Textíll

Auður Sveinsdóttir situr við píanóið heima á Gljúfrasteini í handprjónaðri peysu.

Auður var annáluð handavinnukona. Eftir hana liggja margir fallegir gripir sem sjá má á Gljúfrasteini. Uppskriftir hennar hafa birst í tímaritum og fékk hún m.a. viðurkenningu árið 1970 í hekl - og prjónasamkeppni Álafoss fyrir frumlega útgáfu af íslensku skotthúfunni. Á þessari síðu verður safnað saman þeim uppskriftum sem liggja eftir Auði og hafa birst á prenti ásamt umfjöllun um verk hennar; bæði skrif og verk sem hún vann í textíl.

Í gegnum árin vann Auður fjölda verka í textíl. Mörg þeirra eru æði framúrstefnuleg og hikaði Auður ekki við að nýta óvenjuleg efni við vinnu sína. En virðing Auðar og áhugi fyrir hefðinni leynir sér þó ekki í verkum hennar og skrifum um hannyrðir og handverk. Foreldrar hennar, þau Sveinn Guðmundssong og Halldóra Kristín Jónsdóttir, höfðu ekki síst áhrif á það hvaða augum Auður leit hefðina að baki íslensku handverki. Með móður sinni fór hún ófáar ferðirnar á Þjóðminjasafnið þar sem þær tóku upp munstur og hleyptu hugmyndafluginu af stað, umkringdar altarisklæðum, söðulábreiðum og veggtjöldum fortíðarinnar.

Þegar litið er yfir verk Auðar sést vel hversu fjölhæf hún var; verkin eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá Barbiefötum eftir nýjustu Voguetískunni til stórra og flókinna veggtjalda. Þessi verk bera þess vitnis að þau skapaði kona sem hafði sérstaklega næmt auga fyrir formum og litum ásamt þörf fyrir að endurnýja eldri hefðir og skapa ný viðmið. Nýtnin mótar einnig fagurfræði Auðar og verk hennar. Hún hrífst af verkum forvera sinna sem fundu hverjum efnisbúti nýtt hlutverk í verkum sínum. Í safni Gljúfrasteins er bæði að finna textílverk Auðar og skrif, munsturteikningar, möppur fullar af uppskriftum, úrklippum og prufum ásamt öskjum sem innihalda efnisbúta í alls kyns litum og efnisgerð. Það er safnsins að miðla áfram verkum Auðar og þeim hugmyndum sem birtast í verkum hennar.