningi, og annað listskapandi handiðnaðarfólk.“ (Auður Sveinsdóttir, 1949. Melkorka, 1. júní 1949, bls 10-12).  

Í gegnum árin vann Auður fjölda verka í textíl. Mörg þeirra eru framúrstefnuleg og hikaði Auður ekki við að nýta óvenjuleg efni við vinnu sína. En virðing Auðar og áhugi fyrir hefðinni leynir sér þó ekki í verkum hennar og skrifum um hannyrðir og handverk. Foreldrar hennar, þau Sveinn Guðmundsson og Halldóra Kristín Jónsdóttir, höfðu ekki síst áhrif á það hvaða augum Auður leit hefðina að baki íslensku handverki. Með móður sinni fór hún ófáar ferðirnar á Þjóðminjasafnið þar sem þær tóku upp munstur og hleyptu hugmyndafluginu af stað umkringdar altarisklæðum, söðulábreiðum og veggtjöldum fortíðarinnar. Verk hennar eru svipsterk á Gljúfrasteini og má þar t.d. nefna Maríuteppið sem Auður gerði fyrir Halldór þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 1955 og Landaparís – púðaver sem sýnir auga hennar fyrir formi og litum, sem hún saumaði eftir ferð þeirra hjóna til Parísar árið 1948.   

image

Auður kynntist Halldóri á Laugarvatni nokkrum vikum áður en heimsstyjöldin síðari skall á. „Við Halldór fórum út að ganga að kvöldi til. Við gengum svolítinn spöl inn dalinn og settumst á þúfu við lítinn læk. Stuttu seinna teygði Halldór sig eftir blómi yfir öxlina á mér, og þar með voru forlögin ráðin.“ (Auður Sveinsdóttir, 1984. Á Gljúfrasteini, bls. 39). 

Þau Halldór byggðu Gljúfrastein árið 1945 og giftu sig á aðfangadag sama ár. „Giftingardaginn minn, á aðfangadagskvöld 1945, fórum við Ívar frændi minn strax úr jólaborðhaldi á Bárugötu 14 upp að Gljúfrasteini, og hann kenndi mér að setja í gang ljósamótor og kveikja upp í miðstöð. Ég hafði keypt hænsni fyrir jólaboð daginn eftir, en þau fengust ekki tilbúin til matreiðslu þá eins og nú er; ég varð að taka innan úr þeim og svíða þau yfir kertaljósi, því þau voru illa reytt. Ég varð hálf myrkfælin meðan ég var að rífa innan úr hænsnunum! Halldór kom með gestina daginn eftir, um það bil sem ég var að verða lens í matreiðslunni á prímusnum.“ (Auður Sveinsdóttir, 1984. Á Gljúfrasteini, bls. 50).   
  
Árið 1947 hóf Auður nám í Handíða- og myndlistaskólanum. Áhugi hennar á að dýpka þekkingu sína á þessu sviði jókst þegar hún ferðaðist með Halldóri og var í sambandi við konur í Evrópu sem voru á svipuðum slóðum. „... við Vigdís Pálsdóttir [vorum] ákveðnar í því að koma upp einhverskonar listiðnaðarvinnustofu. Ég sé að ég hef staðið í bréfaskriftum við hana út af þeirri hugmynd þennan vetur. Það var meira að segja komið svo langt að við höfðum augastað á ákveðnu húsnæði í Austurstræti. Ég hef líka skrifað konu Svavars Guðnasonar sem var þá í Gljúfrasteini, en ekki alflutt frá Kaupmannahöfn, um að vera í samvinnu við okkur. Hún hafði árum saman unnið að perlusaumi og annarri fíngerðri handavinnu á kjólum fyrir Magasin du Nord. Ásta skrifaði: „Það væri svo sem gaman að koma með glannastælskjóla og setja upp tískuvinnustofu, eins og þú segir, eða frammúrstefnukjóla og biðja Svavar að mála á þá.“ En alltaf vantaði okkur stofnfé til fyrirtækisins, og í staðinn fór ég að vinna á Berklavarnarstöðinni.“ (Auður Sveinsdóttir, 1984. Á Gljúfrasteini, bls. 53). 

Þau Auður og Halldór eignuðust saman tvær dætur, Sigríði árið 1951 og Guðnýju árið 1954.   

image

Eftir því sem vegur Halldórs óx erlendis jókst gestagangurinn á Gljúfrasteini. Auður lýsti hlutverki sínu á heimilinu sem miðlunarstarfi. Hún tók á móti gestum, sá um samskipti við íslenskar og erlendar stofnanir og fjölmiðla og skipulagningu veisluhalda og tónleika.  

Þetta miðlunarstarf sem Auður sinnti skapar grunninn að anda Gljúfrasteins og má sérstaklega nefna tónleikahefð þeirra hjóna og er haldið uppi á safninu í dag. „Flygill kom í stofuna stuttu eftir að við fluttum, og við fengum einhver ósköp af stríðsstólum úr Trípólíbíó gegnum Ragnar Jónsson. Venjulega komu þrjátíu til fimmtíu manns og stundum fleiri. Þegar pólski píanistinn Henryk Sztompka spilaði hérna voru áttatíu manns, og var setið í stiganum þegar sæti þraut niðri.“ (Auður Sveinsdóttir, 1984. Á Gljúfrasteini, bls. 59). Þá þurfti auðvitað veitingar fyrir fólkið sem var komið langa leið og tók Auður á móti verkefnunum með bros á vör eins og öllu sem hún tók sér fyrir hendur.