Gljúfrasteinsannáll 2020

,,Og árið kom og árið leið ...”

Árið 2020 byrjaði með veðurhvelli, hver lægðin á fætur annarri lagðist yfir landið og fólki var suma daga ráðlagt að fara ekki að heiman nema brýna nauðsyn bæri til. Í byrjun mars, um hálfum mánuði eftir að dýpsta lægðin gekk yfir landið, var tilkynnt um fyrsta Covid-19 smitið á Íslandi. Ekki grunaði landsmenn þá að heimsfaraldur myndi geysa allt árið og að það að halda sig að mestu heima við yrði viðvarandi ástand árið 2020. Það hægðist á öllu. Sett var á samkomubann, fjöldatakmarkanir og tveggja metra fjarlægðarmörk. Fólk var hvatt til að ferðast innanhúss. Ekki var hægt að bjóða gesti velkomna á Gljúfrastein frekar en á önnur söfn í landinu. 

image

Starfsfólk safna þar á meðal Gljúfrasteins sat ekki auðum höndum og hóf strax að upphugsa leiðir til að færa söfnin heim til fólks í gegnum netið. Safnið í sófann varð að veruleika. Í gegnum netið bauð Gljúfrasteinn meðal annars uppá afar fallegt þrívíddarmyndband, hlaðvarpið Með Laxness á heilanum, orðatré í garðinum til að gleðja göngufólk og safngrip vikunnar. Þá voru ljósmyndir af flestum listaverkum sem eru á safninu á Gljúfrasteini gerð aðgengileg á netinu þannig að nú geta þau sem eru áhugasöm skoðað flest þessara stórkostlegu listaverka. 

image

Píanóleikur Víkings á Gljúfrasteini vinsæll á Youtube

Í byrjun árs, áður en faraldurinn náði til Íslands, kom Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari á Gljúfrastein ásamt kvikmyndatökufólki og tók upp myndband þar sem hann lék á flygilinn sem var í eigu Halldórs Laxness. Skömmu síðar kom út ný hljómplata píanóleikarans en hún heitir Debussy-Rameau. Verkin á henni eru eftir frönsku tónskáldin Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau. Um svipað leyti og platan kom út var frumsýnt á Youtube myndband sem tekið var upp að hluta til í stofunni á Gljúfrasteini.  Nú í lok árs 2020 hefur verið horft um 600.000 sinnum á Víking leika á flygil skáldsins í stofunni á Gljúfrasteini.   

Tónlistarmyndbandið var framleitt af íslenska fyrirtækinu Republik. Magnús Leifsson leikstýrði því fyrir Víking og þýska plötufyrirtækið Deutsche Grammofon sem Víkingur hefur gert útgáfusamning við. Að sögn Hannesar Friðbjarnarsonar sem starfar hjá Republik er þetta þriðja myndbandið sem fyrirtækið gerir fyrir Víking ,,Það er gaman að gera tónlistarmyndbönd með listamanni úr klassíska heiminum þar sem þeir eru ekki eins vanir að gera það og poppararnir. Víkingur er poppstjarna í þessum klassíska heimi," segir Hannes og bætir við að starfsfólk Deutsche Grammofon hafi verið afar hrifið af myndbandinu og þá sérstaklega upptökunni á Gljúfrasteini vegna þess hve Halldór Laxness sé vel þekktur hjá unnendum bókmennta í Þýskalandi.

image

Íslensku þýðingaverðlaunin afhent á Gljúfrasteini

Íslensku þýðingaverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2005 en til þeirra var stofnað til að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskra bókmennta.

Sjö þýðingar voru tilnefndar að þessu sinni og fór verðlaunaafhendingin fram við hátíðlega athöfn í stofunni á Gljúfrasteini í byrjun árs. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands upplýsti þar hvaða þýðandi hefði orðið fyrir valinu og sagði í ræðu sinni að það virtist þvælast fyrir okkur að þýdd verk eigi sér tvo höfunda en að öðrum þeirra virðist ætlað að halda sér til hlés.

,,Nei, segjum við hér háum rómi. Heiður þeim sem heiður ber," sagði forseti Íslands og tilkynnti síðan að Jón Stefán Kristjánsson hefði hlotið Íslensku þýðingarverðlaunin árið 2020 fyrir þýðingu sína á bókinni Hin ósýnilegu eftir Roy Jacobsen.


