Heimsljós

Heimsljós - ljós heimsins 1937

Heimsljós var gefið út í fjórum hlutum á árunum 1937-40. Ljós heimsins, sem síðar hlaut nafnið Kraftbirtíngarhljómur guðdómsins, kom fyrst, síðan Höll sumarlandsins, þá Hús skáldsins og loks Fegurð himinsins.

Sagnabálkurinn fjallar um Ólaf Kárason Ljósvíking og byggir Halldór þar nokkuð á ævi alþýðuskáldsins Magnúsar Hj. Magnússonar sem uppi var 1873-1916. Í öðrum og þriðja hluta bálksins er þjóðfélagsleg staða skáldsins í forgrunni en fyrsti og fjórði hluti snúast einkum um hugarheim hans.

Ólafur Kárason er niðursetningur á bænum Fæti undir Fótarfæti og þráir það eitt að verða skáld. Hann flytur síðar til Sviðinsvíkur þar sem hann kynnist stéttaátökum samtímans, bágum kjörum alþýðu - og konum. Halldór Laxness leggur Ólafi í munn fjölda ljóða sem síðar urðu fleyg. Nægir þar að nefna Maístjörnuna og Hjá lygnri móðu. Í Sviðinsvík er Pétur þríhross allsráðandi en sagt hefur verið að Jónas Jónsson frá Hriflu sé fyrirmynd hans en á þeim árum er Heimsljós kom út stóð hann í miklu stríði við kommúnista. Hins vegar er ekki síður hægt að líta á stöðu skálda undir nasistum og Stalín sem baksvið bókarinnar.

Ólafur Kárason Ljósvíkingur er fyrirlitið skáld, krossberi sem þjáist fyrir aðra. Líf hans er píslarganga. Hann þráir að þjóna fegurðinni einni en ranglætið í kringum hann kemur í veg fyrir að hann geti það því að „það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt", eins og segir í sögunni. Hann er í raun ekki af þessum heimi heldur stendur utan við umhverfi sitt og þráir óskiljanlega huggun. Þá huggun finnur hann ekki í mannheimum, nema stutta stund í faðmi konu og langar nætur í skáldskaparveröld sinni. Hann skilur hins vegar sitt fólk, getur orðað hugsanir þess og veitt því nýja sýn. Hann er skáld sem skynjað hefur kraftbirtingarhljóm guðdómsins. Í lok verksins, að morgni upprisudagsins, hverfur hann síðan á vit jökulsins þar sem ríkir fegurðin ein.

Fleyg orð:

„... það er ekkert einstakt happ, hvorki hækkað kaup né betri veiði, sem getur læknað skáldið af sársaukanum, ekkert nema betri heimur. Þann dag sem heimurinn er orðinn góður hættir skáldið að finna til, en fyr ekki. En um leið hættir hann líka að vera skáld."
(Hús skáldsins. 3. kafli. Ólafur Kárason.)

„Það er hægt að sjá á árunni hvort menn eru sannir íslendíngar eða ekki, þeir sem ekki leggja eitthvað á sig fyrir atvinnuvegina á þessum erfiðu tímum eru ekki sannir íslendíngar."
(Hús skáldsins. 5. kafli. Pétur þríhross.)
„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."
(Fegurð himinsins. 1. kafli.