Drög að kvikmyndahandriti um lífið við sjávarsíðuna á Íslandi

Salka Valka - Þú vínviður hreini 1931

Hér á eftir fer kvikmyndahandrit Halldórs Laxness að sögunni sem síðar varð skáldsagan Salka Valka. Athyglisvert er að skáldið gerir þrjár tillögur að titli á kvikmyndina: 1. Salka Valka 2. Kona í síðbuxum 3. Íslenska svipan.

Drög að kvikmyndahandriti um lífið við sjávarsíðuna á Íslandi

Hugmyndir að titli:
1. Salka Valka
2. Kona í síðbuxum
3. Íslenska svipan


Staðarlýsing
Það er heillandi frumstæður blær á allri sögunni. Yfirbragð harðrar lífsbaráttu og fátæktar. Óheflaðar tilfinningar. Persónurnar eru ruddalegar, einfaldar og frumstæðar. Náttúran er makalaust hrjóstrug og villt; hafið venjulega órólegt, og sálarlíf persónanna er nátengt þessari villtu náttúru. Vandlega og listilega útfærð smáatriði gefa sögunni staðbundinn svip og auka á sérkennilegan stíl hennar.

Óþrifalegt fiskiþorp undir hrikalegum fjöllum á stönd Íslands. Veiðiaðferðir eru með sama frumstæða hætti og áður en vélbátar komu til sögunnar. Á hverjum báti eru sex ræðarar og formaður. Þorskurinn setur mestan svip á bæinn.

Fyrsta kynning á söguhetju
Ung kona stígur upp á bryggju úr bát og gengur í átt til þorpsins. Hún er há og sterklega vaxin. Í svip hennar má sjá ósnortinn hreinleika, fifldirfsku, frumstæðan þokka. Hún er búin eins og sjómaður: víðar buxur, stígvélaskálmarnar ná upp fyrir hné, pípa í munni.

Saga Sölku Völku, konunnar í síðbuxum
Um fimmtán árum fyrr kom fátæk kona til þessa þorps ásamt óskilgetnu stúlkubarni sínu – allslaus manneskja í atvinnuleit. Þorpsbúar, teprulegir og þröngsýnir, litu á hana sem mellu og börnin hentu grjóti í hana og litlu dóttur hennar í hvert skipti sem þær sáust á götum úti. Eftir innilegt tilhugalíf giftist hún varmenni. Ekki voru þau fyrr gengin í hjónaband en hann fór að misþyrma henni, þrælkaði hana nótt og dag, lamdi hana við hvert tækifæri í augsýn dóttur hennar. Þegar Salka Valka reynir að komast í samband við önnur börn fara þau með hana eins og úrhrak. Henni leyfist bara að horfa á hin börnin leika sér. Hún tekur eftir því að þegar börnin leika “hjónalíf” þá lemur “eiginmaðurinn” alltaf “eiginkonuna”. Skýringin er sú að það sé venja í hjónabandi að “berja konurnar”.

Eitt kvöld ákveður Salka Valka að losna undan örlögum kvenna. Hún dregur fram gamlar síðbuxur, gerir við götin og fer í þær, stýfir sína ljósu lokka. Daginn eftir birtist hún á leikvellinum klædd eins og strákur. Það er skopast meira að henni en nokkru sinni fyrr. En hún hefur tekið ófrávíkjanlega ákvörðun fyrir lífstíð og skorar á strákana að slást við sig. Hún lúskrar á þeim, hverjum á fætur öðrum, og skilur þá eftir liggjandi á jörðinni grenjandi.

Það er bara einn strákur sem hún ræður ekki við: Arnold, sonur fátæks ekkils. Þau halda áfram að slást eins og ung dýr þangað til föt þeirra eru rifin í tætlur. Þau standa organdi af heift hvort gegn öðru. Þá gerir Arnold lokaatlögu að henni og hefur hana undir. Hann er harðhentur við hana.
 
Um kvöldið iðrast drengurinn. Hann tínir saman allt sitt fátæklega dót, þar á meðal nisti móður sinnar heitinnar með smámynd af honum sjálfum á barnsaldri, fer yfir til Sölku Völku og færir henni allar eigur sínar að gjöf. (Hér er tækifæri til að sýna vönduð tilþrif.)

Móðir Sölku Völku deyr af völdum þrældóms og illrar meðferðar og stjúpfaðirinn yfirgefur barnið.

