Heimilið

Gljúfrasteinn var byggður eftir teikningum Ágústs Pálssonar (1893-1967) arkitekts í módernískum stíl sama ár og þau Auður Sveinsdóttir og Halldór Laxness fluttu inn og gengu í hjónaband sem var í desember árið 1945.

„Um það bil sem byggingu Gljúfrasteins lauk, árið 1945, sagði Halldór við mig: „Nú förum við suður í Hafnarfjörð og látum gifta okkur.“ Við giftum okkur á aðfangadag. Ég var að vinna þennan dag, við vorum að skreyta ganga spítalans eins og vant er fyrir jólin. Ég bað um leyfi til að skreppa frá og fór í brúðarskartið, dökkbláan ullarkjól með hettuslá utan yfir úr sama efni“ (Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir Laxness, Á Gljúfrasteini, bls. 42).

Við arininn í stofunni stendur „Eggið" eftir Arne Jacobsen en þar sat Halldór gjarnan. Myndin til vinstri, ofan við stólinn, er eftir Kristján Davíðsson. Í hinum stólnum er púði sem Auður gerði í París og kallaði Landaparís; með litunum ætlaði hún að fanga andrúm borgarinnar. Á arinhillunni rísa hæst tvö Afríkulíkneski sem Halldór og Auður keyptu af Kristjáni Davíðssyni en hann flutti þau heim með sér þegar hann kom úr námi í Bandaríkjunum. Þá er frönsk stytta, mynd af Ása-Þór, stytta sem Auður keypti á Indlandi og önnur grænlensk. Yst til hægri er mynd eftir Ásmund Sveinsson sem Auður keypti um 1940.

Mótun hússins markaðist í upphafi af vöruskorti við stríðslok. Þess vegna var m.a. leitað til ættingja og vina til þess að búa til ljósakrónur, sem járnsmiðurinn Sveinn Guðmundsson faðir Auðar smíðaði, og gluggatjöld sem voru handofin af vefaranum Karólínu Guðmundsdóttur en Auður hannaði útlitið á vefnaðnum. Birta Fróðadóttir danskur húsgagnasmiður og innanhússarkitekt sem giftist til Íslands og settist að í Mosfellsdalnum um svipað leyti og þau Auður og Halldór. Hún hannaði meðal annars skrifpúltið og skrifborðið sem stendur í vinnuherbergi skáldsins, valdi liti í húsið o.s.frv. eins og Auður átti síðar eftir að minnast:

„Vikum saman hittumst við nærri daglega. Við fórum til Karólínu vefkonu og Birta bjó í hendur henni áklæði, salúnsábreiður og gluggatjöld fyrir allt húsið, teiknaði og valdi húsgögn fyrir smiðina í Björk, valdi liti á veggina og útvegaði húshluti. Það var haldið reisugildi þar sem við vorum bara tvær kvenna og áður en varði var komið fullbúið hús á hólinn“ (Auður Sveinsdóttir, „Birta Fróðadóttir – minning,“ bls. 23).

Í bókinni Gljúfrasteinn – hús skáldsins (útg. árið 2012) eru skrif Halldórs í gegnum tíðina um hús og híbýli manna dregin fram og tengd sérstaklega Gljúfrasteini en höfundar kaflans um húsið sjálft, þau Hulda Margrét Rútsdóttir og Þröstur Sverrisson, telja skrif Halldórs endurspeglast í byggingu hússins. Í skrifum Halldórs sem komu út á prenti á árunum 1937-1959; „Um hús“, „Sálarfegurð í mannabústöðum“ og loks „Myndarheimili“ setur hann fram hugmyndir sínar um hlutverk og áhrifamátt byggingarlistar og heimilis í því samfélagi sem þá var í mótun. Sú grundvallarhugmynd liggur að baki skrifum Halldórs að samspil megi finna „milli ytri ásýndar og framkomu annars vegar og innra sálarlífs hins vegar“ (Halldór Laxness, „Sálarfegurð í mannabústöðum,“ bls. 115-118). „Sálarfegurð í mannabústöðum“, sem birtist í safni ritgerða um húsagerðarlist Húsakostur og hýbýlaprýði (útg. árið 1939), er til marks um að litið var á baráttuna fyrir bættum húsakynnum sem mikilvægan þátt í þeirri menningarbaráttu sem átti sér stað á upphafsárum nýrrar aldar og snerist m.a. um húsakost Íslendinga.

Heimili þeirra Halldórs og Auðar mótaðist af hugmyndum og fagurfræði þeirra beggja og má að auki staðsetja innan þess verkefnis sem nútíðarsinnar unnu að á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og beindist gegn þeirri menningarlegu íhaldssemi sem setti mark sitt á íslensk menningarstjórnmál á þeim tíma. Sjálf byggingin og innviðir hennar bera þess vott að eigendurnir aðhylltust módernisma og lögðu sitt af mörkum til nútímavæðingar landsins. Bæði báru þau djúpstæða virðingu fyrir íslenskri handverkshefð og því má á heimili þeirra sjá áhugaverða blöndu módernískra verka og eldra þjóðlegs handverks m.a. úr fórum fjölskyldna þeirra hjóna.

Málverk eftir marga af fremstu abstrakt listamönnum þjóðarinnar setja svip á húsið innanstokks en í safni þeirra hjóna eru einnig verk eftir erlenda listamenn eins og danska listamanninn Asger Jorn. Húsmunir  sem teljast til íkona í norrænni hönnunarsögu þ.á.m. Eggið eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen og Veiðistóllinn eftir samlanda hans Børge Mogensen, er að finna í stofunni. Verk Auðar; veggtjöld, púðar og fleira ásamt verkum frá öðrum hannyrðakonum eins og móður Auðar Halldóru Kristínu Jónsdóttur setja einnig sterkan svip á heimili þeirra Halldórs og Auðar.

Heimilið var ekki aðeins umgjörð daglegs lífs fjölskyldunnar á Gljúfrasteini og helsti vinnustaður þeirra hjóna heldur einnig opinber menningarstofnun þar sem tekið var á móti fjölda gesta og þeim sinnt af alúð enda var um Auði sagt að hún væri höfðingi heim að sækja.