Ólöf Arnalds á Gljúfrasteini

Ólöf Arnalds með gítarinn.

Fyrstu stofutónleikar sumarsins verða haldnir sunnudaginn 4. júní, en þá stígur á stokk söngvaskáldið Ólöf Arnalds. Hún er við það að ljúka upptökum á næstu sólóplötu sinni, „Tár í morgunsárið“, og verður því í góðu hugarástandi til að verma hjörtu okkar með ljúfsárum lögum sínum og ljóðum, nýjum og eldri í bland ásamt eigin útfærslum á þjóðþekktum lögum. 

Ólöf hóf sólóferil sinn með hinni rómuðu „Við og við“ sem hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir. Hún var valin í hóp bestu platna ársins af Paste Magazine auk þess sem eMusic valdi hana eina af bestu plötum fyrsta áratugarins. Fyrir „Innundir skinni“ hlaut Ólöf Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónsmiður ársins en platan var tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Þá hefur Ólöf gefið út plöturnar „Sudden Elevation“ og „Palme“ en báðar hlutu þær mikið lof gagnrýnenda. Ólöf hefur leikið á tónleikum víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Ástralíu og komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Fjöldi dagblaða, tímarita, vefmiðla, útvarps- og sjónvarpsstöðva víðsvegar um heim hafa fjallað um hana og verk hennar. Mætti þar nefna The New York Times, The Guardian, Vanity Fair, Paste, BBC, KEXP og Uncut. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt. 

Hér má sjá dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni. 



 

Til baka í viðburði