Reglur um starfsemi safnsins

Reglur um Gljúfrastein – Hús skáldsins

1. gr.

Gljúfrasteinn – hús skáldsins starfar á grundvelli gjafabréfs sem undirritað var þann 21. apríl 2002 af Auði Sveinsdóttur f.h. fjölskyldu Halldórs Laxness og Davíð Oddssyni forsætisráðherra. Gljúfrasteinn opnaði sem safn 4. september 2004 en fjölskylda Halldórs Laxness seldi íslenska ríkinu húsið og þau listaverk sem það prýða árið 2002 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Við sama tækifæri gaf fjölskyldan allt innbú samkvæmt gjafabréfi.

2. gr.
Gljúfrasteinn – hús skáldsins er safn í eigu íslenska ríkisins og fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þess.

Hlutverk safnsins er að sýna heimili Halldórs Laxness sem lifandi safn og standa vörð um lífsstarf hans. Áherlsa er lögð á að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu um verk Halldórs Laxness og ævi hans og miðla þeim fróðleik meðal annars með sýningum, útgáfum og öðrum hætti.

Allir munir Gljúfrasteins skulu skráðir í viðurkennt skráningarkerfi. Safnið starfar samkvæmt söfnunar- og sýningarstefnu sem miðast að því að taka við og halda til haga öllu því er viðkemur Halldóri Laxness, verkum hans og ævi.

Safnið lánar öðrum söfnum muni á sýningar í samræmi við reglur þar að lútandi.

3. gr.
Kostnaður af rekstri Gljúfrastein – húsi skáldsins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Sértekjur safnsins eru skilgreindar í fjárlögum og verða til vegna aðgangseyris, sölu minjagripa, sérstakra viðburða eða fjárframlaga.

Safnið starfar í almannaþágu.

4. gr.
Ráðherra ræður safnstjóra. Um kjör fer skv. launasamningi BHM við ríkið. Ráðinn skal maður með háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins. Stjórn Gljúfrasteins er ráðgefandi um ráðningu forstöðumanns.

Safnstjóri stjórnar starfsemi og rekstri safnsins. Hann ræður starfmenn þess og er í fyrirsvari fyrir safnið.

5. gr
Ráðherra skipar þriggja manna stjórn sem er forstöðumanni Gljúfrasteins til ráðgjafar. Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn fulltrúa, fjölskylda Halldórs Laxness einn og einn er skipaður án tilnefningar og skal sá vera formaður.

6. gr.
Safnið starfar samkvæmt safnalögum og öðrum þeim lögum sem starfsemi þess fellur undir. Safnið skal fylgja alþjóðlegum siðareglum safna sem útgefnar eru af Alþjóðaráði safna, ICOM.

7. gr
Gljúfrasteinn og safnkosturinn er í eigu ríkisins. Komi til þess að safnið verði lagt niður í núverandi mynd skal mennta- og menningarmálaráðuneyti tryggja að safnkosti þess verði ráðstafað í samráði við Þjóðminjasafn Íslands.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 4. apríl 2012
Fylgiskjal: Gjafabréf, dags. 21. apríl 2002.