Munaðarleysinginn Salka Valka
Eina fallega húsið í þorpinu á gamall, hörkulegur en hjartagóður fiskkaupmaður sem kemur á hverri vertíð, stundum ásamt konu sinni og ungum syni, Angantý, og dvelur á staðnum í fáeinar vikur í viðskiptaerindum. Þegar þau frétta um munaðarleysingjann ákveða þau að taka Sölku Völku til sín og ættleiða hana. Frúin kaupir fallegan kjól handa henni og lofar að fara með hana til borgarinnar og gera úr henni fína dömu. Allt í þessu húsi er Sölku Völku sem fagur draumur. Einkennilegt samtal Sölku Völku og hins fágaða sonar fiskkaupmannsins, Angantýs.

En fyrsta kvöldið í húsinu heyrir Salka Valka af tilviljun heiftarlegt rifrildi milli gömlu hjónanna sem lýkur með því að eiginmaðurinn slær konu sína með inniskó. Um nóttina, þegar húsið er í fasta svefni, grefur Salka Valka upp gömlu dulurnar sínar úr ruslakassanum, fer úr fallega kjólnum og strýkur í ljótu síðbuxunum sínum. Næsta morgun birtist hún á bryggjunni þar sem sjómennirnir landa afla sínum, við vinnu.

Þegar hún eldist ræður hún sig á báta og rær til fiskjar eins og hver annar sjómaður. Hún er svo óhemjuhugrökk og dugleg að allir formennirnir í plássinu kjósa hana helst. Eftir fáein ár eignast hún sjálf bát og bátshöfn. Hún fær fljótlega orð á sig fyrir að vera gleggsti formaðurinn í plássinu og heppnasti ofurhuginn af öllum sjómönnunum. Hún er virt eða dáð af sumum, aðrir óttast hana af því það er vitað mál að hún getur ráðið við hvaða karlmann sem er í þorpinu. Í hvert skipti sem henni er andmælt beitir hún sterkum hnefum sínum.

Arnold
Þegar Arnold vex úr grasi koma í ljós í eðli hans þjóðlegir íslenskir veikleikar fyrir hestum, skáldskap og konum. Hann reynir sig sem formaður á bát en allt gengur á afturfótunum fyrir honum og hann verður að gefast upp.

Hann á þrjá íslenska hesta og fagra svipu. Það er stolt hvers íslensks hestamanns að eiga listilega gerða íslenska svipu. Meðan aðrir vinna baki brotnu yfir sumarið ríður hann um þorpið eða sækir leynifundi með sveitalegri dóttur prestsins, les henni ljóð sín af væminni innlifun í hesthúsinu. Aðrir áheyrendur: gömul kýr, köttur og hestarnir sem örvast mjög af lestrinum þegar hann nær hápunktum sínum.

Þetta sumar dvelur frænka prestsins í húsi hans, dóttur hans til skemmtunar. Stúlkurnar eru tíðir gestir í kofa Arnolds og þremenningarnir fara saman í ferðalög. Stúlkurnar eru báðar ástfangnar af honum. Þar sem þau ríða á harðastökki eftir hlykkjóttum og óþrifalegum götum þorpsins sjá þau ungan vel búinn herramann á gangi. Hann gengur niður á bryggju þar sem fólk er að störfum. Nú er endurtekin upphafssena sögunnar. Salka Valka og hinn ókunni hittast á bryggjunni. Hún reykir pípu sína kæruleysislega. Þau mæla síðbuxur hvors annars með augunum. Þegar þau eru komin smáspöl hvort frá öðru líta þau bæði við og mæla hvort annað augum frá hvirfli til ilja. Síðan halda þau hvort sína leið án frekari samskipta. Efst á bryggjunni hittir hún Arnold og vinkonur hans tvær þar sem þau hafa numið staðar. Stúlkurnar horfa á Sölku Völku af hestbaki með samblandi af forvitni og fyrirlitningu. Þær gretta sig framan í hana þegar hún gengur framhjá þeim. Þegar hún er komin fáeina metra frá þremenningunum stansar hún, snýr sér við og horfir á þau. Arnold tekur þátt í stríðninni, hlær og hæðist að henni líka.

Henni líður nákvæmlega eins og litlu tötralegu flækingsstelpunni leið í gamla daga.

