Töfrastund með Unu Torfa 

Una Torfa kemur fram á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 11. júní.

Söngvaskáldið Una Torfa er fædd árið 2000. Una semur og spilar ljúfsár lög á íslensku um ástina og lífið og gaf hún út sína fyrstu plötu í júní árið 2022. Textar Unu eru fjölbreyttir og taka á ýmsum hliðum margslunginna tilfinninga. Hún fangar nákvæmar tilfinningar og kemur þeim í orð, finnur lítil augnablik og hverfular hugmyndir og festir þær í textum. 

Sunnudaginn 11. júní stígur hún á svið ásamt gítarleikaranum Hafsteini Þráinssyni (CeaseTone) og saman töfra þau fram tónlist Unu í einlægum og fallegum búningi. Það má búast við að tónleikar verði að sögustund.  

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.    

Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins.


 

Til baka í viðburði