Meistari meistaranna

Das wohltemperierte Klavier hefur að geyma nótur að 48 prelúdíum og fúgum eftir Jóhann Sebastían Bach (1685-1750).

Halldór Laxness var mikill aðdáandi verka Jóhanns Sebastíans Bach sem hann kallaði meistara meistaranna og sagði að nafnið eitt fengi „hvert saungvið hjarta til að slá örar". Sjálfur lék hann gjarnan á flygil sinn úr Das Wohltemperierte Klavier eftir Bach.

Árið 1943 ritaði hann grein sem nefnist Þrjú kristileg listaverk og birtist í Sjálfsögðum hlutum. Þar sagði hann um Jóhannesarpassíu Bachs: „Í verki einsog Jóhannesarpassíunni birtist kristindómurinn í heimssniði, kristindómurinn sem hámenníngin sjálf, ósértrúarlegt, alþjóðlegt menníngarafl með öll fullkomnustu áhrifstæki listarinnar á valdi sínu. Í slíku verki er ekki aðeins hið kirkjulega og kristilega eitt, heldur mætist þar hið almenna kirkjulega, kaþólisítas, og hið almenna mannlega í listrænum alfullnaði sem hafinn er yfir kynþáttu þjóðir og túngur, tíma tísku og sérvisku, kenníngar og kreddur. Svo konúnglegt verk er sígilt meðan maðurinn skynjar tilveru sína á jörðinni í ljósi harmleiksins - og meðan hin kristilega þjóðsaga heldur áfram að vera brennipúnktur mannlegs harmleiks."

Tveimur áratugum síðar, árið 1965, lék Erling Blöndal Bengtsson „hnéfiðlu-samstæður" Bachs í Ríkisútvarpinu og flutti Halldór Laxness „Morgunhugleiðíngar um Bach" á undan þeim sem síðar voru prentaðar í Upphafi mannúðarstefnu. Þar sagði hann meðal annars: „Mér finst einlægt að þeim sem eru að reyna að útskýra tónlist með orðum sé ekki ljóst hlutverk orða og þaðanafsíður tónlistar. Sumar tegundir af myndlist komast nær því en orð að efla skynbragð manna á tónlist; þó er kanski danslistin, bæði á upprunastigi og í ballett, ennþá nytsamari til að efla mönnum tónlistarskyn. Og til er sá skáldskapur sem hefur svipuð áhrif og tónlist á ýmsa menn (þó öðrum, og þarámeðal mér, finnist slíkur skáldskapur ekki alténd skemtilegur) - en þarmeð hefur í rauninni ekkert verið skýrt; og tónlist heldur eftirsemáður áfram að tjá sig í tónlist. Um tónlist gildir hið fornkveðna, hver eyru hefur að heyra, hann heyri.

Við skulum taka dæmi af sellósvítunum eftir Jóhann Sebastían Bach, sex samstæðum tónverkum fyrir einsamla hnéfiðlu, sem frændi okkar og vinur Erling Blöndal Bengtson ætlar að leika hér í útvarpið í dag og á fimm næstum sunnudagsmornum. Hverju fá orð aukið við þetta verk? Hvað tjáir þessi einfalda og stórbrotna tilraun í laglínu sem er um leið svo óhemjulega smágerð og næm? Þó grant sé hlustað æ ofaní æ, og þó undrun og aðdáun þess sem hlustar verði æ því meiri sem hann hlustar leingur, þá heldur þó aðalatriðið að vera jafn óuppgötvað og það er óumræðilegt. Menn geta sosum reynt að svara í orðum, og það hefur sjálfsagt oft verið gert, en ætli flest svörin verði öllu meira en endurtekníng, að breyttu breytanda, á svörum við gömlu spurníngunni: til hvers er sólin túnglið og stjörnurnar?"