Þegar lífið knýr dyra

Þann 10. desember 2015 voru liðin 60 ár frá því að Halldór Laxness veitti Nóbelsverðlaununum viðtöku.

Að því tilefni færðu Gljúfrasteinn og Raddir – samtök um vandaðan upplestur og framsögn - skólabörnum og framtíðinni dagskrána „Þegar lífið knýr dyra – um börn á þröskuldi fullorðinsára í verkum Halldórs Laxness“ að gjöf.


„Þegar lífið knýr dyra“ er dagskrá sem Baldur Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir tóku upphaflega saman árið 2002 en var síðar endurskoðuð og gefin út á netinu. Baldur Sigurðsson sá um endurskoðun dagskrárinnar. Henni er ætlað að gefa áheyrendum hugmynd um hvaða hlutverk börn leika í verkum Halldórs, hvaða hugmyndir hann hafði um börn og fullorðna, skóla og uppeldi. Hér er um að ræða brot úr ýmsum verkum, bæði skáldsögum og ritgerðum auk ljóða, sem auðvelt er að setja upp og flytja sem heildstæða dagskrá. Við samantektina var fyrst og fremst haft í huga að dagskráin hentaði ungum flytjendum, á mörkum bernsku og unglingsára, og að hún höfðaði til ungra áheyrenda.


Dagskráin er aðgengileg til aflestrar og útprentunar í gegnum vef Gljúfrasteins og var öllum grunnskólum landsins sendur póstur þar sem tilkynnt var um gjöfina. Vonast er til að gjöfin verði til þess að nemendur kynnist textum skáldsins í gegnum söng, lestur og leik. Skólar landsins geta notað heftið að hluta til eða í heild sinni að eigin vild. Ítarlegar leiðbeiningar fylgja með.


Til að nálgast dagskrána þarf einfaldlega að smella á þennan hlekk: Þegar lífið knýr dyra


Njótið vel.