„Snerting af skapandi anda og nýjum lífsskoðunum“: Rauðar heimsbókmenntir á Íslandi 1919-1943 

Benedikt Hjartarson prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands heldur erindi á Gljúfrasteini sunnudaginn 20. apríl kl. 14.00. Yfirskriftin er: „Snerting af skapandi anda og nýjum lífsskoðunum“: Rauðar heimsbókmenntir á Íslandi 1919-1943. 

Benedikt mun beina sjónum að mótun og þróun rauðra heimsbókmennta á Íslandi. Í forgrunni verða bókmenntaþýðingar og þeir ólíku straumar sem berast inn í íslenskt bókmenntakerfi á starfsárum Þriðja alþjóðasambandsins eða Kominterns. Megináherslan verður á þýðingastarfsemi, dreifingu og útgáfu róttæks bókmenntaefnis á tímabilinu fyrir stofnun Rauðra penna, en einnig verður hugað að framhaldslífi róttækra afþreyingarbókmennta sem þreifst samhliða útgáfustarfsemi Heimskringlu og Máls og menningar. Hugað verður að verkum sem tilheyra jafn ólíkum bókmenntagreinum og vettvangsfrásögnum, svaðilfarasögum, sjóarasögum, flækingsfrásögnum og öðrum píkareskum byltingarbókmenntum, sem gjarnan hafa lent á jaðri bókmenntasögunnar. Meginmarkmiðið er að varpa ljósi á umfang þessarar margbreytilegu útgáfustarfsemi og hvernig leitast var við að móta hér á landi nýtt samfélag róttækra og alþjóðasinnaðra lesenda. 

Frítt inn og öll velkomin.

Til baka í viðburði