 

image
Jón Stefán Kristjánsson, þýðandi, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að stíll Roy Jacobsens sé ljóðrænn, tær og stundum kímniblandinn og að blær skáldsögunnar komist einkar vel til skila í fallegri og vandaðri þýðingu Jóns Stefáns Kristjánssonar. Þýðingin sé áreynslulaus og fáguð og beri jafnframt merki um frábært vald þýðandans á íslensku máli. 

Hlustað á skáldið lesa í lægðum ársins

Hver lægðin á fætur annarri gekk yfir Ísland í byrjun árs 2020 og um miðjan febrúar kom afar kröpp lægð yfir landið.  Loka þurfti safninu vegna óveðursins og var fólk hvatt til að halda sig innandyra. Þá var gott að koma sér vel fyrir og hlusta á sögu og þess vegna minnti starfsfólk safnsins á vefinn innansveitarkronika.is þar sem meðal annars er hægt að hlusta á lestur Halldórs Laxness á skáldsögunni Innansveitarkroniku og fræðast um sögusviðið og persónur sögunnar. Vefurinn um Innansveitarkroniku er samstarf Gljúfrasteins, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Forlagsins, Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ og fjölskyldu Halldórs Laxness. 

 

image

Óveðrið gekk yfir og lífið sinn vanagang í um hálfan mánuð en þá var tilkynnt um fyrsta Covid-19 smitið á Íslandi. Það styttist í að innivera landsmanna drægist á langinn því um miðjan mars var fyrsta samkomubannið vegna faraldursins sett á í landinu og þurfti að loka Gljúfrasteini og öðrum söfnum í landinu. Sóttvarnarlæknir lagði þá til að gert yrði hlé á starfsemi safna, skemmtistaða og annarra opinberra staða þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks. Það átti við um safnið á Gljúfrasteini. Þetta var fyrsta lokunin vegna faraldursins en heimasíða safnsins var áfram opin allan sólarhringinn sem og Facebook- og Instagramsíða safnsins þar sem haldið var úti fjölbreyttri dagskrá.

Ferðast innanhúss með safnið í sófanum

Í lok mars höfðu um 1600 manns verið greindir með Covid 19 á Íslandi og yfirvöld hvöttu fólk til að halda sig sem mest heima við. Fólk var hvatt til að ferðast innanhúss.  Fljótlega eftir það skaut myllumerkið #safniðísófann upp kollinum á Akureyri og það breiddist hratt út til safna um allt land sem eins og Gljúfrasteinn juku starfsemi sína á netinu til muna til að gleðja landsmenn í samkomubanninu. 

Starfsfólk Gljúfrasteins sat ekki auðum höndum þó safnið sjálft væri lokað. Ákveðið var að finna leiðir til að halda áfram að gleðja fólk með því sem safnið hefur upp á að bjóða þó ekki væri hægt að taka á móti gestum með hefðbundnum hætti. Það var gert með því að færa safnið heim til fólks í gegnum netið. Ein af hugmyndunum var að bjóða fólki í ferðalag á Gljúfrasteini í gegnum þrívíddarmyndband. Það var frumsýnt rétt fyrir páska og gat fólk þá ,,gengið” um safnið í netheimum. 

 

Sönginn sem heyra má undir myndbandinu er upptaka með Hamrahlíðakórnum úr þættinum Klassíkin okkar - uppáhald íslenskt sem sýndur var á RÚV í ágúst 2018. Kórinn syngur kvæði Halldórs Laxness, Hjá lygnri móðu við lag Jóns Ásgeirssonar. Safn RÚV gaf Gjúfrasteini leyfi til notkunar á upptökunni. Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri og Jón Ásgeirsson tónskáld gáfu jafnframt  leyfi. Ljósmyndari er Vignir Már Garðarson.
 
 

Púðinn, Jóhannes skírari og klukkan sem segir eilíbbð

Auk þrívíddarmyndbandsins þar sem hægt var að skoða safnið á Gljúfrasteini var á heimasíðunni, í hverri viku birtur gripur sem finna má á safninu og saga hans sögð. Meðal gripa sem vakin var athygli á var klukkan sem stendur í forstofunni á Gljúfrasteini en hún er það fyrsta sem blasir við gestum þegar komið er inn í húsið.
 

