60 ár

Árið 2015 voru liðin 60 ár frá því Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Að því tilefni undirbjó Gljúfrasteinn í samstarfi við ýmsa aðila margskonar verkefni. Settur var saman verkefnahópur með fulltrúum frá Rithöfundasambandi Íslands, Landsbókasafni, Forlaginu, Bókmenntaborginni, Röddum – félagi um stóru upplestrarkeppnina, félagi móðurmálskennara og Vinafélagi Gljúfrasteins.

Halldór Kiljan Laxness tekur við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum árið 1955

Sýning í Þjóðarbókhlöðunni

Þriðjudaginn 27. október klukkan 17 var opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því að Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels.

Sýningin var í samstarfsverkefni Gljúfrasteins – húss skáldsins, RÚV og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. 

Á sýningunni gaf að líta margvísleg skjöl úr skjalasafni Halldórs Laxness sem varðveitt er í Þjóðarbókhlöðunni, muni frá Gljúfrasteini og Nóbelsverðlaunin sjálf sem eru í vörslu  Seðlabanka Íslands. Þá útbjó RÚV sérstakan vef sem tileinkaður var Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness. Vefurinn var einnig aðgengilegur á snertiskjá á sýningunni.

Skáld í skólum

Rithöfundasambandið bauð upp á bókmenntaverkefnið Skáld í skólum með dagskrá sem öll tengdist Halldóri Laxness. Hljómsveitin Hundur í óskilum sem þekkt er fyrir að skauta í gegnum Íslandssöguna á einni kvöldstund tókst á við Nóbelsskáldið og afgreiddi hann á sama hátt; þ.e.a.s. á hundavaði. Á 40 mínútum fóru þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í gegnum nokkrar af þekktustu skáldsögum Halldórs í tali og tónum. Með alvöruleysið að vopni ráku þeir söguþráð Sjálfstæðs fólks undir þekktu bítlalagi. Frægustu setningar Íslandsklukkunnar voru uppistaða annars hljóðgjörnings. Á milli voru sungin ljóð eftir Halldór, sagt frá bókum hans og öllum brögðum beitt til að opna sagnaheim hans fyrir unglingum. Sjá nánar í frétt hér á síðunni. 

Laxness veisla á RÚV

Rúv sýndi auk þess öll helstu kvikmyndaverk sem byggð eru á skáldsögum Halldórs. Þar á meðal voru sýndar sjaldséðar perlur á borð við Brekkukotsannál, Paradísarheimt, Sölku Völku og Atómstöðina. Einnig voru myndirnar Kristnihald undir jökli og Ungfrúin góða og húsið á dagskrá Rúv. Allar myndirnar voru sýndar í fyrsta sinn í íslensku sjónvarpi í endurbættum útgáfum, bæði hvað varðaði hljóð- og myndgæði. Myndirnar voru sýndar í aldursröð frá  1. nóvember til 27. desember. Salka Valka frá 1954 reið því á vaðið sunnudagskvöldið 1. nóvember.

Í tengslum við myndirnar voru sýndir stuttir þættir með gömlum mynd- og hljóðbrotum þar sem Laxness ræðir um verk sín.  Þá var boðið upp á ýmsa aðra dagskrá tengda Nóbelsskáldinu á meðan veislunni stóð, stakir þættir, stuttmyndir og annað. Aðrir miðlar RÚV tóku líka þátt í að heiðra 60 ára Nóbelsafmæli Laxness með dagskrárgerð og viðburðum sem tengdust nóbelskáldinu á ruv.is og í útvarpinu.  Rás 1 bauð upp á lestur skáldsins á völdum verkum við afar góðar undirtektir hlustenda. Verkin sem urðu fyrir valinu voru; Gerpla, Brekkukotsannáll, Kristnihaldi undir Jökli, Paradísarheimt og í túninu heima.  Í desember árið 2015 buðu stjórnendur þáttarins Víðsjá uppá sérstaka dagskrárgerð í tilefni af Nóbelsafmælinu.

  • 1/11 Salka Valka
  • 8/11 Brekkukotsannáll (1:2)
  • 15/11 Brekkukotsannáll (2:2)
  • 22/11 Paradísarheimt (1:3)
  • 29/11 Paradísarheimt (2:3)
  • 6/12 Paradísarheimt (3:3)
  • 13/12 Atómstöðin
  • 20/12 Kristnihald undir jökli
  • 27/12 Ungfrúin góða og húsið

Skrítnastur er maður sjálfur

Forlagið gaf að nýju út bók Auðar Jónsdóttur um afa sinn, Skrýtnastur er maður sjálfur en bókin kom upphaflega út árið 2002.  Þar dregur Auður upp einstaka mynd af afa sínum, bæði sem litlum dreng og þeim gamla manns sem hún þekkti.  Bókin höfðar til ungra lesenda, en fullorðnir aðdáendur skáldsins hafa ekki síður gaman af henni og tilvalið er að börn og fullorðnir njóti hennar saman.

Þegar lífið knýr dyra

Þegar lífið knýr dyra: Um börn á þröskuldi fullorðinsára í verkum Halldórs Laxness: er heiti á dagskrá sem Raddir – samtök um vandaðan upplestur og framsögn tóku upphaflega saman árið 2002 en var síðar endurskoðuð og gefin út á vef Gljúfrasteins í tilefni 60 ára Nóbelsafmælisins. Dagskránni er ætlað að gefa áheyrendum hugmynd um hvaða hlutverk börn leika í verkum Halldórs, hvaða hugmyndir hann hafði um börn og fullorðna, skóla og uppeldi. Hér er um að ræða brot úr ýmsum verkum, bæði skáldsögum og ritgerðum auk ljóða, sem auðvelt er að setja upp og flytja sem heildstæða dagskrá. Við samantektina var fyrst og fremst haft í huga að dagskráin hentaði ungum flytjendum, á mörkum bernsku og unglingsára, og höfðaði til ungra áheyrenda.

Texti Halldórs er þar prentaður nánast óbreyttur eins og hann er í bókum hans. Fylgt er opinberri stafsetningu í meginatriðum en sérkenni í stafsetningu Halldórs fá að njóta sín þar sem þau eru til marks um það talaða mál sem hann vildi að fengi að njóta sín í lesmálinu.

Svipmyndirnar úr skáldsögum Halldórs eru ekki endurskrifaðar á neinn hátt né umsamdar eins og leikrit, heldur aðlagaðar munnlegum flutningi, eða leiklestri. Hlutverk sögumanns er stórt eins og í skáldsögunum sjálfum. Flytjendur mega hafa handritið allan tímann og ekki þarf að gera ráð fyrir því að þeir læri textann utanbókar. Lipur leiklestur með hæfilegum svipbrigðum og túlkun skilar góðum árangri en að sjálfsögðu verða flytjendur frjálsari að því að túlka textann eftir því sem þeir kunna hann betur.