Diddú og Davíð Þór á tvöhundruðustu stofutónleikum Gljúfrasteins
05/07 2023Stofutónleikar Gljúfrasteins hafa verið fastur liður í starfseminni frá því 2006 og sunnudaginn 9. júlí verða stofutónleikar númer 200 í stofu skáldsins. Á þessum tímamótatónleikum munu Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona og Davíð Þór Jónsson píanóleikari koma fram og syngja og spila af hjartans list. Efnisskráin verður fjölbreytt, lífleg og einlæg. Á tónleikunum munu þau minnast Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara sem var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins og lagði línur um fyrirkomulag tónleikahalds á Gljúfrasteini. Diddú og Davíð eru bæði sannkallaðir vinir Gljúfrasteins og hafa margoft sungið og spilað í húsi skáldsins.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika. Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2023 er haldin í samstarfi við vinafélag Gljúfrasteins.

Diddú og Davíð Þór með sól í augum í garðinum á Gljúfrasteini.