image

Klukkan var smíðuð hjá James Cowan í Edinborg, úrverkið er frá árinu 1770, en kassinn sjálfur frá Borgundarhólmi í Danmörku.
„Það slær í augum manns einkennilegum helgiblæ á ýmsa forna hluti – hluti, sem hafa verið lengi við líði og eiga sér sögu. Komi maður inn á forngripasafn, fellur hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.“ skrifaði Halldór árið 1916 í Morgunblaðið, þá 14 ára gamall. Greinin bar yfirskriftina Gömul klukka. Í henni rekur Halldór sögu klukkunnar sem hann sá fyrst í heimsókn hjá ömmusystur sinni í Melkoti. Greinina má lesa í heild hér.
Klukka þessi fær einnig hlutverk í skáldsögunni Brekkukotsannáll. Hún stendur vaktina í Brekkukoti og tifar eilíbbð, eilíbbð í eyru aðalsöguhetjunnar Álfgríms.
„Þessi klukka tifaði hægt og virðulega, og mér bauð snemma í grun að ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér einsog ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar sig, en sekúndurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru einsog kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að standa þó kyr.“

image
Púðinn Landaparís

Púði sem Auður Laxness hannaði og saumaði út var líka meðal gripa vikunnar á árinu. Hann sýnir vel hvernig listakonan Auður notaði útsaum til að skrásetja þræði úr eigin lífi.  Púðann Landaparís saumaði hún eftir eigin mynstri en áhrifa gætir frá módernískum verkum í kúbískum stíl.  Munstrið byrjaði hún að hanna árið 1948 þegar hún var í París í fyrsta sinn. Þar sótti hún meðal annars sýningu Pablo Picasso í Galerie Louise Leiris og eru áhrif hans augljós í þessu verki hennar. Sumarið 2018 þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Auðar var útbúin uppskrift að púðanum Landaparís og er hún til sölu í fallegri gjafaöskju í safnabúðinni að Gljúfrasteini.

image

Einn af merkilegustu gripum safnsins er málverkið Jóhannes skírari eftir Jóhannes Kjarval. Hann málaði það árið 1924 og verkið átti að vera altaristafla í Rípurkirkju í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Heimamenn vildu hins vegar ekki taka við myndinni því þeim þótti hún bæði klúr og ljót. Í það minnsta ekki nógu biblíuleg. Myndin fór því í geymslu og svo á heilmikið flakk og dagaði meðal annars upp í Kaupmannahöfn. Síðar eignaðist Ólafur bóndi á Hellulandi í Skagafirði verkið. Eftir hans dag hafði ekkja Ólafs samband við Halldórs Laxness og bauð honum að kaupa myndina sem hann gerði. Jóhannes Kjarval kom einhverju sinni í heimsókn á Gljúfrastein og vildi þá fyrir alla muni setja skegg á efri vör Jóhannesar skírara í verkinu. Halldór stöðvaði þær endurbætur þótt það megi hæglega sjá móta fyrir fáeinum svörtum strikum sem virðast hafa átt að vera yfirvaraskegg og gleraugu á Jóhannesi skírara.

Listaverkasafnið opnað á netinu

Málverkið, púðann, plötuna, klukkuna og flesta hina gripina og munina sem eru á Gljúfrasteini má finna í gagnasafni sem kallast Sarpur en þar eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og fleira. Á heimasíðu Sarps segir að undanfarin ár hafi þau söfn og stofnanir, sem eru aðilar að Sarpi, skráð rúmlega eina milljón færslna í gagnasafnið sem varðveitt sé á svonefndum innri vef. Meirihluti þeirra er nú aðgengilegur öllum á sarpur.is. Starfsfólk Gljúfrasteins var iðið við að skrá muni, ljósmyndir og gripi inn á Sarp á árinu og er ástæða til að nefna sérstaklega að mest allt listasafnið á Gljúfrasteini var gert aðgengilegt almenningi á ytri vef Sarps eftir að undirritaður var samningur við Myndstef um höfundarrétt. Hér í Sarpi má meðal annars skoða listaverk eftir Nínu Tryggvadóttur sem eru á Gljúfrasteini. 
 

image
Stúlka, olíumálverk eftir Nínu Tryggvadóttur

Hundrað börn í hugmyndaleit

Á vorin boða skólahópar komu sína á Gljúfrastein og er þá vanalega mikið líf í húsinu þar sem nemendur leik- grunn- og framhaldsskóla koma í fræðslu- og skemmtiferðir sem hæfa hverjum aldurshópi. Í ár voru þessar heimsóknir bæði færri og í breyttri mynd vegna faraldursins en eins og með annað á þessu ári lokunar var opnað á nýjar hugmyndir. Kennurum var bent á að hægt væri að skoða safnið með nemendum í þrívídd á netinu og einnig var boðið uppá leiðsögn utandyra og krakkarnir leituðu meðal annars að hugmyndum sem eru á kreiki út um allt, ekki hvað síst úti í náttúrunni.

