Skeggræður 1. hluti

Matthías JohannessenSkeggræður gegnum tíðina

I. KAFLI Vinnan er guðs dýrð

Í formála síðari útgáfu æskuverks Halldórs Laxness, Barns náttúrunnar, segir skáldið m.a. að nákominn vinur, sem hann tekur mark á, hafi sagt við sig, „að Barn náttúrunnar, fyrsta bók mín, samin 1918, væri í senn útdráttur, niðurstaða og þversumma af öllu því sem ég hef skrifað síðan; að síðari bækur mínar væru allar eintóm greinargerð fyrir þeim niðurstöðum, sem komist er að í Barni náttúrunnar“.

Margt er auðveldara en skýra hver sé niðurstaða eða þversumma af ritverkum Halldórs Laxness. Samt hlýtur maður að staldra við þessi ummæli, gefa þeim gaum, þótt ekki sé hægt að skýra þau í fljótu bragði.

Í Barni náttúrunnar blandast vísvitandi og óvísvitandi skáldskapur og veruleiki. Þar er þjóðfélagslegt ívaf, þar er tekin siðferðileg afstaða, enda eru aðalátök bókarinnar um „siðferðilegan grundvöll mannlífsins“, náttúran er í senn takmark og umgjörð og loks er guð svo nálægur, án þess honum séu gerð sérstök skil, að vel mætti komast svo að orði að hann sé aðalpersóna sögunnar. Leitin að honum er leiðsögustef bókarinnar.

Randver Ólafsson, önnur aðalsögupersónan, kemur heim til Íslands frá Vesturheimi, þar sem hann hefur notið alls sem auður getur veitt – alls nema friðar í sál sinni. Hann kemur úr eins konar helvíti til að hreinsast og frelsast í nýju landi. Hreinsunareldurinn er íslenzk sveit, hann ætlar að verða bóndi. Og guð er alls staðar nálægur í náttúru landsins. Náttúran er sú tæra lind, sem streymir um sál mannsins og skolar soranum burt. Eins konar rousseauismi. Heiðarleg vinna í skauti íslenzkrar náttúru er boðskapur bókarinnar. „Sá sem býr fyrir ofan heiðblámann hefur vakið okkur. Hann hefur vísað skammdeginu á bug með alla ljótu draumana og gefið okkur aftur vor ástarinnar – hið eilífa vor. Þökkum honum. Og áður en við byrjum á vinnu okkar í dag skulum við snúa okkur til hans í þökk og bæn, og segja:

„Himneski faðir!““

Það hlýtur að vekja athygli, að í skáldverki Halldórs Laxness, Kristnihaldi undir Jökli, segir á einum stað: „„Vinnan er guðs dýrð,“ sagði amma mín.“ Og seinustu orð Jóns prímusar við Umba í þeirri sömu bók eru: „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.“ Þau orð minna á ljóðið í Barni náttúrunnar:

Dáið er allt án drauma

og dapur heimurinn.

Niðurstöður fimmtíu ára skáldferils Halldórs Laxness má þannig finna í fyrstu bók hans. Þótt ekki væri nema fyrir þær sakir hlýtur hún að teljast merk tímamót í sögu íslenzkra bókmennta. Og þrátt fyrir vanþroska og augljósa galla er hún ótrúlega þroskað verk, þegar aldur höfundar er hafður í huga. Það er ekki á hverjum degi sem 16 ára drengir skrifa skáldverk á borð við Barn náttúrunnar. Það er ekki að sjá af bókinni, að höfundurinn hafi gengið annan dintinn á stuttbuxum, þó við höfum orð hans sjálfs fyrir því. Gagnrýnendum hefði verið vorkunnarlaust að gera sér grein fyrir því fyrirheiti sem bókin gaf, en einn þeirra lætur gott heita að afgreiða hana með svofelldum orðum: „Skáldeðlið sýnist vera takmarkð.“ En það var einmitt skáldeðlið, sem var með ólíkindum, hvorki barnaskapurinn, ókostirnir né hátíðleikinn.

„Við erum eins og pöddur sem breytast úr einu formi í annað á þróunarferli sínum. Sumar breytast með því að fara í gegnum önnur dýr,“ sagði Halldór við mig þegar ég hitti hann eitt sinn að máli.

Í Barni náttúrunnar er almennur kristilegur andi, sem Halldóri Laxness var innrættur, þegar hann var að alast upp. Síðan les hann allt sem hann kemst yfir um austurlenzka speki, þar á meðal bæði Bhagavad Gita og Bókina um veginn, en hallast svo að kaþólskri trú hálfum áratug eftir að hann skrifar Barn náttúrunnar.

