Til varnar útigangshrossum

Reisubókarkorn 1950

Halldór ritaði stutta grein til varnar útigangshrossum sem síðar var prentuð í Reisubókarkorni 1950. Þar segir hann að sér finnist meðferð Íslendinga á þeim vera blettur á þjóðlífinu:

„Útigángshrossin eru meira en leifar gamallar vanmenníngar einsog lús, þau eru bókstaflega skömm á íslensku þjóðlífi. Menn sem hafa ánægju af að láta þessar veslíngs skepnur standa úti í vetrarfárviðrum, og naga sinu, mold og klaka, eru ósviknir dýrakvalarar. Í fornum trúarbrögðum eru dýrakvalarar taldir meðal þeirra sem muni fyrstir brenna í eilífum eldi. Þíngmaður einn úr einu mesta útigángshrossahéraði landsins flutti í vetur lagafrumvarp um að taka skemtanaskattinn af þjóðleikhússjóði og byggja fyrir hann samkomuhús og leikhús í sveitum. Þeir sem hafa með menskum tilfinníngum horft á útigángshross í Skagafirði skjögrandi af hor á vordegi eftir harðan lángan vetur munu sannarlega ekki sjá eftir fé úr þjóðleikhússjóði né öðrum sjóðum til samkomuhúsa í því héraði - handa útigángshrossum framar öllu. Menníng sveitanna byrjar nefnilega ekki á leikhúsi, heldur því að hafa skýli og fóður handa skepnunum. Menn sem hafa ánægju af að kvelja dýr eiga ekki að fá leikhús, heldur tukthús. En menn sem láta skepnur sínar vera ekki kvaldari á þorranum en þær eru á slætti munu fá öll leikhús bæði þessa heims og annars.“ (101)