63 ár frá því að tilkynnt var að Halldór Laxness hlyti Nóbelsverðlaunin.

27/10 2018

Skjáskot af forsíðu Vísis, 27. október 1955

Það var laust eftir hádegi 27.október árið 1955 sem fregnin barst frá Stokkhólmi til Íslands en sænska akademían hafði á fundi sínum um morguninn ákveðið að veita Halldóri Laxness bókmenntaverðlaun Nóbels.  ,,Nafn skáldsins og nafn Íslands eru á vörum manna um heim allan í dag.“ sagði í forsíðufrétt Morgunblaðsins daginn eftir.  Halldór var þá 53 ára gamall. Hann var nýkominn til Danmerkur frá Gautaborg þegar lögregla stöðvaði för hans og bað hann að snúa aftur til Gautaborgar. ,,Hvað hef ég nú gert?“ spurði hann sjálfan sig og svarið var að mikil tíðindi væru í vændum.  Halldór fór aftur til Gautaborgar og var þar tilkynnt að hann hefði hreppt Nóbelsverðlaunin.  „Það kemur mér algerlega á óvart að ég skyldi fá nóbelsverðlaunin. Ég hafði satt að segja ekki búizt við því, þó að mikið hafi verið um það talað. Þetta gleður mig mikið, ekki aðeins sjálfs mín vegna heldur einnig af öðrum ástæðum, ekki sízt Íslands vegna.“ Þannig komst Halldór að orði við fréttaritara Þjóðviljans í Kaupmannahöfn daginn sem tilkynningin var birt. 
Nóbelsverðlaunahátíðin fór fram í hljómleikahöllinni í Stokkhólmi 10. desember.