„Get ég gert nokkuð fleira fyrir yður?“

Örn Sigurðsson sem var umsjónarmaður bílsins í nokkur ár, skrifaði grein um Jagúarinn í ársrit Fornbílaklúbbsins þar sem eftirfarandi saga kom fram: Fræg er sagan þegar Halldór ók á móti vörubílnum á Vesturlandsveginum, sem þá var svo þröngur að þeir gátu ekki mæst, og Jagúarinn valt út af. Hélt nú vörubílstjórinn að Halldór Laxness væri allur og sá fyrir sér að þetta yrði það eina sem halda myndi minningu hans á lofti, það er vörubílstjórans. En viti menn, Halldór Laxness skríður út úr bílnum og segir við vörubílstjórann: „Get ég gert nokkuð fleira fyrir yður?“

Önnur saga um Halldór er sú að bíll hans, Jagúarinn eða einhver annar, hafi eitt sinn bilað við umferðarljós. Þegar hann ekur ekki yfir á grænu ljósi byrjar óþolinmóð kona að flauta fyrir aftan hann. Þannig ganga málin um nokkra stund, en þá stígur Halldór út úr bílnum og segir við konuna: „Ef þér gerið við bílinn minn skal ég liggja á flautu yðar.“