Raflýsíng sveitanna

Af menníngarástandi 1986

Í bókinni Af menníngarástandi eru prentaðar greinar Halldórs Laxness frá því á þriðja áratugnum. Ein þeirra ber heitið „Raflýsíng sveitanna". Þá þegar er hann farinn að taka upp hanskann fyrir alþýðu manna, enda segir hann þar að númer eitt sé að berjast fyrir bættum lífskjörum fátæks fólks.

„Menníng er umfram alt það að hafa sigrast á fátækt og vesaldómi, eignast falleg híbýli með rúmgóðum stofum, stóran spegil, mjúkan sófa, góðan kakalón, hagnýta heimspeki, þægileg föt, gott að éta, en helst hætta að reykja.“ (130) Og síðar í greininni segir hann: „Maðurinn er ekki urðarköttur, heldur aðalborin vera! Hann er skapaður í guðs mynd og á að hafa rafljós og rafhitun og stóran spegil svo að hann geti nógu oft virt fyrir sér hvernig mynd guðs lítur út.“ Í lok greinarinnar segir síðan: „Sannkristna manneskja! Þú átt að berjast gegn lúsinni, fylliríinu og örbirgðinni, raflýsa sveitabæina og kenna að dansa og sýngja. Hvað er fegurra og æðra en Kristur og kirkja hans? Ekki neitt; satt er það. En primum vivere deinde philosophere, sagði gamall prestur á latínu, sem þýðir: fyrst er að lifa, síðan að hugsa um heimspeki. Fólkið verður að lifa og Kristur vill að mönnunum líði vel, mun hann hugga þá sem haldnir eru ólæknandi meinum. Hann vill að þeir búi í rúmgóðum og þokkalegum húsakynnum. Hann vill að þeir búi við góð lífskjör og hafi menníngu.“ (143)