Halldór Laxness hefur, ekki síður en við hin, breytzt úr einu formi í annað. Hann hefur tamið sig við margar kenningar og skoðanir og aðhyllzt ýmis heimspekikerfi, sem hann svo hefur misst áhuga á og varpað fyrir borð. Hann hélt upp á fimmtíu ára rithöfundarafmæli sitt með orð ömmunnar um vinnuna og guðsdýrð hið næsta hjarta sínu.

Halldór Laxness segir, að hann hafi fundið mjög sterka trúarlega tilhneigingu í Barni náttúrunnar, þegar hann las hana aftur fyrir nokkrum árum. „Þessara tilhneiginga verður minna vart í sumum seinni bókum mínum. En í mér hefur alltaf verið einhver grundvöllur trúarlegrar háspeki.“

***

Í báðum útgáfum Barns náttúrunnar hefur sagan undirtitilinn: Ástarsaga. Skáldið hefur ekki séð ástæðu til að fella burt þessa einkunn í síðari útgáfunni. Samt segir hann í formálanum að það hljóti að vera einhver misskilningur, þegar Barn náttúrunnar er kölluð ástarsaga. „Má vera,“ segir hann, „að það sé eitthvert strákapar í auglýsingamennsku til að laða fólk að búðinni – eins og þegar Eiríkur rauði skírði jökulinn Grænland.“

Ástarsaga? „Þetta eru rómantískar hugleiðingar um pilt og stúlku, eins og siður var að skrifa í kynslóðinni á undan okkur,“ segir skáldið, þegar ég inni hann eftir þessu. „Þetta er ekki í neinum skilningi ástarsaga, heldur hugleiðingar unglings um ást, skrifaðar af saklausum og reynslulausum skólapilti ofan úr sveit. Það er mikill munur að bera saman Barn náttúrunnar og Viktoríu Hamsuns. Viktoría er ástarsaga eins og þær voru bezt samdar í þeirri kynslóð. Skáldið kafar djúpt í tilfinningalíf persónanna og lýsir þeim á ljóðrænan og áhrifamikinn hátt. En Hamsun var ekki einungis fullveðja maður þegar hann skrifaði Viktoríu, heldur einnig fullveðja rithöfundur. Ég skrifaði Barn náttúrunnar tveim árum eftir að ég var fermdur.“

Halldór kvaðst hafa nefnt Viktoríu „til þess eins að leggja áherzlu á þann mun sem er á ástarsögu og – að ýmsu leyti – ekki ógeðslegum hugmyndum 16 ára drengs um ástina“.

En hvað um ástarsögur nú á dögum? Skáldið segir að ástarsögur séu ekki lengur skrifaðar. „Nú eru skrifaðar kynfærasögur og klámtrúarbókmenntir,“ segir hann. „Ég var mjög nærri rómantíkinni þegar ég skrifaði Barn náttúrunnar.“

Hann segist ekki gera ráð fyrir að æskufólk nú á dögum sakni bóka eins og Barns náttúrunnar. Það sækir kraft sinn í annað uppeldi og aðra heimsmynd. Í Barni náttúrunnar er „heilbrigður hugsunarháttur“, eins og hann gerðist snemma á þessari öld. „Margt í þessum hugsunarhætti finnst æskunni vafalaust heldur barnslegt framlag til nútímalífs, og líklega hlægilegt. Það væri samt athyglisvert verkefni að kanna hvernig æskufólki nú á dögum geðjist að Barni náttúrunnar – rannsóknarefni að fá úr því skorið hvort því þyki sá boðskapur frambærilegur að leita guðs í náttúrunni og vinnunni eða hvort það hafnar siðferðilegum undirstöðum slíkra skoðana.“

Halldóri Laxness var innrættur hugsunarhátturinn í Barni náttúrunnar þar í sveit sem hann ólst upp, án þess hann væri þó prédikaður yfir honum. „Faðir minn var lútherskur og lét þar við sitja, en móðir mín var heldur áhugalítil um trúmál.“

Ég spurði hann hvað hann ætti við með orðum „lét þar við sitja“. „Hann hafnaði ekki lútherskum rétttrúnaði, þó hann þekkti vel bækur og skoðanir, sem gengu í aðra átt. Hann las einlægt sjálfur, eða lét lesa húslestra. Öll trúrækni er formsatriði eins og kurteisi. Þegar hann var veikur las Halldóra gamla Álfsdóttir eða einhver annar heimilismaður. Mér leiddust þessir lestrar, fór oft út fullur af andlegum hroka þegar farið var að lesa. En í frumbernsku var ég mjög „trúaður“, meira að segja „hjátrúarfullur“. Ég man svo langt að ég trúði því statt og stöðugt að til væri huldufólk.“

