Konur í jazzi á Gljúfrasteini

Aðrir stofutónleikar sumarsins nálgast óðfluga! Sunnudaginn 9. júní næstkomandi mun húsið fyllast af hugljúfum ballöðum og dillandi latínópusum í flutningi Sunnu Gunnlaugs og Marínu Óskar.

Aðrir stofutónleikar sumarsins nálgast óðfluga! Sunnudaginn 9. júní næstkomandi mun húsið fyllast af hugljúfum ballöðum og dillandi latínópusum í flutningi Sunnu Gunnlaugs og Marínu Óskar. 

Upplifið einstök ný tónverk Sunnu Gunnlaugs við ljóð Jóns úr Vör. Verkin fela í sér tvö lög sem voru pöntuð af Kópavogsbæ og frumflutt á Ljóðstafnum árið 2022. Að auki voru fimm lög frumflutt á hádegistónleikum í Kópavogi síðasta haust undir yfirskriftinni „Ástin, bjartsýnin og andskotans blaðrið í fólkinu.“ 

Um Listamennina 

Sunna Gunnlaugs er þekktur jazzpíanisti og tónskáld sem hefur verið í fararbroddi íslensks jazz um áratuga skeið. Hún hefur komið fram víða um heim, gefið út 12 geisladiska sem hafa fengið frábærar viðtökur og hlotið fjölmörg verðlaun. Sunna hefur samið tónlist fyrir Stórsveit Reykjavíkur, sjónvarpsþætti, kvikmyndir og ýmis tónlistarverkefni. Hún hefur tvisvar sinnum hlotið titilinn Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og var Bæjarlistamaður Kópavogs 2021. Sunna hefur lagt mikla áherslu á að gera konur í jazzi sýnilegar og hefur staðið að mörgum tónleikum og hátíðum, þar á meðal alþjóðlegu hátíðinni Freyjufest sem fram fór í Hörpu í janúar. Hún er varaforseti Europe Jazz Network. 

Marína Ósk er söngkona og lagahöfundur með meistarapróf í Jazz Performance frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Stokkhólmi og BA í jazzsöng frá Conservatorium van Amsterdam. Hún hefur gefið út tvær sólóplötur sem hafa hlotið frábæra dóma og vinnur nú að sinni þriðju og fjórðu plötu. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir Tónverk ársins í jazzflokki og hefur komið fram á helstu hátíðum og tónleikastöðum í Evrópu. Marína kennir einnig söng í hlutastarfi við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla FÍH. 

Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2024 er haldin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins. 

Til baka í viðburði