 

image
Börn í 5.bekk Laugarnesskóla í hugmyndaleit við Gljúfrastein

Ekkert fær Jagúarinn stöðvað

Þrátt fyrir að vera orðinn 52 ára er hinn frægi Jagúar sem Halldór Laxness átti enn óstöðvandi. Bíllinn sem er 68 módel er í eigu safnsins á Gljúfrasteini og vekur jafnan mikla athygli safngesta á sumrin þar sem hann stendur á planinu fyrir framan húsið. 
 

image

Þrjú stórafmæli

Í júní þegar rofaði til eftir fyrstu bylgju á Íslandi var opnuð sýning á Gljúfrasteini um Innansveitarkroniku, Halldórs Laxness. Bókin var næstsíðasta skáldsaga Halldórs en hún kom út 1970 og fagnaði því 50 ára afmæli á árinu. Þórunn Elísabet Sveinsdóttir var sýningastjóri og hönnuður sýningarinnar sem er enn í móttökunni á Gljúfrasteini. Móttakan sem var áður bílskúr kallar fram hughrif og kveikir vonandi áhuga gesta á að lesa Innansveitarkroniku. Sýningin er innsetning þar sem sjá má muni og myndir sem Hlíf Una Bárudóttir teiknar á vegg móttökunnar.
 

image
image
Guðrún Pétursdóttir, formaður Vinafélags Gljúfrasteins, Hlíf Una Bárudóttir, myndlistarkona og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir sýningarstjóri og hönnuður sýningarinnar

Sögusvið Innansveitarkroniku er Mosfellsdalur þar sem Halldór Laxness ólst upp og titillinn vísar til glímunnar við söguformið en krónika er fornt heiti á frásögn sem ekki lýtur sögumanni heldur rekur atburði eins og þeir raunverulega gerðust. Atburðirnir sem fjallað er um gerðust á tímabilinu 1880 og fram á fimmta áratug síðustu aldar. Halldór spinnur sögu í kringum kostulegar deilur sóknarbarna um kirkjubyggingu að Mosfelli. Raunar má segja að sagan endurspegli sögu Íslands, allt frá hetjuskap fornaldar til þeirra miklu tímamóta sem heimsstyrjöldin síðari markaði í lífi þjóðarinnar. 

image

Paradísarheimt Halldórs Laxness átti líka stórafmæli á árinu. Hún kom út fyrir 60 árum og fyrir 40 árum var frumsýnd sjónvarpsmynd sem gerð var eftir bókinni. Myndin var í þremur hlutum og sýnd í Sjónvarpinu á jólum árið 1980. Af þessu tilefni var í haust opnuð sýningin Paradísarheimt 60/40 í Landsbókasafninu. Á sýningunni eru gögn sem Björn G. Björnsson leikmyndarateiknari hélt til haga meðan á tökum sjónvarpsmyndarinnar stóð. Á sýningunni má sjá myndskeið úr sjónvarpsmyndinni og á henni eru einnig handrit Halldórs Laxness að bókinni Paradísarheimt. Sýningin sem stendur til 9. mars 2021 er í samstarfi við Gljúfrastein og Kvikmyndafélagið Umba sem er í eigu Guðnýjar Halldórsdóttur og Halldórs Þorgeirssonar eiginmanns hennar.

image
Úr sjónvarpsmyndinni sem frumsýnd var árið 1980

Bak við tjöldin

Líkt og víða annars staðar var starfsemin á Gljúfrasteini afar óhefðbundin í ár. Vanalega er húsið iðandi af lífi, gestir hvaðanæva úr heiminum koma og skoða safnið og fjöldi skólabarna á öllum skólastigum koma í fræðsluferðir. Einnig er nokkuð um það að vinnustaðir komi í starfsmannaferðir á Gljúfrastein oft fjölmennir hópar. En í stað þess að taka á móti gestum vann starfsfólk Gljúfrasteins ötullega að allskyns innra starfi sem er afar mikilvægt á söfnum. Þegar ljóst var að loka þyrfti safninu tímabundið síðastliðinn vetur var meðal annars ákveðið að hreinsa allt bókasafnið. Það er tímafrek vinna því að fara þarf varlega með allar bækur. Notaður er sérstakur bursti með mjúkum hárum og þurrkað vel undan hverri einustu bók.