Kristindómurinn var sem sé grundvöllurinn að þessu öllu. Jafnvel Hulda Stefánsdóttir, „fegursta stúlkan í veröldinni! Ástin mín! Lífið mitt! Þú sem hefur gert kvenhatarann í mér að heitasta elskhuga! Þú sem hefur töfrað mig og hrifið!“ – hún skildi kristindóminn að lokum. Hún sem hafði neitað „að trúlofast“ og undirgangast aðra siði venjulegs fólks, því að „siðir eru ekki annað en hnapphelda sem ræflar og heimskingjar hefta sig með“ – jafnvel hún skildi þetta að lokum. Og hún, þetta villta náttúrubarn, sem ætlaði að selja sálu sína fyrir nautnir og utanlandsferðir með kaupmangara og braskara, gerir málið upp við sig og ákveður að flytjast með Randver þangað sem trúað er á guð og Ísland.

***

Halldór Laxness kvartar nú undan því í formála, að Barn náttúrunnar hafa birzt á prenti án þess að hann hafi séð prófarkir, sumu jafnvel verið breytt. Reyndar hafi hann verið búinn að missa áhugann á verkinu, áður en það kom út, faðir hans hafi látizt þá um sumarið og hann var sjálfur stokkinn úr landi. Auk þess hafði pilturinn ný verk í smíðum; var meira að segja farinn að skrifa á dönsku. En þessi innborna léttúð varpar nokkru ljósi á rithöfundarferil Halldórs Laxness. Hann hefur ekki verið við eina fjöl felldur. Og aldrei fest sig í gildru neinnar sérstakrar stefnu eða tízkufyrirbrigðis svo hann gæti ekki losað sig aftur þegar honum sýndist. Hann hefur að vísu verið alæta á kerfi og skoðanir en aldrei bundinn á klafa neinnar liststefnu eða fjötrast við kreddu fyrir fullt og allt.

Í formálanum segir hann að orðið „fardagaflan“ hafi komið fyrir hjá sér, en í próförk verið breytt í ferðalagaflan, orð sem hann kannast ekki við. Fardagaflan var gamalt orð og gróið í munni þess fólks sem hann kynntist í æsku, og þýðir í rauninni vorhret, og sér hver maður, hvílíkur munur er á þessum tveimur orðum. Nú hefur orðið komizt inn í söguna á réttum stað fyrir tilverknað Ragnars í Smára. En það er ekki þar með sagt að það svari tilgangi sínum þarna, og það hefur hinn fyrsti prófarkalesari sjálfsagt fundið, hver sem hann hefur verið.

Halldór Laxness segist hafa numið íslenzka tungu af vörum ömmu sinnar, Guðnýjar Klængsdóttur, sem var sjötug þegar hann fæddist; og reyndar fólks úr öllum landshlutum sem dvaldist lengur eða skemur í Laxnesi. Þar lagði hver sitt sérstaka tungutak á borð með sér. Margvíslegt mál þessa fólks festist honum í minni. „Einu sinni settist að hjá okkur í Laxnesi tólf manna fjölskylda austan úr Hornafirði. Þetta fólk var gullnáma að máli til.“

Halldór Laxness hafði gengið í háskóla þessa fólks þegar hann skrifaði Barn náttúrunnar, þess sér staði í bókinni. Náttúrubarnið frá Hólum er meira að segja ekki ólíkt sumum stallsystrum sínum í íslenzkum fornsögum, eitthvað skylt Hallgerði langbrók. Einar bóndasonur sem fyrst verður ástfanginn af Huldu fremur sjálfsmorð. Randver fer í hundana þegar Hulda tekur saman við Ara, og loks fargar Ari sér og situr „þar í stóli, dauður, með kníf í hjarta, annað augað útá kinn, hitt sært“. Í lífi Huldu eru goðsögulegar hörmungar eins og við könnumst við úr hrikalegustu eddukvæðum.

En svo er annað.

„Die Sonne war noch nicht aufgegangen –“ segir í upphafi frægrar þýzkrar smásögu, Larrabíata, eftir Paul Heyse. Heyse skrifaði sögur frá Ítalíu og úr Alpafjöllum. Larrabíata þýðir: sú tryllta. Ég innti skáldið eftir, hvort Hulda ætti sér ekki fyrirmynd í Larrabíötu. Það var eins og eitthvað vaknaði í honum og minningin kom til hans og hann hafði gaman af að rifja upp þessa sögu. „Ég varð fyrir mjög sterkum áhrifum af Larrabíötu,“ sagði hann, „og var undir áhrifum af henni í mörg ár, þau koma meira að segja greinilega fram í Sölku Völku.

