Sögur af Dóra litla

23/03 2018

Nemandi skrifar í gestabókina á Gljúfrasteini

Það var engin frú Eingilbert í hópnum úr Hamraskóla sem heimsótti Gljúfrastein í morgun. Krakkarnir fengu hins vegar að hitta dúkkuna smáu með stóra nafnið, hana Fríðu Rósu Hólmfríði frú Eingilbert sem Halldóri Laxness þótti afar vænt um þegar hann var lítill strákur.  
Börnin sem eru í fjórða bekk voru afar hrifin af brúðunni og líka af vel nýttum blýöntum Halldórs, ritvélinni, sundlauginni og stóra glugganum í stofunni. 
Nemendurnir fóru heim eftir morgunstund á Gljúfrasteini með margar sögur af Dóra litla í farteskinu og skildu eftir hluta af sínum sögum í húsi skáldsins.