Íslenski tangóinn í tali og tónum

Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir gera íslenskri tangótónlist skil í tali og tónum.

Söngkonan Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir og harmóníkuleikarinn Ásta Soffía Þorgeirsdóttir gera íslenskri tangótónlist skil í tali og tónum á stofutónleikum Gljúfrasteins 20. ágúst. Á efnisskránni eru verk eftir ýmsa höfunda sem flestir voru fæddir á ofanverðri síðustu öld, til dæmis Friðrik Jónsson, Vilhelmínu Baldvinsdóttur og Tólfta september, en blómaskeið íslenska tangósins var í kringum 1930-1955. 

Ásta Soffía setti sér snemma það markmið að nýta fjölbreytt hljómalandslag harmóníkunnar til að útsetja og spila alls kyns tónlist á hljóðfærið. Hún byrjaði átta ára að læra á harmóníku hjá Árna Sigurbjörnssyni í Tónlistarskóla Húsavíkur. Á framhaldskólaárunum stundaði Ásta Soffía diplómanám við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla FÍH. Þá lauk hún framhaldsnámi í Ósló og meistaranámi frá Hochschule für Musik Freiburg í Þýskalandi. Árið 2018 varð hún Noregsmeistari í harmóníkuleik í aldurshópnum 18 ára og eldri.   

Þorgerður Ása nam söng við Norræna vísnasöngskólann í Kungälv í Svíþjóð og við Tónlistarskóla FÍH. Hún sendi frá sér sína fyrstu plötu, Í rauðum loga, árið 2020 og hefur komið fram við ýmis tækifæri undanfarin ár, bæði hér heima og á Norðurlöndunum, ýmist ein þar sem hún syngur við eigin undirleik á gítar eða með öðrum. Í söng sínum leggur hún mesta áherslu á að miðla texta og tilfinningu. Samhliða tónlistinni hefur hún starfað á Rás 1 sem þula og dagskrárgerðarmaður, meðal annars með þættina Fólkið í garðinum. 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.  

Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins


 

Til baka í viðburði