Larrabíata stóð í þýzkri kennslubók Jóns Ófeigssonar. Jón valdi í bók sína gullvæga hluti, sem maður gleymir aldrei, t.d. Die Grenadiere eftir Heine, Der Wirtin Töchterlein (Uhland), Der Handschuh, Hanzkinn, eftir Schiller; og síðast en ekki sízt: „Unser Herz ist eine Harfe“. Það er ótrúlegt hvað lítil kennslubók, ef hún er góð, getur haft sterk áhrif á hrifnæmt skáldageð í æsku.

Þegar ég kom til Þýzkalands, fór ég að lesa bækur eftir Heyse, en fann reyndar ekkert sem kæmist í hálfkvisti við Larrabíötu.“

Þegar Halldór Laxness skrifaði Barn náttúrunnar var hann einnig þaulkunnugur samtíma bókmenntum Norðurlanda, enda sér merki þess á víð og dreif í sögunni. „Á þessu áhrifasvæði voru skáld eins og I.P. Jacobsen, sem að vísu var raunsæisskáld, en ljóðrænn realisti. Obstfelder las ég rúmlega fermdur og það er áreiðanlega hægt að finna áhrif frá honum í Barni náttúrunnar. Sömuleiðis frá Hamsun – Pan og Viktoríu; þó ekki frá Gróðri jarðar, því sú bók kom ekki út fyrr en um það leyti, sem ég var búinn með Barn náttúrunnar.“

Í skáldsögu Halldórs má finna hér og hvar tilraunir til að líkja eftir stíl Hamsuns. Þó er engan veginn hægt að segja að Barn náttúrunnar sé bein stæling á honum. En Hamsum átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á rithöfundarferil Halldórs. Sjálfstætt fólk er jafnvel skrifað „sem mótmæli gegn sveitarómantíkinni … Þegar ég las Gróður jarðar fannst mér spurning bókarinnar röng og svarið eftir því … þó verkið sé á margan hátt merkilegt … og ágætt“. Í ritdómi um Konerne ved Vandposten í Morgunblaðinu haustið 1921 kvartar hann yfir því, að áhrif Hamsuns á hann hafi verið miður holl: „Mér fannst ég hafa staðið mig að því að vera í vondum félagsskap.“ Þessi orð eru sjálfsagt sprottin af því ekki sízt, að með auknum þroska hefur skáldið fengið löngun til – að vera hann sjálfur. Um það þurfti hann að heyja baráttu við Hamsun!

Þá telur Halldór að hann hafi ekki sízt orðið fyrir áhrifum af stíl Björnstjerne Björnsons, hröðum, heitum og ljóðrænum í Á Guðs vegum, – „sem ég las í þýðingu Bjarna frá Vogi með afskaplega mikilli aðdáun – sú bók hafði sízt minni áhrif á mig en bækur Hamsuns“. Loks höfðu íslenzk rit áhrif á Barn náttúrunnar eins og vikið er að hér á undan. Eru ekki ábendanleg áhrif bæði frá Einari Kvaran og Jóni Trausta? „Álfaminnin í Barni náttúrunnar eru samt líklega komin úr Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson, sem ég hafði séð leikna,“ segir höfundurinn.

***

En nú lá mest á að losa sig við skáldsöguna, og flýta sér síðan út í heim. „Ég hafði fengið sterkt hugboð, einhvers konar spásögn um að ég mundi deyja áður en ég yrði seytján ára, og varð þar af leiðandi að flýta mér með hitt og annað.“ Auk þess þurfti skáldið að flýta sér að bæta mannfélagið, því til þess stóð hugur hans mest. En þar sem hann vissi að hann yrði ekki nema seytján ára, varð hann að láta hendur standa fram úr ermum, eins og þegar Ólafur konungur Tryggvason setti sér það göfuga takmark að vera búinn að kristna allan Noreg fyrir árið 1000 – því þá yrði heimsendir.

Í öllum skáldverkum kemur að sjálfsögðu fram reynsla, viðhorf og hugsunarþroski höfundarins, ekki sízt í málfari og persónumótun, og skáldinu dettur ekki í hug að neita því, að bæði Ólafur Kárason og aðrar aðalpersónur skáldsagna hans spegli umfram allt sálarlíf hans sjálfs.

En í persónum skáldsagnahöfunda er einnig – og ekki síður – annað fólk.

Randver, ungur og glæsilegur lífsnautnamaður frá Vesturheimi kemur hingað heim vonglaður og fullur af hugsjónum um að bæta heiminn svo um munar. „En þegar ég kom síðar til Kanada,“ segir Halldór, „sá ég að Randver gat ómögulega verið þaðan kominn. Vestur-Íslendingar voru duglegir púlskarlar, sem hafa áreiðanlega ekki verið orðnir þreyttir á heimsmenningunni og flúið til Íslands þess vegna. En ég hafði eins og aðrir heyrt talað um baróninn á Hvítárvöllum, sem kom úr heimsmenningarborgum, þreyttur aðalsmaður, til að leita hér að sannri hamingju. Fyrst rak hann fjós við Barónsstíg, en fór síðan upp í Borgarfjörð, þar gerði hann bú á Hvítárvöllum. Það var slíkur maður sem ég hafði í huga. En þess konar íslenzkur heimsborgari var ekki til í þá daga – og allra sízt í Kanada.“

Á einum stað í sögunni er sagt að Ari hafi kaupmannsandlit. „En þó Barn náttúrunnar sé öðrum þræði þjóðfélagsskáldsaga og Ari fulltrúi brasks og yfirborðsmennsku, er þetta orð engan veginn niðrandi fyrir kaupmannastéttina. Ég hafði snemma tekið eftir því að andlit kaupmanna voru allt öðruvísi en andlit bænda og verkafólks sem voru allt í kringum mig. „Kaupmannsandlit“ merkir aðeins að Ari hafi verið öðruvísi í framan en bændur og verkamenn.

Þjóðfélagshyggjan í sögunni er sprottin úr því innræti sem ég hlaut í uppeldinu. Á hegðun og fyrirætlanir Ara er vitaskuld lagður siðferðilegur mælikvarði. Fésýsla hans gengur á móti móral sögunnar, þar sem lögð er áherzla á leitina að guði og þá hugmynd, að guð sé að finna í dyggðugu líferni og heilbrigðu starfi í náttúrunni.“

Þegar Halldór Laxness skrifaði Barn náttúrunnar var ekki komin upp sú málefnastilling milli þjóðfélagsstétta, eins og hann kallar það, sem síðar varð hér á landi þegar farið var að boða sósíalisma. Stéttaátök þekkti hann ekki í uppvexti sínum. Samt er sagan lituð af þessum átökum. En það eru einungis óbein áhrif af þjóðfélagslegum skáldverkum sósíalradíkalhöfunda á Norðurlöndum, og í þá veru nefnir hann Jakob eftir Jónas Lie, leikrit Ibsens og þó alveg sérstaklega sögur Alexanders Kiellands. „Ég hafði til dæmis um fermingu lesið Garman og Worse, þar sem þjóðfélagsleg barátta er þungamiðjan.

Faðir minn studdi Heimastjórnarflokkinn, þó að hann væri ekki íhaldsmaður, því síður afturhaldsmaður, heldur aðhylltist umbreytingar bæði í búnaðarháttum og almennri upplýsingu. Hann reyndi að mennta sig eins og hann gat, meðan hann átti heima í Reykjavík, þótt ekki gengi hann í skóla. Hann var meira að segja í tímakennslu eftir að hann kvæntist; ég man vel eftir kennslubókunum hans, bæði í ensku og frönsku. Þær voru útpáraðar, með athugasemdum á spássíum og bréfmiðum með glósugerð innan í, og augljóst að hann hafði sótt nám sitt af kappi, enda vel mæltur á ensku. Mér er minnisstætt hve snurðulaust hann talaði við Englendinga, sem komu að Laxnesi. Hann lærði ekki sízt að tala ensku hjá Þorgrími Gúdmundsen, sem var leiðsögumaður Englendinga á sumrin, en kenndi ensku á veturna. Þegar ég var rúmlega fermdur fór ég, að ráði föður míns til Gúdmundsens að læra að tala ensku, sem ekki var kennt í menntaskólanum.

Á bernskuheimili mínu var aldrei talað um stjórmál, svo ég muni. En það er ekki að marka, því að ég hafði engan áhuga á flokkspólitík. Og víst er að ég kynntist ekki neinum radíkalisma á æskuheimili mínu. Ég sótti hann semsé annað.“

