Vefarinn mikli frá Kasmír

Vefarinn mikli frá Kasmír 1927

Vefarinn mikli frá Kasmír kom út árið 1927 og er talinn marka upphaf íslenskra nútímabókmennta.

Um þá bók sagði Kristján Albertsson í frægum ritdómi í tímaritinu Vöku: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenzkrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára! Ísland hefir eignazt nýtt stórskáld - það er blátt áfram skylda vor að viðurkenna það með fögnuði."

Vefarinn mikli segir frá Steini Elliða, sem er á 19. ári þegar sagan hefst, og greinir frá nokkrum árum í lífi hans. Hann flögrar milli ólíkra lífsskoðana og má segja að hann velkist milli þriggja meginstefna: kaþólsku, kommúnisma og ofurmennishugsjónar Friedrichs Nietzsche.

Lífsskoðanir Steins og afstaða hans breytast í sífellu, hann hefur með öðrum orðum „hundraðogfimtíu lífskoðanir en eingin þeirra er hans eigin", eins og Halldór Laxness sagði í grein á þessum tíma um nútímamanninn. Steinn Elliði kastast öfga á milli og er engin leið að festa hendur á skoðunum hans.

Í meginatriðum er hann klofinn milli þess guðlega og jarðneska, andlega og líkamlega; í honum togast á andstæður sem virðast ósættanlegar því að það sem sál hans girnist brýtur í bága við það sem holdið heimtar. Þessir andstæðu pólar tákngerast í Guði og konunni. Eini verðugi „keppinautur" Guðs um sál Steins er Diljá, stúlkan sem elskar hann og hann er ástfanginn af, þ.e.a.s. þegar hún er ekki ímynd freistarans djöfullega í augum hans.

Með Vefaranum mikla frá Kasmír má segja að Halldór Laxness hafi sagt skilið við kaþólskuna sem hann hafði aðhyllst um nokkurra ára skeið.

Fleyg orð Steins Elliða

„Konan er nefnilega hvorki meira né minna en hættulegasti meðbiðill guðs og keppinautur þar sem sál mannsins er í tafli."

„Alt í lífi mínu er lýgi, Diljá, guð og djöfullinn, himinn og helvíti, alt lygi nema þú."
(39. kafli.)

„- það er blindur maður sem sér ekki að sameignarfyrirkomulagið er þjóðskipulag framtíðarinnar."
(31. kafli.)