Halldór Laxness mun hafa orðið til þess fyrstur íslenskra rithöfunda að róma útvarp og áhrif þess í ritsmíðum og ljóðum. Löngu fyrir daga íslensks útvarps vakti Halldór athygli alþýðu á yfirburðum nýrrar tækni sem væri að ryðja sér til rúms, m.a. í grein í Verði, vikublaði Kristjáns Albertssonar.
Þeir, sem lesið hafa bernskuminningar Halldórs Kiljans Laxness, minnast þess að amma Halldórs tekur öllum tækninýjungum með fyrirvara. Henni er lítt gefið um vatn, sem rennur upp í móti og kemur úr krönum, trúir ekki tíðindum sem berast símleiðis. Að sama skapi og amman er fastheldin við forna siði og gefur ekki um tækni er skáldið unga ákafur framfarasinni og nýjungagjarn. Sjálfur færði hann sér tæknina í nyt og féllst á tilmæli frumherja í útvarpsrekstri, Ottós B. Arnar og félaga hans, um að flytja erindi í útvarpsstöð hlutafélagsins sumarið 1926. Þar sagði hann þjóð sinni til syndanna: „Íslendingar eru sem stendur siðspilltir af pólitísku kjaftæði og pólitísku götuhornaskítkasti,“ en íslenska þjóðin hefði „mörg skilyrði til að verða merkilegasta þjóðin í Norðurálfu í staðinn fyrir að nú verðum vér að sætta oss við að vera ómerkilegasta þjóðin í Norðurálfu.“
Dyravörður Ríkisútvarpsins
Í upphafi fjórða áratugarins var hart í ári og skammtað naumt til menningarmála, rithöfundum fyrirmunað að draga fram lífið á ritlaunum einum. Halldór Laxness mun hafa tekið því feginsamlega er honum bauðst staða dyravarðar í Ríkisútvarpinu á fyrsta starfsári þess. Frá þeim tíma er lag Þórarins Guðmundssonar við ljóð Halldórs „Vor hinsti dagur er hniginn“, hugljúft lag við tregafullan texta. Halldór hefir minnst bræðranna Þórarins og Eggerts Gilfers lofsamlega í endurminningum sínum. „Þessir bræður nutu mikils álits í höfuðborginni sem kennarar og listamenn.“ Halldór er sendur að spila á orgelharmóníum og nema undirstöðuatriði í píanói hjá Eggert Gilfer en verður „afhuga tónlist“ um skeið. Um tvítugt sækir hann tíma hjá Páli Ísólfssyni að „frasera Bach“. „Þessir tímar hjá Páli léðu mér lykil að meistaranum,“ segir Halldór er hann minnist daganna. „Eins og aðrir hændist ég að Páli, þeim töframanni,“ bætir hann við. Halldór mætir hvarvetna góðvinum og kunningjum í fábrotnum salarkynnum Útvarpsins. Þar finnur hann á ný fornvin sinn og herbergisfélaga frá Menntaskólaárum, séra Sigurð Einarsson, sem nú er fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Um ráðningu Halldórs Laxness til útvarpsins segir Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari: „En þetta er líka frægasti dyravörður sem Útvarpið hefir haft.“ Þórarinn segir frá kynnum þeirra í Útvarpinu. „Ég gleymi aldrei hvað ég misreiknaði mig á þessum manni áður en ég kynntist honum. Ég hafði náttúrulega lesið eitthvað af bókum hans, sem þá voru komnar út, og það var alls ekki allt ákaflega fallegt sem stóð í þessum bókum. Sumir hötuðu jafnvel Laxness á þessum árum fyrir hispursleysi hans og hreinskilni.“ Síðan lýsir Þórarinn hvatvíslegri framgöngu sinni og „orðbragði sem auðvitað hæfði ekki hvítum manni“ er hann hugðist ganga fram af Halldóri með óhefluðu tali. „Ég sá strax að ég hafði skotið yfir markið, enda hef ég varla nokkurn tíma kynnst kurteisari og siðfágaðri manni en Halldóri Laxness.“
Betri tíð með blóm í haga
Halldór Laxness og Páll Ísólfsson sögðu frá þátttöku Íslendinga í menningarviku sem haldin var í Stokkhólmi haustið 1932, þar sem þeir voru fulltrúar. Þaðan hélt Laxness í austurveg og þar varð hann til þess fyrstur íslenskra útvarpsmanna að flytja ræðu sem útvarpað var á stuttbylgjum. Það var á 15 ára afmæli rússnesku byltingarinnar. Ræðunni var útvarpað frá Moskvu. Þegar Halldór var spurður um starfið, sem hann gegndi hjá Ríkisútvarpinu á fyrstu árum þess, sagði hann: „Þetta var þægilegasta og besta starf sem hægt var að fá. Ég þurfti ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annað en bjóða góðan dag helstu snilldarmönnum og höfðingjum og stjórnmálamönnum og músíkmönnum og allskonar syngjandi dömum sem voru tignarlegar og miklar dömur. Það voru konur eins og María Markan. Hún var glæsileg kona.“ Og um viðmót manna, gesta, sem komu fram í útvarpi, kvaðst hann ekki hafa orðið var andúðar, en vissi þó að „margir voru á móti skáldskaparhætti mínum“. Segja má að þótt oft hafi fyrrum blikað á sverð og glampað á skildi í Rauðuskriðum í samskiptum Halldórs og Ríkisútvarpsins, hetjur stokkið hæð sína og mörg sé fótskriðan á Markarfljóti þá kom jafnan betri tíð með blóm í haga. Og engum starfsmanni sínum hefir Útvarpið fagnað betur en Halldóri Laxness er hann gekk úr „svítu Ásbjarnar“ á heillaskipinu Gullfossi að hlýða á mál forseta Alþýðusambands Íslands þegar þjóðin samfagnaði skáldi sínu af tilefni Nóbelsverðlauna. Skáldið, útvarpsmaðurinn, sem áður bar ræðumönnum svaladrykk, var nú kominn heim og „hafði sungið fyrir heiminn“, eins og Nonni litli í Sumarhúsum. Og íslensk þjóð mun áfram fagna, er hún heyrir um hetjur skáldsins, Sölku Völku, Bjart í Sumarhúsum, Ólaf Kárason Ljósvíking og Ástu Sóllilju. Svo lifandi eru þær í huga hlustenda að búast mætti við því að sjálf innheimtudeild Ríkisútvarpsins hefði þær á skrá um útvarpsgjöld.
Úr fórum Péturs Péturssonar þular