Kannski er það einmitt skýringin á því að „radíkalismi“ Halldórs Laxness hefur enzt honum misjafnlega. Og þegar í fyrstu skáldsögu sinni gerir hann sér far um „að horfa inn í augu mannanna, hversu auðvirðilegir sem þeir virðast vera, þangað til hann hefir fengið samúð með þeim“, eins og hann segir um einn skáldbræðra sinna. Þessi samúð var honum innrætt í barnæsku. Hún hefur verið honum samgróinn aflgjafi, í senn leiðarljós og grundvöllur beztu verka hans. „Það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt,“ segir í sögunni um ómagann Ólaf Kárason. Betur verður hlutverki rithöfundar ekki lýst. Það er einkar táknrænt fyrir líf Halldórs Laxness og ritstörf: hann ímyndaði sér að Ólafur Kárason væri mest skáld í heimi þau sex ár sem hann var samvistum við hann í huganum. Hvað á leikarinn í leikriti? Rulluna sem hann leikur, meðan hann er á sviðinu. Halldór Laxness hefur orðið að vera á sviðinu í mörgum gervum. Hann hefur verið í gervi þess handalausa í Prjónastofunni Sólinni, þess blinda, þess sem hefur hellu fyrir eyra, að ógleymdum buxum pressarans í Dúfnaveislunni og hinni slitnu hempu Jóns Prímusar. Þó einn missi hendurnar, annar vitið í peningastreðinu, þá týndu þeir pressarinn og Jón Prímus aldrei sínu góða hjarta. Halldór Laxness hefur ávallt gert sér grein fyrir því að þeir standa höllum fæti, sem vilja halda trúnað við hjarta sitt. Þetta er oft inntak í verkum hans, Prjónastofunni og Dúfnaveislunni, svo dæmi séu nefnd. Kannski hefur hann aldrei staðið nær neinni persónu en pressaranum – manninum, sem bauð allri símaskránni í veizlu; einu bókinni þar sem merkilegir menn standa við hliðina á ómerkilegum. Það er í Halldóri Laxness, sem þeir eiga allir bágt, hver á sinn hátt. Honum hefur hvorki glapnað heyrn né sýn. Í verkum hans kenna aðrir ekki aðeins til. Þeir læra einnig að lifa.

 

II. KAFLI Að trúa ekki á stál

Gerpla, bókin um blekkinguna. – Við sitjum í skrifstofu skáldsins, en það er sambandslaust á milli okkar ennþá. Á hverju eigum við að byrja? Skáldið gengur að glugganum, horfir út, segir: „Varstu með keðjur?“ „Já,“ svara ég. „Þetta er undarlegt tíðarfar í október. Hér er óvenjulegt að snjói fyrir fyrsta vetrardag.“

Skáldið gengur að bókaskápnum, tekur litla bók og réttir mér. „Og þú vilt aðallega ræða um Gerplu,“ segir Halldór skáld og sezt.

„Þarna hefurðu hana í nýju fjöldaútgáfunni hans Ragnars í Smára.“

Nú fer þetta að lagast, hugsa ég með mér, skáldið er í góðu skapi og virðist leika á als oddi: „Já, það er einmitt. Það er kannski tímabært að tala um Gerplu núna.“

Hann bendir á bókina sem ég er að handleika:

„Þetta er ódýrasta bók, sem gefin hefur verið út á Íslandi, hugsa ég. Hún kostar aðeins 20 krónur, það svarar til þess að hún hefði kostað 2 krónur fyrir stríð. Ég held það hljóti að vera reyfarakaup. Það er víst alveg ómögulegt að nokkur gróði geti orðið á þessari bók, hvað mikið sem hún selst. Þetta er áreiðanlega gert af einberum menningaráhuga.“

„Hvernig fórstu að því að ná þessum sérkennilega stíl, sem er á bókinni?“

„Það hefur verið sagt um okkur Reykvíkinga, að við verðum að læra íslenzku eins og útlendingar. Þetta var einnig sagt um Helga Pjeturss sem þó hefur skrifað allra manna fegursta íslenzku. Sem Reykvíkingur er maður fullur af óíslenzkulegu málfari. Það er því nauðsynlegt að taka rögg á sig og rækta málsmekk sinn og málfar frá rótum. Ég hef orðið að spæla mig eftir föngum, en maður er aldrei búinn að læra íslenzku nógu vel.

Frómt frá að segja leiddist ég út í að skrifa Gerplu á fornmáli móti vilja mínum. Ég hélt það væri auðveldara en er í raun og veru að skrifa skáldsögu frá 11. öld. Hélt meira að segja að það væri hægt að skrifa söguna á því máli sem við tölum í dag. En svo sá ég að það var blátt áfram hlægilegt að ætla að segja á nútímamáli sögu sem gerist á sögusviði sígildra fornra bókmennta. Hugsaðu þér, þó ekki væri nema Þorgeir Hávarsson segði: Góðan daginn, eða komdu sæll og blessaður! Fyrir bragðið fóru 4 ár af lífi mínu í að læra þetta mál. Ég dauðsé auðvitað eftir því að hafa ekki farið að læra kínversku í staðinn!

