12 ára organisti og söngstjóri

Teikning af Byron lávarði. Halldór teiknaði hana tólf ára gamall og er þetta eina teikningin eftir hann sem hefur varðveist.

Halldór Laxness varð 12 ára organisti og söngstjóri í Mosfellssveit en foreldrar hans höfðu sett hann í orgelnám þegar hann var á tólfta ári. Þetta kom fram í bók Ólafs Ragnarssonar um Halldór, Líf í skáldskap, sem gefin var út árið 2002.

Í bók Ólafs segir Halldór: „Faðir minn var í kirkjunefnd og hann var í sóknarnefnd. Meðal þess sem til hans friðar heyrði var að útvega forsöngvara, sem kallað var, þegar hann var vant við látinn, í kirkjuna okkar á Lágafelli. Forsöngvarinn gaf söngtóninn en lék líka undir á hljóðfæri og var því sagður vera við kirkjusöng fremur en orgelspil. Ég var munstraður í þetta embætti nokkrum sinnum eftir að ég varð tólf ára og lenti í því að sinna þessu mest árið sem ég fermdist. Faðir minn fékk slæma gigt í fingurna, átti erfitt með að leika á orgelið og ég átti ekki annan kost en að hlaupa í skarðið fyrir hann." Var þetta ekki ábyrgðarmikið starf fyrir svo ungan pilt? „Ábyrgð og ábyrgð. Ég treysti mér vel í þetta. Kirkjan átti nótnabækur, að vísu heldur fátæklegar og skrítnar sumar. Mest var þar af sálmum en einnig allar mögulegar léttar nótur, sönglög og aríur og hitt og annað. Mér fannst þetta áhugavert um skeið og lá yfir nótnabókunum milli þess sem messað var. Ég var svo á æfingum með hópnum sem myndaði kjarnann í kórnum og kenndi þeim lögin. Það gekk vel. Ég reyndi líka að brydda upp á nýjungum; vildi ekki alltaf spila sömu sálmana. Því var vel tekið. Það var gaman að heyra sönginn óma í þessari fallegu klassísku kirkju á Lágafelli. Það var sú sama kirkja og stendur þar enn, tréguðshús sem var reist í lok nítjándu aldar. Ég sá fljótt að kúnstin við orgelspil í kirkjum er fólgin í því að fara bara nógu hægt. Ef ég sigldi of hratt gegnum sálmalögin missti söfnuðurinn einfaldlega af öllum nótunum. Þetta fólk var ekki verulega fljótt að syngja svo ég varð að haga mér eftir því og spilaði því yfirhöfuð voðalega hægt. Ég vann engin afrek í þessum efnum þótt sumir sveitamenn héldu að þarna væri komið eitthvert séní í músík. Nóturnar eru svo rétt settar á pappírinn að það er ómögulegt að villast á þeim, hvað tilheyrir hverju tónbili og þar fram eftir götunum. Ég hafði lært nóturnar bæði á nótnabókinni og hljóðfærinu og snilldin fólst í því að tengja það tvennt saman. Þetta var náttúrlega engin spilamennska sem talandi er um og orgel er heldur ekki besta hljóðfæri til að brilléra á. Það er lítið hægt að breyta hljóðinu í orgelinu með einhverjum tilþrifum, áslætti eða fingrafimi, það er alltaf sama baulið, eilíflega bö, bö, bö." (54-55