Úngur eg var (1976) er annað bindi minningasagna Halldórs Laxness sem út komu á árunum 1975-80.
Hinar eru Í túninu heima (1975), Sjömeistarasaga (1978) og Grikklandsárið (1980). Sagan fjallar um fyrstu utanför Halldórs Laxness sumarið 1919. Þá dvaldi hann í Danmörku og Svíþjóð í tæpt ár. Úngur eg var er merk heimild um andsrúmsloft eftirstríðsáranna og segir frá mörgum kunnum samtíðarmönnum Halldórs, innlendum og erlendum. Sjálfsmynd skáldsins er þó mikilvægasti þáttur verksins: Hann rannsakar heiminn bláfátækur en bjartsýnn, ákveðinn í að verða rithöfundur. Hann skrifar til að lifa og lifir til að skrifa. Samspil aðalpersónanna tveggja, söguhetjunnar og sögumannsins, er einkar áhugavert. List Halldórs felst ekki síst í því að láta söguhetjuna vera algjörlega grunlausa um það hvað bíður hennar. Rithöfundurinn ungi sér ekki hvað er líklegt að gerist og heldur sakleysi sínu líkt og hver önnur skáldsagnapersóna. Lesandinn kemst hins vegar ekki hjá því að vera sér meðvitandi um það hvert líf hins unga rithöfundar stefnir. Höfundur minningasögunnar er miskunnarlaus við höfundinn unga og sýnir hann hvað eftir annað í írónísku ljósi.
Fleyg orð
Fleyg orð
„... ef manni þætti ekki alt skrýtið í heiminum, á hverri stundu sem lifir, þá væri maður víst búinn að vera. Skrýtnastur er maður sjálfur - og þó ekki leinguren maður heldur áfram að spyrja: hvað næst?"
(8. kafli.)
„Alt sem yfir dynur í mannlegu félagi, slys og hörmúngar, er skáldum fundið fé."
(15. kafli)
„Vandinn að skrifa er í því fólginn að þegja yfir nógu mörgu."
(11. kafli.)