Halldór Laxness les Passíusálma Hallgríms Péturssonar

22/03 2018

Halldór Laxness á níunda áratug síðustu aldar 

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar hafa verið lesnir árlega á föstunni í Ríkisútvarpinu í 74 ár eða allt frá árinu 1944.
Halldór Laxness las sálmana í útvarpið árið 1985 og þessa dagana er verið að endurflytja lestur Halldórs.

Lestur Halldórs á 43. sálmi

Í kvöld verður 44. sálmur lesinn en fyrsta vers af hverjum sálmi er sungið af Kristni Hallssyni. 

Hrópaði Jesús hátt í stað,
holdsmegn og kraftur dvínar:
Ég fel minn anda, frelsarinn kvað,
faðir, í hendur þínar. -

Árið 1942 eða tveimur árum áður en byrjað var að lesa Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Ríkisútvarpinu birtist í Vettvángi dagsins formáli að sálmunum sem Halldór Laxness ritaði.  Þar skrifaði hann meðal annars:

„Öll einstaklíngsstórvirki eiga sér lángan aðdraganda í menníngunni. Sérhvert tímabil leitar sem fullkomnastrar tjáningar á anda sínum, hugsun og tilfinníngu, uns það hefur fundið hana. Í Passíusálmum Hallgríms hefur 17. öldin tjáð insta eðli sitt á fullkomnastan hátt í skáldskap. Það er meira að segja vafasamt hvort Jesús-sögnin hefur nokkurstaðar verið betur tjáð í löndum hinnar þýsku endurlausnar en hjá Hallgrími Péturssyni.“