Píanóleikarinn og tónskáldið Magnús Jóhann býður upp á hugljúfa síðdegistónleika á Gljúfrasteini þann 13. ágúst næstkomandi. Hann mun flytja eigin tónsmíðar og annarra með spunaívafi á flygil skáldsins og mögulega verður hann með hljóðgervil sér við hlið. En það kemur allt saman í ljós.
Magnús Jóhann Ragnarsson hóf tónlistarnám 7 ára að aldri hjá Snorra S. Birgissyni, lærði á klarinett í tvö ár í TSKD og útskrifaðist úr MÍT með framhaldspróf í djasspíanóleik árið 2019 en þar lærði hann hjá Eyþóri Gunnarssyni, Agnari Má o.fl. Frá árinu 2015 hefur hann verið mjög virkur sem tónlistarflytjandi, tónskáld og upptökustjóri en hann hefur leikið inná hundruði hljóðrita og kemur fram á fjölmörgum tónleikum á ári hverju. Moses Hightower, Bríet, Ingibjörg Turchi og Bubbi Morthens eru á meðal þess listafólks er hann hefur unnið með svo að nokkur dæmi séu tekin. Sjálfur hefur hann gefið út þrjár sólóplötur og eina stuttskífu. Pronto 2016, Without Listening 2020, Skissur (EP) 2021 og Owls (Original Score) 2022. Auk þeirra hefur hann einnig gefið út dúóplöturnar Án tillits 2021, með Skúla Sverrissyni og Tíu íslensk sönglög 2022, með GDRN. Árið 2022 hlaut hann tónlistarverðlaun fyrir Án tillits, hljómplötu hans og Skúla, auk tveggja tilnefninga. Hann hefur einnig fengist við kvikmynda- og leikhústónlist, m.a. fyrir Grímuverðlaunaverk Tyrfings Tyrfingssonar, Helgi Þór Rofnar. Tónlist Magnúsar við verk Tyrfings kemur út á nýrri hljómplötu sem ber heitið Rofnar í vetur. Magnús var valinn tónlistarflytjandi ársins í opnum flokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2023.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins.