Skrif

„Svo virðist sem við Íslendingar höfum sérsætt markmið í iðnaðarframleiðslu þegar við tökum okkur fyrir hendur að útbúa vörur til að selja eða setja í búðarglugga. Þá er eins og við gleymum öllu því góða sem við kunnum og álpumst á að framleiða einhvern óhroða, engu líkara en við leitumst frekar við að treysta á ósmekk og menningarleysi kaupendanna en það gagnstæða.“

Auður les fyrir Sigríði dóttur sína í stofunni á Gljúfrasteini.

Þannig hefst grein Auðar um íslenska minjagripi sem birtist í tímaritinu Melkorku árið 1950.  Auður skrifaði talsvert af greinum um hannyrðir, menningararfinn og málefni kvenna. Sumar þessara greina gætu allt eins verið skrifaðar í dag eins og grein hennar um minjagripaframleiðslu og það sem borið var á borð fyrir erlenda ferðamenn á eftirstríðsárunum. Síðar átti Auður eftir að starfa í ritnefnd ársrits Heimilisiðnaðarfélagsins, Hugur og hönd, með fleiri góðum konum og leggja sitt á vogarskálarnar til þess að efla hróður íslensks handverks og hannyrða. Skrif Auðar bera þess merki að þar fer höfundur sem gjörþekkir hefðina en er mikið í mun að skapa ný viðmið og hvetja þá sem vinna með textíl til þess að skrásetja þræði úr eigin lífi í útsaumsverkum sínum. Í skrifunum birtist fagurfræði Auðar og hugmyndir hennar um hannyrðir auk einlægs áhuga á því að fræða lesendur um alla þá ónýttu möguleika sem fólust í vinnu með textíl; nýjungar að utan, framleiðsluhætti o.s.frv.