Spænskir gítartónar á Gljúfrasteini
11/07 2023
Reynir del Norte er einn atkvæðamesti fulltrúi spænska gítarleiksins á Íslandi og hefur haldið ótal tónleika og námskeið hér á landi og um Evrópu. Hann hefur um árabil búið á Spáni til að leggja stund á Flamenco-tónlistarflutning en einnig verið iðinn við tónleikahald á Íslandi. Sunnudaginn 16. júlí kemur Reynir fram á Gljúfrasteini þar sem hann mun leika dillandi gítartóna í stofu skáldsins. Á dagskránni verður efni úr ýmsum áttum, íslensk dægur- og þjóðlög, eigin tónsmíðar og Sígauna-Flamenco sameinað undir merkjum Flamenkósins. Reynir er þekktur fyrir kraftmikinn og virtúósískan flutning á tónleikum sínum ásamt lifandi lýsingum af tilurð tónsmíðanna og lífi sínu innan um Flamenco-listamenn á Spáni.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins.

Reynir leikur dillandi tóna á gítarinn.