image
Sigrún Jónsdóttir starfskona Gljúfrasteins

Þá varð fjarvinna að veruleika eins og á mörgum vinnustöðum á árinu. Í henni var lögð áhersla á skráningarhluta starfsins og að halda safninu lifandi á samfélagsmiðlum. Nær daglega eru birtar tilvitnanir úr bókum eða greinum Halldórs Laxness ásamt mynd. Orð skáldsins mælast ávallt vel fyrir og láta lesendur samfélagsmiðla vel af tilvitnunum dagsins.
 

image
,,Það er leiðinlegt að við skulum ekki blístra hvor á annan eins og fuglarnir. Orð eru villandi." Kristnihald undir Jökli. 17.kafli

Þá eru á Gljúfrasteini nokkur þúsund gripa og muna sem þarf að hlúa vel að svo þeir varðveitist sem lengst. Vel er einnig haldið utan um skráningu á öllum munum safnsins og meirihluti þeirra er aðgengilegur almenningi á netinu í gegnum Sarp.is. Sigrún Ásta Jónsdóttir safnfræðingur og starfskona Gljúfrasteins hefur borið hitann og þungann af þessari vinnu á árinu.
Gljúfrasteinn var opnaður sem safn árið 2004. Á þessum sextán árum hefur mikil rækt verið lögð við það að viðhalda heimilisbragnum sem var hér í hálfa öld meðan fjölskyldan bjó hér. Gestir minnast iðulega á það hve heimilislegt sé á safninu, það hefur því tekist vel að halda í heimilisbraginn þó að safnareglur séu ávallt í hávegum hafðar. Allir safngripir eru skráðir eftir almennum safnareglum og um þá hugsað eins og söfn gera um allan heim. Lengi vel gátu gestir ekki séð sjálfa skráninguna en það hefur breyst mikið með tilkomu netvæðingarinnar. Nú geta áhugasamir skoðað stóran hluta skráningarinnar í gegnum netgáttina: sarpur.is. Í desember 2020 eru til dæmis skráðir 1493 gripir í munasafni Gljúfrasteins. Sú skrá heldur meðal annars utan um húsgögn, eldhúsdót, púða, skó, ilmvatnsflöskur, gleraugu, og svo margt margt annað. Hlutirnir eru skráðir með heiti sínu, stærð, úr hverju þeir eru, þeir eru myndaðir, skráð er hvar þeir eru staðsettir, og margt fleira.

image
Sigrún Ásta Jónsdóttir safnfræðingur á Gljúfrasteini

Gljúfrasteinn fékk styrk frá safnasjóði m.a. til að ráða sérfræðing til að vinna forvörsluáætlun og ítarskráning sýningagripa á Gljúfrasteini. Á árinu var einnig farið vel og vandlega yfir fyrri skráningar. Það lagfært sem þurfti og bætt við ef eitthvað vantaði. Þórdís Baldursdóttir forvörður kom til liðs við starfsfólk Gljúfrasteins með ómetanlega ráðgjöf og í lok árs skilaði hún skýrslu um ásand safngripa í húsinu. Það er mjög mikilvægt að fylgjast vel með ástandinu þar sem markmið okkar, eins og allra annarra safna, er að varðveita safnkostinn til framtíðar. Það þarf til dæmis að fylgjast með áhrifum sólarljóss því gripir sem upplitast af sólargeislum geta skemmst. Eyðingarmáttur tímans er mikill en safngripir hrörna mishratt og það ýmislegt hægt að gera til að hægja á ferlinu. Af þessum ástæðum einkum, eru safngestir á flestum söfnum heims beðnir um að snerta ekki gripina.

image
Þórdís Baldursdóttir textílforvörður

Á þessu ári lauk einnig vinnu við að yfirfara listaverkasafn Gljúfrasteins. Þar kom við sögu Nathalie Jacqueminet forvörður. Í listaverkasafninu eru skráð 96 verk, bæði myndverk og skúlptúrar. Farið var yfir myndverkin og hefur Nathalie skilað skýrslu um ástand þeirra og til hvaða aðgerða þarf að grípa varðandi varðveislu sumra þeirra.
Á árinu 2020 fékk Gljúfrasteinn styrki frá  safnasjóði. Í fyrsta lagi til að vinna forvörsluáætlun og ítarskrá sýningagripa á grunnsýningu og í öðru lagið til að ljúka skráningu og vinna forvörsluáætlun safnkosts sem varðveittur er í geymslum á Gljúfrasteini.

