Um 100 erlendir þátttakendur í ritlistarbúðum á Íslandi komu við á Gljúfrasteini

14/04 2018

Þátttakendur í ritlistarbúðunum Iceland Writers Retreat hlusta á Yrsu Sigurðardóttur, rithöfund í stofunni á Gljúfrasteini.

Ríflega 100 erlendir gestir sem nú eru í ritlistarbúðunum Iceland Writers Retreat hafa komið og skoðað Gljúfrastein síðustu daga. 
Í dag kom þriðji og síðasti hópurinn. 
Fólkið skoðaði ekki aðeins húsið því að Yrsa Sigurðardóttir kom á Gljúfrastein, hitti hópinn og talaði um rithöfundarferil sinn, las kafla úr einni af bókum sínum og svaraði spurningum gestanna.   
Yrsa sagði einnig frá því að hún hefði byrjað að skrifa bækur til að freista þess að kveikja lestraráhuga hjá syni sínum. 
Það dugði reyndar ekki til á þeim tíma, sagði Yrsa, en áhuginn kom síðar hjá drengnum sem er fullorðinn í dag og sílesandi og Yrsa er sískrifandi því á hverju ári kemur út ný bók eftir hana. 
Hún hefur nú skrifað 18 bækur, aðallega spennusögur en líka barnabækur.