Þetta er langur tími, alltof langur. Maður er nú orðið alltof lengi að skrifa bækur. Það er líka erfitt að skrifa gott verk nú á tímum. Það er búið að skrifa svo mikið og vel á síðustu 150 árum, að það er betra að hugsa sig um áður en maður byrjar á nýrri skáldsögu. Ef við hefðum ekki hér á Íslandi þessa sterku epísku hefð, væri ekki hægt að skrifa hér skáldsögu. Við höfum viðspyrnu í fornöldinni, fótfestu. Það er mjög athyglisvert að þær þjóðir, sem áttu engar skáldsögur á 19. öld, eiga fá verk nú á tímum sem töggur er í. Líttu bara á Þjóðverja og Ítali. Þá vantar grundvöllinn.

Thomas Mann er sérstakur. Buddenbrooks er sterk bók. Og góð. Enda einstök í þýzkum bókmenntum, sagnaskáldskapur hreinn og klár. Töfrafjallið aftur á móti nokkurs konar skólabekkur í heimspeki nútímans eða réttara sagt þess tímabils sem það er samið á. Það er ekki sagnaskáldskapur.“

Halldór tekur Töfrafjallið ofan úr hillu og fer að blaða í því. Hann bætir við:

„En Töfrafjallið er engu að síður stórkostleg bók. Við vorum að tala um áðan, að erfitt væri að skrifa bækur á okkar tímum. En maður verður líka að hafa efni á því. Ég skrifaði Gerplu vegna þess að ég gat leyft mér að krunka við sjálfan mig yfir þessari bók eins lengi og nauðsyn krafði. En erfiðið kemur engum til góða nema þeim fáu Íslendingum, sem bera skynbragð á þetta. Bókin er óþýðanleg, þó kannski sé hægt að skrifa hana upp á öðru máli, og það hafi reyndar verið gert. Ég fór eftir þeirri reglu að nota yfirleitt aldrei orð sem hægt væri að sanna að hafi ekki verið til í málinu á 11. öld. Þetta er reglan. En það geta verið í þessu yfirsjónir frá minni hendi, villur sem ég veit ekki um; og á einstöku stað hef ég brotið regluna viljandi. T.d. þegar Knútur ríki Danakonungur talar með óvirðingu um Ólaf helga, segir hann: Ólafur peysa Haraldsson. Orðið peysa er fornfranskt, frá 13. öld, þýðir bóndi, sveitamaður. Og af því höfum við svo orðið peysa í nútímamáli. Svo ég taki annað dæmi: á 11. öld var orðið prinsessa ekki til. Þess vegna nota ég orðið principissa sem er úr miðaldalatínu. Latínan var líka til þá. Svona gloppur koma fyrir og það er gaman fyrir fræðimenn að finna villurnar. Ég reyndi að gera eins og ég gat. En það dugar ekki alltaf til.

Stíllinn er ekki aðalatriðið í Gerplu, langt frá því. Það sem ég vildi með bókinni var að semja fornlegt listaverk handa nútímafólki. Ég var lengi búinn að hugsa mér að skrifa þessa bók, en einhvern veginn var ég hálfragur að byrja. Seinast fannst mér ég mega til, þetta var farið að stríða svo á mig. Það var miklu fargi af mér létt, þegar ég var búinn með bókina. Var oft kominn að því að hætta við hana í miðjum klíðum, hélt satt að segja að ég kæmist aldrei fram úr þessu. Það var í Róm haustið 1948 sem ég hófst handa.

Ég vildi fjalla um persónur, sem hafa verið til á öllum tímum, um menn sem eru alltaf að leita að einhverjum allsherjar sannleik; og leita að sínum konungi. Svona menn kasta burt hamingju sinni og sálarfriði fyrir hugmynd sem öðrum finnst fáránleg. En hvað á sá maður að gera sem fundið hefur konung sinn og þann sannleik sem þessi konungur boðar?

„Í styrjöld munu þeir einir miður hafa er trúa stáli,“ – þetta er grundvallaratriði í sögunni, sjónarmið heilbrigðs manns, til að mynda bónda sem yrkir jörðina, þegar hann sér þessa voðalegu menn fara um landið, kappa eins og þá svarabræður, Þorgeir Hávarsson og Þormóð Kolbrúnarskáld. Auðvitað er þetta stílað uppá nútímann og alla tíma. Ég hef aldrei trúað á stál. Gagnrýnin á hetjuhugtakinu hefur líka alltaf verið mér mjög hugstæð vegna blekkinganna sem eru bundnar skilgreiningu manna á því. Á vissu tímabili í þróun frumstæðra menningarþjóðfélaga situr hetjuhugtakið í fyrirrúmi. Hetjuhugtakið er tvíeggjað sverð, að minnsta kosti frá siðferðilegu sjónarmiði. En auðvitað lítum við öðrum augum á þessi mál en þeir er sömdu Eddukvæðin.