image
image
image
image
image

Bókasafn Gljúfrasteins í Gegni

Bókakostur Gljúfrasteins er nánast allur skráð í Gegni, sem er sameiginlegur gagnagrunnur íslenskra bókasafna. Um er að ræða verk skáldsins á hinum ýmsu tungumálum og fjöldann allan af bókum sem Halldór sankaði að sér og fékk gefins. Skráningarvinnan er mikilvæg nákvæmnisvinna og seinleg. Eftir er að skrá nótnabókasafnið, bækur á framandi tungumálum og nokkuð af tímaritum. Áfram var unnið að skráningu bóka á árinu.
 

image

Leitin að prúðbúna fólkinu

Um 4000 ljósmyndir og filmur hafa verið settar inn í Sarp og vinna við að setja upplýsingar um hverja og eina mynd stendur yfir og mun halda áfram.
Ein þeirra ljósmynda sem finna mátti var af prúðbúnu fólki í stofunni á Gljúfrasteini, tekin á sjötta áratug síðustu aldar. Ekki var ljóst hvaða gestir voru í þessu fína boði þannig að brugðið var á það ráð að kalla eftir ábendingum í gegnum hópinn ”Gamlar myndir” á Facebook. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og fljótlega var búið að nafngreina þau sem voru á myndinni. 
 

image
Frá vinstri: Haukur Gröndal er fremst á myndinni, Stefán Kristinsson f.v. fulltrúi Tollstjóra, Helga Laxness, Hanna Guðjónsdóttir píanókennari, Sigríður Hafstein, Björg Ellingsen, Nína Tryggvadóttir, listakona, Ragnar í Smára og Auður Laxness.

Framkvæmdir við Jónstótt hafnar

Í lok sumars hófust framkvæmdir við Jónstótt eins og húsið sem stendur skammt suðvestan við Gljúfrastein er kallað. Tæp fimm ár eru síðan Alþingi samþykkti að fela menntamálaráðherra að hefja uppbyggingu menningarhúss við Gljúfrastein og ríkissjóður festi kaup á eigninni á síðasta ári. Í lok mars á þessu ári samþykkti Alþingi svo þingsályktunartillögu um ráðstöfun á grundvelli heimilda í fjáraukalögum fyrir árið 2020 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í áætluninni er gert ráð fyrir viðhaldi á ýmsum fasteignum og fjárfestingum á vegum ríksins. Jónstótt við Gljúfrastein er inni í þessum tillögum og vinna Ríkiseignir að verkefninu. 

Allt frá því að safnið var opnað hefur legið fyrir að þörf væri á viðbótarhúsnæði til að rúma starfsemi þess. Gljúfrasteinn er í raun safngripur en líka vinnustaður, þar eru sýningar og aðstaða fyrir menningarviðburði.  Húsið er hins vegar lítið og oft á tíðum er þröngt þegar fjölmennir hópar heimsækja safnið. Vinnuaðstaða starfsfólks er óviðunandi og hefur Vinnueftirlitið gert athugasemdir við hana.

Það verða mikil tímamót og jákvæður áfangi að geta sett upp vinnuaðstöðu starfsfólks á efri hæð Jónstóttar. Gestamóttaka og safnbúðin verður á neðri hæð hússins. Þaðan er mikilfenglegt útsýnið frá Jónstótt yfir að Gljúfrasteini og ánni Köldukvisl. Ný og endurbætt bílastæði verða við Jónstótt og verður gamla brúin yfir Köldukvísl lagfærð og gerð að göngubrú að Gljúfrasteini. Það er því afar ánægjulegt að framkvæmdir við húsið, umhverfi þess og bílastæði séu hafnar.

image
Útsýnið frá Jónstótt

Gljúfrasteinn á Spotify

image

Í október hóf göngu sína hlaðvarpssería Gljúfrasteins. Hún ber heitið Með Laxness á heilanum. Í henni er rætt við fólk sem er hugfangið af verkum Halldórs Laxness og hugmyndum hans um líf og tilveru. Starfsfólk safnsins vildi bjóða uppá rafræna skemmtun eftir að loka þurfti safninu vegna þriðju bylgju Covid-19. Þættirnir eru á Spotify og verða þar áfram, hér að neðan eru linkar á hvern og einn þátt. Viðtökurnar hlaðvarpsins voru afar góðar og ekki bara á Íslandi því hlustað var á Með Laxness á heilanum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum, Hollandi og Litháen.  