Sama kvöld
Salka Valka einsömul í kofa sínum. Sambland kvalafullra ástríðna: afbrýðisemi, reiði, örvænting. Umfram allt minnimáttarkennd. Úr gömlum kassa tínir hún upp nokkra hluti og raðar þeim þreytulega upp fyrir framan sig. Viðkvæm sorgarstund. Þetta er gamla dótið sem Arnold gaf henni þegar þau voru börn. Hún hneppir frá sér karlmannlegum klæðunum og losar af hálsi sér nistið sem hún hefur alltaf geymt falið við barminn – gamla nistið með myndinni af Arnold. Hún tekur upp hvern hlutinn af öðrum og setur þá í eldinn. Loks er nistið eitt eftir, en þegar hún er í þann mund að senda það sömu leið fer hún að gráta ofsalega. Ókunni maðurinn kemur inn. Þar eð hún man ekki eftir honum frá því fyrrum minnir hann hana á samtal sem þau áttu fyrir röskum áratug. Þetta er Angantýr.

(Fjölmörgum smáatvikum er sleppt hér.)

Næsta vetur
Arnold á næstum ekkert fóður handa hestum sínum. Og presturinn hefur sent dóttur sína til höfuðborgarinnar svo að hann hefur engan til að flytja skáldskap sinn. Arnold gengur eftir fjörunni og tínir þang og hittir Sölku Völku af tilviljun. Hún stríðir honum.

Á hverjum vetri fara sjómennirnir með veiðarfæri sín út í eyju langt frá meginlandinu þar sem þeir dvelja í nokkra mánuði við veiðar og gera að aflanum. Daginn áður en lagt er af stað fer Arnold niður í fjöru þar sem mennirnir eru önnum kafnir við undirbúning. Hann biður einn formanninn um vinnu. Svarið er að hvert sæti sé skipað. Hann fer frá einum til annars og fær sama svarið alls staðar: “Þú hefðir átt að nefna þetta fyrir nokkrum vikum.”

Loks kemur hann til Sölku Völku og biður hana um vinnu. Hún spyr hæðnislega um hesta hans og vinkonur. Loks lætur hún hann fá stöðu hálfdrættings í bát sínum. Flotinn leggur úr litlu höfninni.

Athyglisvert er að skoða sálarlíf karlmannanna sem þarna hópast á örlitlum stað fjarri siðmenningunni, þar sem engin lög ríkja nema hnefarétturinn. Salka Valka er eina konan í hópnum og miðdepill girndar þeirra. Afbrýðisemi þeirra í garð hvers annars. Hún slær hvern þann kaldan sem vogar sér að nálgast hana á ósæmilegan hátt.

Hver bátshöfn hefur sína eigin verbúð við ströndina. Sjórinn er alltaf úfinn. Það rignir eða snjóar án afláts. Stundum gefur ekki á sjó vikum saman. Afþreying sjómannanna. Hin fræga íslenska glíma. Salka Valka vinnur alla í krók nema Arnold sem hún niðurlægir opinberlega með því að lýsa yfir að hún keppi ekki við hálfdrættinga sína.

Bátshöfn Sölku Völku heldur leynifund sem Arnold er líka boðaður á. Honum er ætlað að taka þátt í samsæri um að nauðga henni þar eð sannað þykir að enginn einstaklingur í hópnum ráði við hana. Árásina á að gera þá um nóttina á ákveðnum tíma. Arnold lætur sem hann sé fús til samvinnu; tekur í höndina á öllum.

Um kvöldið gerir brjálaða stórhríð með hörkufrosti. Salka Valka háttar á sínum stað og hinir láta sem þeir geri hið sama. Á ákveðnum tíma rísa mennirnir sjö úr rekkju og ganga í röð að fleti Sölku Völku, sá sterkasti fer fyrir þeim.

Stúlkan vaknar við fyrstu snertingu, reynir ósjálfrátt að verjast en þeir hafa hana undir. Arnold hefur haldið sig til hlés en lemur nú tvo árásarmennina í hausinn. Samstundis er hann kominn í hörkuáflog við hina mennina sex.

Salka Valka hörfar frá slagsmálunum, stendur til hliðar með hendur á mjöðmum og horfir á áflogin, ströng á svip. Verbúðin leikur á reiðiskjálfi, bjálki brestur og snjórinn þyrlast inn um rifu á veggnum. Tveir mannanna liggja í gólfinu eins og dauðir. Hinir taka til fótanna.