Ég hef í rauninni enga andúð á Ólafi digra þó hann sé engan veginn geðfelldur í sögunni. Hann er eins og hver annar sveitastrákur úr Noregi alinn upp við sjórán og hryðjuverk og hefur mótazt af því. Það er ekki þar með sagt að hann sé algildur fulltrúi konungastéttarinnar í mínum augum.

Að vissu leyti er það rétt, að samband sé milli Don Quijote og Gerplu. En staðhættir þessara bóka eru ólíkir – og ég held ég hefði getað skrifað Gerplu án þess að hafa lesið Cervantes. Hitt er satt að ég fletti oft upp í honum. Annars var spánska riddararómantíkin sem Cervantes var að skopast að ólík okkar hetjudýrkun, þó hægt sé að finna þar samstæður.“

***

Það er farið að líða að kvöldi, komið myrkur í Mosfellssveit. Það er ágætt að hvíla sig stundarkorn og rabba um eitthvað annað. Talið berst aftur að veðrinu, það er alltaf jafn þægilegt umræðuefni. En von bráðar fer rabbið að snúast aftur að bókmenntum, hvernig er hægt að sitja hér lengi án þess að ræða um þær? Hvað um Mörð Valgarðsson? „Jú, það hlýtur að vera ógæfa að semja listaverk upp úr frægu listaverki sem er svo gott að lengra verður ekki komizt, svo það er ekki undarlegt, þótt Jóhanni Sigurjónssyni hafi fatazt í það skipti.“

Fóstbræðrasaga? „Hún er ákaflega misjöfn, bæði í stíl og samsetningu. En hún er vel skrifuð á köflum. Það eru í henni kvenlýsingar sem eru svo ekta, að ekki er hægt að efast um að höfundur hafi haft í huga stúlku sem hann hafði þekkt og mundi vel eftir á meðan hann var að skrifa söguna. Ég studdist auðvitað mikið við Snorra. Sumir kaflar í Gerplu standa djúpum rótum í Heimskringlu. Auk þess las ég alls konar sagnfræði frá 11. öld, bæði enska og franska: sömuleiðis bækur um Grænland, jafnvel leiðinlega doðranta um grænlenzka fornleifafræði; ég pældi líka gegnum engilsaxneska annála og því um líkt. En það er nauðsynlegt að þekkja rúm og tíma sögu sinnar til þess maður villist ekki og geti unnið frjálst. Og þó maður noti aðeins eitt eða tvö lýsingarorð úr hverri fræðibók um efnið, er nauðsynlegt að vita um hvað maður er að tala.

Ég hef farið á alla þessa staði sem lýst er í Gerplu, nema til Grænlands. Svo þú sérð að maður verður annaðhvort að hafa peninga til að geta skrifað svona bók – eða vera alger flakkari. Ég hafði allt leiksviðið fyrir hugskotssjónum; sá það allt. Þekkti landafræðina ekki síður en sagnfræðina. Ég get ekki unnið nema hafa jarðsamband. Get ekki unnið í lausu lofti.

Þú spyrð, hvaða kafli í Gerplu mér finnist beztur, svona eftir á að hyggja. Hér er málsgrein, sem ég reyndi að vanda mig við. Það er lýsing á því, þegar vorið er að koma til Grænlands. Ég held það séu 10 línur, við skulum sjá:

„Nú líður af þessi vetur sem aðrir er eigi vóru skemri, og tekur brestum að slá í nóttina, og þefvísir menn segja tíðendi, að þá andaði móðir sjóskepnunnar þey að landi úr hinum fyrstum höfum þar sem hún á soðníngarstað. Og nær sól ekur sínum björtum himinhundum sunnan jökulinn, og túnglbóndinn, vörður lágnættis, er sofa geinginn, þá vekja menn hunda sína jarðneska og busta af meiðum snjó, og fara að vitja þeirra gjafa er kona hin einhenda hefur upp látnar á ísskörina.“ Ég held ég hafi skrifað þessa málsgrein 20–30 sinnum. Annars er bókin sem þú heldur á sjöunda Gerplan sem ég skrifaði. Hinar sex liggja í kistu hjá Peter Hallberg í Gautaborg. Sumar eru töluvert lengri en þessi. Pétur er víst að lesa þetta sér til skemmtunar um nætur, ef hann getur ekki sofið.

Sumir fá þetta allt í einu innblásturskasti og skrifa upp allt sem andinn inngefur þeim, en ég verð að kaupa allt dýru verði. Samt ætla ég ekki að skrifa aðra bók eins og Gerplu. Ég er fullsaddur af því.“

1. hluti | 2. hluti | 3. hluti