Hvert mannsbarn á Íslandi veit að Halldór Laxness er handhafi Nóbelsverðlaunanna. Færri vita hins vegar að áður en hann fékk bókmenntaverðlaunin 1955 þá hafði annar Nóbelsverðlaunahafi átt rætur sínar að rekja til Íslands
Níels Finsen, handhafi læknisfræðiverðlaunanna árið 1903, var sonur íslensks embættismanns og danskrar konu sem einnig var fædd á Íslandi. Faðir hans var Hannes Kristján Steingrímur Finsen sem gegndi stöðu landsfógeta í Færeyjum og síðar amtmanns. Móðir hans hét Johanne Formann.
Í Færeyjum er Níels fæddur og uppalinn. Tengsl hans við Ísland einskorðast hins vegar ekki við ætternið því þegar hann var 14 ára var hann sendur til Reykjavíkur til að nema við Lærða skólann. Hann hafði verið sendur í skóla til Danmerkur en átti erfitt uppdráttar þar. Við komuna til Reykjavíkur fór hann strax að standa sig betur þó hann kynni ekki stakt orð í tungumálinu er hann kom til landsins.
Hann útskrifaðist með aðra einkunn frá Lærða skólanum, þá 21 árs gamall, og fór héðan til Kaupmannahafnar til að læra læknisfræði. Hann var sjálfur heilsuveill og þótti því læknavísindin áhugaverð. Sérstaklega var hann heillaður af mögulegum lækningamætti ljóss. Ævistarf sitt helgaði hann rannsóknum á ljósi í lækningaskyni. Hann náði þó nokkrum árangri við notkun ljóss til að hafa áhrif á bólusótt og húðberkla. Aðaláhugamál hans var þó alltaf gildi sólbaða og ljóss fyrir almenna heilsu.
Hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir þessar uppgötvanir sínar árið 1903 þrátt fyrir að aðferðir hans séu flestar úreltar í dag. Það var ekki seinna vænna því hann lést árið eftir, aðeins 43 ára að aldri, eftir ævilanga baráttu við Pick-sjúkdóminn sem þá var óþekktur. Hann skildi eftir sig 3 börn sem hétu Halldór, Guðrún og Valgerða. Þau átti hann með konu sinni, Ingeborg.
Á Landspítalanum er árlegur haldinn minningardagur um þennan íslensk-dansk-færeyska Nóbelsverðlaunahafa.
Hér má fræðast meira um ævi Níels Finsen á vef Nóbelsverðlaunanna og í grein eftir Jón Ólaf Ísberg sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 2003.