Að öðru leyti eftir ósk skáldsins

01/09 2017

Auður og Halldór ásamt gestum að loknum tónleikum Tatjönu Nikolajevu. Nikolajeva er á hægri hönd Halldórs. 

Gljúfrasteinn opnar sýninguna Að öðru leyti eftir ósk skáldsins í Listasal Bókasafns Mosfellsbæjar fimmtudaginn 7. september. Sýningin fjallar um tónleikahald á Gljúfrasteini á fimmta og sjötta áratugnum.

Gljúfrasteinn var annálað menningarheimili og hjónin tónelsk. Frá setustofunni hljómaði því oftar en ekki fögur tónlist, hvort sem hún barst frá vel valinni hljómplötu á fóninum, Halldóri sjálfum við flygilinn leikandi fyrir sína allra nánustu, nú eða heimsþekktu tónlistarfólki sem lék fyrir gesti þeirra Hjóna Halldórs og Auðar. Tónleikar í stofunni á Gljúfrasteini voru tíðir viðburðir einkum á 5. og 6. áratug síðustu aldar og á meðal þeirra sem komu við sögu má nefna rómað tónlistarfólk á borð við Rudolf Serkin, Adolf Busch, Tatijönu Nikolajevu, Aram Katsjatúrían og Mstislav Rostropovitsj.

Safnið á Gljúfrasteini hefur árlega staðið að tónleikaröð á hverju sumri undanfarin ellefu ár til þess að minna á og hafa í heiðri hið heimilislega menningarstarf hjónanna og nú verður þessari sögu gerð enn betur skil með sýningunni Að öðru leyti eftir ósk skáldsins, en heitið vísar í orðalag sem sótt er í efnisskrá einna tónleikanna.

Á sýningunni gefur að líta ljósmyndir frá tónleikum á 6. áratugnum, merkilega muni úr nótna- og plötusafni Halldórs og aðra gripi úr safneigninni sem tengjast tónleikahaldinu og tímabilinu. Efninu er svo miðlað í leikmynd sem ætlað er að fanga anda heimilisins á Gljúfrasteini og jafnvel stemninguna á tónleikadegi.

Í tengslum við sýninguna verður efnt til tónleika og fræðsluerindis þar sem Árni Heimir Ingólfsson píanóleikari og tónlistarfræðingur sest við flygilinn á Gljúfrasteini. Viðburðurinn fer fram 23. september.

Hér má finna upplýsingar viðburðinn.

Viðburðurinn á Facebook

Það er Þórunn Elísabet Sveinsdóttir sem hannaði sýninguna og Kristín Lilja Thorlacius Björnsdóttir starfsmaður á Gljúfrasteini sá um efnisöflun og rannsókn. 

Sýningin er unnin í samstarfi við rússneska sendiráðið á Íslandi, MÍR, Mosfellsbæ og með stuðningu frá Vinafélagi Gljúfrasteins og Safnasjóði. Til stendur að ljósmyndirnar á sýningunni verði síðar til sýnis bæði í Sendiráði Rússlands og MÍR salnum á Hverfisgötu.

Sýningin stendur yfir dagana 7. – 30. september.

Aðgangur á sýninguna er ókeypis.

Listasalurinn er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, að Þverholti 2.

Sýningin er opin á opnunartíma Bókasafns Mosfellsbæjar:

  • mán-þri   12:00 – 18:00
  • mið         10:00 – 18:00
  • fim-fös    12:00 – 18:00
  • lau          13:00 – 17:00

Tónleikadagskrá frá tónleikum Rudolf Serkin og Adolf Buch á Gljúfrasteini.