Eftir slagsmálin gengur Salka Valka til Arnolds og þakkar honum stillilega fyrir með handabandi. Æstur og jafnvægislaus eftir bardagann lætur hann undan tilfinningum sínum sem hann hefur hingað til verið of stoltur til að játa, krýpur á kné fyrir framan hana og kyssir hönd hennar. Andartak nötrar hún af ástríðu. Þá kemur henni allt í einu í hug innilegt tilhugalíf móður sinnar. Hún hryllir sig við minninguna og ýtir Arnold frá sér með ofsa. Næstu andartökin standa þau andspænis hvort öðru eins og svarnir óvinir, líkust villtum dýrum sem hyggjast tæta hvort annað í sig. Síðan ræðst hann á hana í dýrslegri vímu. Í stutta stund berjast þau af grimmd og ofsa. Það er eitthvað munaðarfullt við þessi áflog – meðan á þeim stendur þrýstir hann ruddalegum kossum á varir hennar. Hún hleypur úr örmum hans út í óveðrið. Hann hleypur á eftir henni viti sínu fjær. Brjáluð af skelfingu æðir hún niður í fjöru þar sem hún finnur bátkænu, stekkur um borð, rær af stað og hverfur í ofsafengið öldurótið. Nótt. Óveður. Ólgusjór. (Hér nær sagan hámarki.)

Morguninn eftir óveðrið
Lítið gufuknúið flutningaskip, þakið ísingu, úti á opnu hafi. Skipstjórinn. Eigandi skipsins Angantýr, ungi fiskkaupmaðurinn. Hann er á leið umhverfis landið til að kaupa fisk hvar sem hann er að fá. Gegnum sjónauka sinn kemur skipstjórinn auga á dökkan díl sem hreyfist úti við sjóndeildarhringinn. Þeir horfa á hann og velta honum fyrir sér. Loks gefur skipstjórinn skipun um breytta stefnu. Á skeri sem flæðir yfir á háflóði birtist Salka Valka í hálfu kafi og heldur dauðahaldi í ár sem stendur upp á endann með blaktandi klæðisbút. Hún hefur misst meðvitund.

Hún rankar við sér í fögru herbergi í húsi fiskkaupmannsins þar sem hún var einu sinni sem lítil stúlka.

Endir
Angantýr biður hennar. Enn á hún val milli gömlu síðbuxnanna og stöðu drottningar.

Sögusmettur í þorpinu segja að konan í síðbuxunum ætli að giftast unga, auðuga kaupmanninum.

En um nóttina flýr Salka Valka út um sama glugga og hún strauk út um einu sinni. Hún gengur að kofa Arnolds og vekur gamlan föður hans. Hún spyr um hrossin. Gamli maðurinn segir henni að það séu ósköp að sjá hestana vegna þess að hann neyðist til að spara við þá heyið. Hún segir: “Ég kem með allt það hey sem þeir þurfa á morgun.”

Hún fer út í hesthús og gefur hestunum ótæpilega af fátæklegum birgðunum. Hún faðmar þá af ástríðu. Síðan fer hún aftur inn í kofann og hellir upp á kaffi fyrir gamla manninn. Hann er hissa á þessu og hefur orð á því að samkvæmt sögusögnum ætli hún að giftast unga fiskkaupmanninum.

Hún lætur sem hún heyri ekki til hans og er eins og heima hjá sér. Hún hefur hönd á eigum Arnolds eins og hún ætti þær sjálf. Full fagnaðar les hún barnalegan skáldskap hans sem er skrifaður stórkarlalegri rithendi og fullur af stafsetningarvillum. Hún rífur í tætlur stillt og ákveðin nokkrar myndir af stúlkum sem hún finnur í skúffum hans.

Þá kemur hún auga á fögru íslensku svipuna hans á veggnum. Hún tekur hana niður, snýr sér að gamla manninum og segir:

“Hvað ég ætla að gera? Ég ætla að vera í þessu húsi þangað til eigandi þess kemur og rekur mig út með þessari svipu.”

Hún strýkur úr tvöföldum leðurólum svipunnar og kyssir hana með allri munúð og viðkvæmni hins frumstæða manns.

(Enski textinn er settur eftir vélrituðu handriti Halldórs Laxness og aðeins leiðréttar örfáar augljósar áláttarvillur. Silja Aðalsteinsdóttir þýddi textann og hafði stuðning af þýðingu Helga J. Halldórssonar á Húsi skáldsins eftir Peter Hallberg (fyrra bindi, Mál og menning 1970, bls. 55-59) þar sem sagt er frá þessu handriti.)