Fyrir gesti

Margmiðlunarsýning
Móttökuhúsið er fyrsti viðkomustaður gesta á Gljúfrasteini. Þar er hægt að skoða margmiðlunarsýningu um ævi og verk skáldsins. Saga Halldórs er samofin sögu 20. aldarinnar og er því einnig brugðið upp svipmyndum úr sögu Íslands og umheimsins. Fjöldi ljósmynda og kvikmynda er notaður í sýningunni sem er aðgengileg á gagnvirkum snertiskjá á íslensku, ensku og sænsku. Í móttökuhúsinu er einnig safnbúð.

Skoðunarferðir
Boðið er upp á hljóðleiðsögn um húsið á íslensku, ensku, dönsku, þýsku eða sænsku þar sem má m.a. heyra raddir Auðar og Halldórs Laxness. Hægt er að fá textaleiðsögn um húsið á frönsku. Enn fremur er hægt að óska eftir leiðsögn fyrir fram á öðrum tungumálum með starfsmönnum hússins.
Í móttökuhúsinu er hægt að bóka í skoðunarferðir en gestum er ráðlagt að bóka fyrir fram með því að senda tölvupóst á gljufrasteinn@gljufrasteinn.is eða hringja í síma 586-8066.

Opnunartími og aðgangseyrir
Aðgangseyrir er 1.200 krónur. Námsfólk og eftirlaunafólk greiðir 1.000 kr. Öryrkjar, atvinnulausir og börn yngri en 18 ára greiða engan aðgangseyri.
Gljúfrasteinn er opinn alla daga nema mánudaga frá kl. 10-16 frá 1. september til 31 maí. Lokað er um helgar í nóvember til og með febrúar. Safnið er opið alla daga frá kl. 10-17 frá 1. júní til 31. ágúst. Sjá nánar hér.

Safnbúð
Í móttökuhúsinu á Gljúfrasteini má finna minjagripabúð safnsins en þar kennir ýmissa grasa. Meðal annars má þar finna helstu verk Halldórs á íslensku, ensku, dönsku og þýsku. Til viðbótar við bækur Halldórs má líka finna ævisögur og umfjöllunarefni um hann og verk hans. Það eru þó ekki bara bækur sem eru til sölu í safnbúðinni því þar má líka kaupa póstkort, bókamerki og blýanta merkta safninu. Þá eru til minnisbækur með munstrinu fræga sem prýddi flestar bækur Halldórs á íslensku og stuttermabolir með tilvitnun í Kristnihald undir Jökli auk annarra minjagripa.

Aðgengi 
Aðgengi fyrir fólk í hjólastólum er í móttökuhúsinu og á fyrstu hæð hússins. Þess ber að geta að Gljúfrasteinn var byggður árið 1945 og því eru þröskuldar í húsinu. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki hægt að aka alveg heim í hlaðið en hægt er að óska sérstaklega eftir því og er gestum þá bent að hafa samband við starfsmenn safnsins sem veita fúslega aðstoð eftir þörfum.

Garðurinn og gönguleiðirnar
Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins enda umhverfið fagurt. Gestir eru hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar í nágrenni hússins sem stendur við ána Köldukvísl og er byggt í landi jarðarinnar Laxness þar sem Halldór ólst upp. Garðurinn umhverfis húsið er opinn almenningi og hentugar gönguleiðir eru til dæmis upp með ánni í átt að eyðibýlinu Bringum og niður með Köldukvísl í áttina að Guddulaug. Halldór segir frá lauginni í einni bóka sinna og taldi vatnið sérlega heilnæmt og ljóst er að ískalt lindarvatnið úr Guddulaug svíkur engan.

Hægt er að nálgast gönguleiðakort af svæðinu í móttöku Gljúfrasteins og einnig hér.