image

Í fyrsta þætti talar Ragnar Kjartansson, listamaður um ást sína á verkum Halldórs og þá sérstaklega Heimsljósi sem hann segir að hafi gefið tóninn fyrir það sem hann gerði síðar og gerir enn sem listamaður. Heimsljós er að finna í flestum hans verkum. Ragnar segir í þættinum að það að Halldór Laxness hafi verið dekurbarn foreldra sinna hafi bjargað íslenskri menningu.

image

Í öðrum þætti kynnumst við Jökli Jónssyni, þrettán ára Reykvíkingi sem hefur lesið Barn náttúrunnar, fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness nokkrum sinnum. Jökull spilar á píanó, er ljóðaunnandi og semur sjálfur ljóð. Hann  segist hafa áhuga á allri listsköpun því þar búi frelsið og listaverk annarra veiti honum innblástur.  

image

Elísabet Jökulsdóttir skáldkona var gestur þriðja þáttar hlaðvarpsins Með Laxness á heilanum. Hún var 14 ára þegar hún las öll verk Halldórs Laxness og segist vera samofin skáldinu. Hún, eins og hann, sé alltaf að skrifa um ástina og um konu sem er veik á einhvern hátt en sé samt ofsalega sterk eins og Ásta Sóllilja. Elísabet segir að fólk sem lesi Sjálfstætt fólk verði ekki samt á eftir. Elísabet segir að Halldór Laxness sé búinn að gefa okkur leyfi til að gráta því allar hans persónur gráti og líka dýrin.  Elísabet talar líka um drauminn um Nóbelsverðlaunin og hún vilji vinna þau fyrir allar litlar stelpur í heiminum.

image

Ólafur Stefánsson fyrrverandi handboltamaður talar í fjórða þætti en hann er hugfanginn af lífinu í Brekkukoti, af ömmu og afa Álfgríms. Hjá þeim sé að finna mýkt og hreinan tón. Ólafur segir að áskorun fullorðinna sé að leyfa hverju og einu barni, hverjum og einum litla Laxness að gera það sem hann vill því þá verði til töfrar og að Halldór Laxness hefði ekki komist langt án galdranna og töfrasprotans.   
 

image

Í fimmta þætti er orðið hjá þeim manni sem þekkir sögu Halldórs Laxness betur en flestir en hann skrifaði ævisögu skáldsins sem kom út árið 2004. Þetta er Halldór Guðmundsson, rithöfundur. Hann talar meðal annars um það hvernig Halldór Laxness grípur okkur alltaf aftur og aftur, nær í skottið á okkur af einhverju tilefni. Við séum alltaf að rekast á eitthvað einkennilegt í þjóðlífinu og þá hafi hann skrifað einhversstaðar eitthvað um það. Hann segir að Halldór Laxness hafi fært í orð hvernig við hugsum um 20. öldina þannig að þegar fjallað sé um íslenska menningu á 20. öld verði hann alltaf á vegi okkar hvort sem við séum sammála honum eða ekki. Halldór Laxness komi betur en nokkur annar orðum að átökum tímans.

image

Í sjötta þætti segir Silja Aðalsteinsdóttir ritstjóri frá ást sinni á bókinni Sölku Völku sem hún las fyrst þegar hún var unglingur. Salka Valka var Silju opinberun og hún hefur verið hennar eftirlætissaga í rúm sextíu ár. Henni þykir með ólíkindum hvað Halldóri tókst að skrifa af miklu innsæi um konur og hún segist halda að í honum hafi verið tvö kyn. Hún segist hafa lesið Sölku Völku oftar en nokkra aðra bók og að hún verði bara merkilegri eftir því sem hún lesi hana oftar.

Ný stjórn Gljúfrasteins

Síðastliðið haust lauk setu stjórnar Gljúfrasteins sem hafði setið frá  árinu 2016.  Formaður stjórnarinnar var Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir var fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna og Sigurður Valgeirsson var fulltrúi fjölskyldu Halldórs Laxness í stjórninni.  Í nóvember skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nýja stjórn. Ingibjörg Sigurjónsdóttir er nýr formaður stjórnar Gljúfrasteins, Rannveig Jónsdóttir er fulltrúi fjölskyldu Halldórs Laxness og Erling Jóhannesson er fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna. 

65 ár síðan draumur sveitapilts um að skrifa fyrir heiminn rættist

image
Halldór Laxness tekur á móti Nóbelsverðlaunum 10.desember 1955

10. desember síðastliðinn voru liðin 65 ár frá því að Halldór Laxness tók við Nóbelsverðlaunum í Stokkhólmi. Gústaf Adolf Svíakonungur afhenti Halldóri verðlaunin við hátíðlega athöfn og var henni útvarpað beint í Ríkisútvarpinu. Hann er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur bókmenntaverðlaun Nóbels. Rökstuðningur sænsku akademíunnar var að Halldór Laxness fengi verðlaunin fyrir litríkan sagnaskáldskap sem endurnýjað hefði hina miklu íslensku frásagnarlist. Halldór var 53 ára þegar hann tók við Nóbelsverðlaununum og hafði þá sent frá sér um þrjátíu skáldsögur, smásögur, leikrit og ljóð. Þar á meðal Vefarann mikla frá Kasmír, Sjálfstætt fólk, Heimsljós og Gerplu.

Í ævisögu Halldórs Laxness sem Halldór Guðmundsson skrifaði segir að verðlaunin hafi verið tákn þess að þá hafi ræst draumur hins unga sveitapilts að skrifa sögur fyrir heiminn.

Eftir afhendinguna var hátíðarkvöldverður í Ráðhúsi Stokkhólms þar sem Halldór flutti þakkarræðu sína. í ræðunni sagði Halldór að þegar hann var farið að gruna að ákvörðun sænsku akademíunnar myndi varða hann hafi hann hugsað til vina sinna og ástvina, sérstaklega þeirra sem stóðu honum næst í æsku. Fólks sem þá var horfið sjónum en hafði með návist sinni í lífi Halldórs lagt undirstöðuna að hugsun hans, eins og hann orðaði það. ,,Ég hugsaði einmitt til þeirra undursamlegu manna og kvenna þjóðdjúpsins, sem veittu mér fóstur. Ég hugsaði til föður míns og móður minnar,  og ég hugsaði sér í lagi til hennar ömmu minnar gömlu, sem var búin að kenna mér ótal vísur úr fornöld áður en ég lærði að lesa. Ég hugsaði og hugsa enn á þessari stundu til þeirra heilræða sem hún innrætti mér barni: að gera öngri skepnu mein, að lifa svo að jafnan skipuðu öndvegi í huga mér þeir menn sem kallaðir eru snauðir og litlir fyrir sér, að gleyma aldrei, að þeir, sem hafa verið beittir órétti eða farið góðra hluta á mis, þeir sem hafa verið settir hjá í tilverunni, einmitt þeir væru mennirnir, sem ættu skilið alúð, ást og virðingu fólksins umfram aðra menn hér á Íslandi.” Hér má lesa alla þakkarræðu Halldórs Laxness.

Gjöf til þjóðar frá dætrum skáldsins og RÚV

image

Allir upplestrar Halldórs Laxness sem varðveittir eru í safni RÚV voru í byrjun desember gerðir aðgengilegir í spilara RÚV á netinu. Tilefnið er 90 ára afmæli RÚV sem hóf útsendingar 20. desember árið 1930. Ríkisútvarpið ákvað ásamt þeim Guðnýju og Sigríði, dætrum Halldórs Laxness að færa þjóðinni upplestra hans að gjöf. Þetta þykja afar ánægjuleg tíðindi og ljóst að gjöfin gleður hlustendur. Guðný Halldórsdóttir sagði í sjónvarpsfréttum, að þeim systrum væri vel við Ríkisútvarpið og þar hefðu upplestrarnir verið varðveittir vel. Fréttina má sjá hér.
Meðal bóka sem nú er hægt að hlusta á nóbelskáldið lesa hér í spilara RÚV eru Gerpla, Brekkukotsannáll, Í túninu heima, Paradísarheimt, Kristnihald undir Jökli, Atómstöðin, Innansveitarkronika og grein Halldórs Hernaðurinn gegn landinu. Einnig má hlýða á Halldór lesa eigin ljóð og ljóðaþýðingar, Passíusálmana og Birtíng eftir Voltaire í þýðingu skáldsins.
Halldór Guðmundsson, sem skrifaði ævisögu skáldsins árið 2004 hefur gert þátt um samskipti Halldórs Laxness og Ríkisútvarpsins, hlýða má á þáttinn hér.

Starfsfólk Gljúfrasteins þakkar gestum fyrir innlitið á árinu, bæði í raunheimi og rafheimi og óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

image
Starfsfólk Gljúfrasteins auk Guðnýjar Halldórsdóttur, Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur og Halldórs Þorgeirssonar í vorferð á Þingvöllum